15.03.1940
Efri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjhn. þessarar hv. d. hefir flutt þetta frv. eftir ósk hæstv. fjmrh. Með gengisl. frá því í febrúar þessa árs er ríkisstj. heimilað að greiða verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og setja reglugerð um það. En hæstv. stj. hefir líklega þótt réttara að leggja fram málið í frv.formi, og er frv. þetta uppkast að reglugerð, sem fjmrn. hefir látið gera. Ég verð því að álíta, að það hafi inni að halda þau ákvæði, sem hæstv. stj. vill láta gilda um þessi efni. Grg. frv. er rökstuðning ríkisstj. fyrir málinu, en einstakir meðlimir fjhn. áskilja sér rétt til að hafa sérstaka afstöðu til einstakra atriða málsins.

Málið er mjög einfalt. Ákvæði gengisskráningarl., nr. 51 frá 12. febr. í ár, eru látin gilda óbreytt og heimfærð að ég hygg óbreytt til embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana. Í 2. gr. er reynt að leggja vinnu embættismanna og starfsmanna ríkisins nokkurn veginn niður í tímakaup til þess að finna, hvaða laun svari til hvers uppbótarflokks samkv. gengisskráningarl. Síðan l. þessi voru sett, hefir verið gengið frá samningum milli kaupmanna og annara atvinnurekenda í Reykjavík og starfsmanna þeirra, og ég hygg, að þar sé fyrirkomulag svipað og í þessari gr. Ég hafði lagt drög að því að fá í hendur þessa samninga, en það hefir ekki orðið enn, og bið ég afsökunar á því. En að því er ég veit bezt, er þar um að ræða samskonar ákvæði, og styður það þá skoðun, að ekki sé ósanngjarnt, að þannig skuli hagað launauppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins. Ég hefi að vísu heyrt þá mótbáru, sem fram kom við 2. umr. fjárl., að þessi uppbót ætti að vera lægri handa starfsmönnum ríkisins en öðrum, þar sem atvinna þeirra væri öruggari en flestra hinna. Ég skal ekki bera á móti því, að það sé rétt, að starfsmenn ríkisins hafi yfirleitt öruggari atvinnu en sumir hinna. En það er tvennt, sem mælir með því, að starfsmenn ríkisins njóti sömu kjara í þessu efni. Annað er það, að ýmsir starfsmenn ríkisins eru ekki í öruggari stöðum en ýmsir aðrir starfsmenn, sem með l. hafa fengið uppbót, og er þar skemmst að minnast, að lögð var niður ein ríkisstofnun, — og hvar var þá öryggi starfsmanna hennar? Hitt er það, að þetta öryggi starfsmanna ríkisins hefir þar verið látið koma til greina í því, að laun þeirra eru yfirleitt lág. Þeir, sem settir eru í mestar ábyrgðarstöður ríkisins, svo sem hæstaréttardómarar, biskup, landlæknir og svo framvegis, hafa hvergi nærri laun á við þá, sem stjórna sumum stórum fyrirtækjum. Og þetta hefir alltaf verið rökstutt með því, að þessar stöður væru svo miklu tryggari en aðrar. Þetta á ekki að koma fram í öllum ráðstöfunum, sem gerðar eru, þar sem einu sinni er búið að taka tillit til þessa raunverulega eða ímyndaða öryggis með því, að grunnlaunin eru þarna lægri en víða annarstaðar.

Ég tel annars ekki verulega ástæðu til að ræða um einstök atriði frv. N. hefir hugsað sér að athuga það nánar fyrir 2. umr., og getur verið, að þá verði komnar fram einhverjar brtt. við það. Ég hygg, að sumir hv. nm. hafi ætlað sér að bera fram brtt. við frv., og er því siður ástæða til að fara út í einstök ákvæði þess nú. Þó vil ég vekja athygli á ákvæðum 3. gr., þar sem segir, að ef maður tekur laun úr ríkissjóði fyrir fleiri en eitt starf, þá skuli reikna verðlagsuppbótina af samanlagðri launaupphæðinni. Þetta ákvæði þarf nánari athugunar við. Tökum til dæmis þingfararkaup. Á það að vera misjafnlega hátt eftir því, hvaða laun önnur maðurinn tekur úr ríkissjóði? Þá þarf að athuga, hvernig fara skuli með laun, er menn taka fyrir störf í mþn. t. d., en þau eru venjulega greidd sem ákveðin borgun fyrir ákveðið verk. Ég sé ekki ástæðu til þess, að ákvæðin um dýrtíðaruppbót snerti slík störf eða hafi áhrif á dýrtíðaruppbótina í heild. Þetta getur verið óþarfa aths. hjá mér, og sé auðvelt að gera þetta upp eftir hvern ársfjórðung og ákveða þar með, í hvaða launaflokki maður eigi að lenda, en ég held þó, að framkvæmd þessa ákvæðis 3. gr. verði erfið, og þarf þetta a. m. k. athugunar við. Eins þyrfti að athuga nánar ákvæði 8. gr., þar sem segir, að verðlagsuppbót skuli greiða eftir á fyrir hvern ársfjórðung og miða hana við vísitölu þá, sem ákveðin er í byrjun ársfjórðungsins. Ef dýrtíð ykist mjög, yrði það sérstaklega óþægilegt fyrir þá, sem lægra eru launaðir, að bíða í heilan ársfjórðung eftir uppbótinni. Þetta þarf nánar að athuga, og mun n. gera það milli umr. Ég hefði því haldið, að heppilegast væri með tilliti til vinnubragða að geyma frekari rökræður um þetta þar til við 2. umr. og sjá, hvaða brtt. n. muni vilja gera.