04.04.1940
Neðri deild: 30. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

101. mál, jarðir í Ölfusi

*Eiríkur Einarsson:

Þegar þetta frv., eða annað frv. samskonar, var til 1. umr. í fyrra, tók ég fram það, sem ég vil endurtaka nú, að ég legg áherzlu á það, að ef ráðizt er í svo stórvægilegar framkvæmdir sem hér er farið fram á, og ég er alveg sammála frsm. í því, að hér er um stóra hugmynd að ræða, þá verði tekin landsvæði, sem líklegust eru, miðað við samgöngur og jarðgæði, og leitaðir uppi líklegustu staðirnir, og ég tel, að þarna sé komið niður á heppilegan stað til þeirra hluta, ef það á að hefjast handa um slíkt. En viðvíkjandi því, sem bæði kemur fram í frv. sjálfu og frsm. hafði orð á, að vafasamt væri, hvort það þyrfti nema hluta af löndunum og hvort ekki yrði nægilegt eftir handa bændunum til þess að varðveita bú sitt, vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að ég held, að varla sé rétt að byggja of mikið á því, að þetta takist. Það er alveg rétt, að á slíkum löndum sem þessum mega menn ekki ætla of mikið á bústofninn, en þá kemur það til greina, að þessar jarðir eiga lönd, sem er svo háttað, að þau liggja í skákum alla leið frá Öfusá upp úr, um veginn með Ingólfsfjalli og upp í Ingólfsfjall, og eru þetta beitilönd þessara jarða. Er ekki lítil jarðabót að þeim, því bæði er þetta þurrt land og allmikið gróðurlendi og hefir aðra fjárbeitarkosti. Ef þessu yrði nú ráðstafað þannig, að jarðirnar Árbær, Þórustaðir, Hellir, Holt og fleiri jarðir t. d. ættu að fá að halda sér sem sérstök býli með sínum túnum og heimarækt og litlum ræktuðum skákum út frá túninu, en svo yrðu keypt löndin, sem liggja frá upp að þjóðveginum, þá ættu ýmsar þessara jarða ef til vill beitilönd uppi í fjallinu, og þá væru jarðirnar hlutaðar sundur. Þetta horfir dálítið andstætt við, og vil ég geta þess, að þetta er atriði, sem þarf að taka tillit til. Ég held það sé með þessar jarðir eins og margar aðrar jarðir víðsvegar um landið, að meðan ræktunin er ekki komin lengra en raun ber vitni um, bjargast bændur ekki svo lítið á víðlendinu. Það er algild regla á Íslandi, að meðan jarðræktin er lítil, eru mikil not af víðlendinu.

Ég vildi láta þetta í ljós, til þess að kynna þá skoðun mína, bæði vegna þess, að einhverstaðar verður að byrja á þessu, og að þetta er líklegur staður, og ég held, að það þurfi að miða að því annaðhvort að gera þetta ekki eða þá alveg, og að ef þarna á að stunda fjárrækt, verði öll jörðin að vera notuð af sama manninum. Hitt er annað mál, að ekki væri nauðsynlegt, að öll gæði, sem fylgja jörðunum, þyrftu að fylgja með, t. d. laxveiði. Þegar til þess kemur að semja við þessa menn, þá efa ég ekki, að gætt verður fyllstu sanngirni í garð þeirra, sem hér eiga hlut að máli, og lít ég því framtíð þessa máls björtum augum.