15.03.1940
Efri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég hafði ekki veitt því athygli, að þetta mál var á dagskrá, svo að ég mun ekki fara um það mörgum orðum, en aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. og hvernig það var úr garði gert. Eins og það lá fyrir síðasta Alþ., leit ég svo á, að semja ætti reglugerð sem mest í samræmi við fyrirmæli l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi, þannig að reglugerðin væri beinlínis samin í samræmi við gildandi reglur um dýrtíðaruppbót til manna, sem kæmu undir þau lög. Þar er dýrtíðaruppbótin takmörkuð með því að takmarka verðstuðulinn sjálfan, þannig að hún virðist minni en dýrtíðin segir til um. Alveg á sama hátt er gert í þessu frv., og eftir meðferð þess á síðasta Alþ. var ekki hægt að sjá annað en þetta væri tilgangurinn. Þar sem rétt er að láta þingið skera úr þessu máli, þá sá ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til að breyta reglugerðaruppkastinu, en lét það fara til meðferðar. Sjálfsagt er, að þingvilji komi fram um þessi efni, og vænti ég, að samkomulag náist um þau. Að öðru leyti hefi ég ekkert um þetta að segja, þar sem ég hefi ekki verið viðstaddur umr.