11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Út af því, sem hv. 6. landsk. þm. sagði um þessi mál, þá vildi ég þakka hans góðu undirtektir. Ég tel það mjög áríðandi, að þessi breyting verði lögleidd strax, eins og hv. flm. í Ed. töldu mjög aðkallandi að breyta tollskránni að því er snertir innflutning á fiskumbúðum. Þetta stafar af því, að upp á síðkastið hefir útflutningur á ísuðum fiski aukizt mjög mikið, og má búast við, að sú aukning fari enn vaxandi. Þó að ég vilji ekki beinlínis neita því, að leiðrétting kunni að fara fram á tollakjörum ýmissa iðnfyrirtækja, má búast við, að á því verði nokkur dráttur. Þess vegna vil ég mælast til þess, að þessi till. mín verði að lögum á þessu þingi.

Ég get ekki sagt með vissu um, hve tollurinn yrði mikill á hvern kassa, en mér þykir ósennilegt, að hann verði ekki meiri en 10 aurar, af því að tollurinn á efninu er 10 aurar á hvern teningsmetra, og auk þess 8% af verðmætinu í kössunum. Efnið í hvern kassa mundi kosta meira en 1 kr., þar sem 10 aurar færu í uppbót á verðtollinn. Hinsvegar játa ég, að þessir tollar eru ekki háir.

Ég vil taka fram, ef hv. þm. kann að hafa sézt yfir það, að í brtt. minni er orðalagið um endurgreiðsluna þannig, að endurgreiða skuli tolla af trjávið þeim, sem kassar hafa verið unnir úr. Þetta orðalag stafar af því, að þegar rætt var um þetta mál á síðasta þingi, kom fram sú skoðun, að ef undanskilinn væri tollur á trjávið til fiskumbúða, þá væri auðvelt í skjóli þess ákvæðis að smygla inn trjávið, sem notaður yrði til annara hluta, og það jafnvel í stórum stíl. Til þess að koma í veg fyrir þetta, hefi ég orðað till. þannig, að ekki er hægt að fá endurgreiðslu, nema að sanna það, að efnið hafi verið notað í kassa. Það hafa sagt mér kunnugir menn að mjög auðvelt sé að fá vottorð frá útflytjanda um, hve margir kassar séu smíðaðir. Kassagerðir geta líka lagt fram sannanir fyrir því, hve mikið efni fer í kassana.

Hv. 6. landsk. þm. sagði, að æskilegt myndi vera, að fengin yrði umsögn fjmrh. um þetta efni. Þetta er alveg rétt, en þeir, sem veita eiga móttöku tekjum ríkissjóðs, munu tæplega mæla með því, að þær verði rýrðar, jafnvel þó að um litla upphæð sé að ræða. Ég spurði hæstv. fjmrh. að því, hvort hann hefði á móti því, að slík till. sem þessi kæmi fram. Hann kvaðst ekki geta bannað flutning slíkra till., en lét engin orð falla um sitt álit á málinu.

Ég vil að síðustu endurtaka það, að bæði þeir, sem fluttu frv. í Ed., og eins þeir, sem staðið hafa að brtt. við það, eru sannfærðir um, að málið þarfnast skjótrar úrlausnar, ekki sízt vegna þess, að útflutningur á fiski í kössum fer nú mjög í vöxt.