26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Að ég tek hér til máls, er af því, að þótt þetta frv. sé að sumu leyti eðlilegt, tel ég vafasamt, hvort það á þó rétt á að ná samþykki. Eins og kom fram í umr., er stefna frv. sú, að létta tollum af kassaefni í fiskumbúðir. Það hefir nú ekki verið sýnt fram á, hver er sá mikli verðmunur á kassaefni og þeim kössum, sem búnir eru til í landinu, og hefði verið fróðlegt að sjá þann mun, svo hægt væri að dæma um hann með rökum. Mér skilst, að það sé meiningin að létta á útgerðinni með þessu, en það er önnur hlið á þessu, og það eru þau störf, sem skapast við smíði þessara kassa og eru ekki óverulegur liður. Þetta er starfrækt hér í Reykjavík og einnig á Ísafirði og víðar. Þetta heyrir undir iðnað, sem í sjálfu sér framfleytir allmörgum mönnum. Mér skilst, að kassagerðin hér í Reykjavík hafi greitt í vinnulaun upp undir 70 þús. krónur, auk þess sem hún náttúrlega greiðir tolla, en ef farið er inn á þá braut, sem frv. gerir ráð fyrir, lít ég svo til, að það mundi draga úr þessu. Ég veit það, að kassagerðin hér hefir aflað sér alldýrra véla, sem þurfa að geta rentað sig.

Eins og nú er háttað, flytur kassagerðin inn viðinn, flettir honum í hæfilegar þykktir, en mér skilst, að frv. ætlist til, að þetta verði gert erlendis, svo það er þessi vinna, sem mundi flytjast burt úr landinu. Það er vert að geta þess, að við höfum hér hliðstæða starfsemi við kassagerðina, þar sem er síldartunnugerðin, og veit ég ekki betur en að það efni sé tollfrjálst og þannig lyft undir hana. Síldartunnugerðin var stofnuð í fyrsta lagi til þess að skapa atvinnu, og svo til þess, að alltaf væru til tunnur í landinu. Mér finnst þetta mjög hliðstætt með kassana, og því tel ég það mjög vafasamt, hvort rétt er að grípa til slíkra ráðstafana og breyta tollskránni fyrir ekki stærra atriði en þetta er. Ég mun greiða þessu máli atkv. til 3. umr. og sjá, hvort fjhn. getur fundið nokkra leið til þess að tryggja, að þetta verði ekki til tjóns.

Ég vildi nú segja nokkur orð viðvíkjandi brtt., sem hv. þm. Vestm. flytur á þskj. 185 um flugelda. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það er rétt stefna að létta tollum af öllu, sem viðkemur björgunartækjum, og tek í því efni undir með hv. 11. landsk. Ég hygg, að alstaðar annarstaðar sé það gert svo létt sem unnt er að afla slíkra tækja og að þau séu höfð eins ódýr og kostur er á, og vil ég ekki, að það sé á nokkurn hátt torveldað fyrir skipum að eignast slík tæki. En það verður að gera mikinn greinarmun á því, hvort þessa hluti á að nota í björgunarskyni og til að auka öryggi eða aðeins til skemmtunar. (JJós: En ef það þarf að breyta tollskránni til þess?). Ef til þess þarf að breyta tollskránni, þá er ég ekki svo einstrengingslegur, að ég telji ekki, að það megi, þegar nauðsyn ber til, þó ég sé í miklum vafa um, að það eigi að gera út af kössunum. Ég vildi, að athugað væri, hvort ekki væri rétt að veita einhverri sérstakri stofnun leyfi til þess að gera innkaup á þessum öryggistækjum, t. d. Slysavarnafélaginu, Skipaskoðun ríkisins eða einhverri slíkri stofnun, sem hefði „lager“ af þessu og hefði það undir höndum til björgunar skipa.