15.03.1940
Efri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég sé, að það hefir verið að einhverju leyti misskilningur, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. að því er snertir till. hans um það, hvernig reikna skuli uppbót af launum þeirra manna, sem hafa á hendi margvísleg störf. Þetta hefði þær afleiðingar, að menn, sem taka laun fyrir mörg aukastörf, komast í hærri launaflokkinn. Annars var mér ekki vel ljóst, hvað hv. þm. hugsar sér í þessu efni. Aðalatriðið er, hvort eigi að láta launauppbótina ná til allra, hversu hálaunaðir sem þeir eru. Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram, að tilgangurinn með launalögunum væri sá, að bæta upp verðhækkunina, þannig að launin yrðu þau sömu eftir sem áður. Nú er alls ekki farið eftir þessari meginreglu í þessum l. og heldur ekki í gengisskráningarl. Það hefir heldur engum manni dottið í hug að halda því fram fyrr en nú, að þessi launauppbót væri gerð í þeim tilgangi að hækka launin sem nemur aukinni dýrtíð. Tilgangurinn var efalaust sá, að láta þá menn fá uppbót, sem eru svo lágt launaðir, að þeir eiga fullt í fangi með að framfleyta lífinu. Þessi lög eru því sett af brýnni nauðsyn. En á sama tíma og hagur ríkissjóðs er þannig, að veita verður ríkisstjórninni heimild til þess að skera niður útgjöldin um 35%, eru brýnustu nauðsynjamálin lögð til hliðar og verulegar framkvæmdir látnar sitja á hakanum. Á sama tíma eru ekki einu sinni möguleikar til þess, að bændur geti fengið áburð á tún sín. Á sama tíma er leikið sér að því að kasta peningum í menn, sem hafa svo há laun, að þeir lifa í allsnægtum. Hv. þm. hélt því fram, að þessir menn hefðu svo þýðingarmikil störf með höndum, að þeir þyrftu að vera hálaunaðir, en allt öðru máli gegndi um sjómenn og hafnarverkamenn. Hann hélt því líka fram, að sanngjarnt væri, að hann hefði t. d. fimmföld til sexföld laun á við venjulega verkamenn og að hann hefði sexfalt þýðingarmeiri störf með höndum. En ég álít aftur á móti, að hafnarverkamaður hafi margfalt þýðingarmeira starf að leysa af höndum, sem þjóðfélagið ætti að launa vel. Að minnsta kosti er skylda þess að sjá um, að þessir menn hafi svo góð launakjör, að þeir geti rækt sitt starf og haldið sinni starfsorku. E n það verður ekki með því fyrirkomulagi, sem er á launakerfinu samkvæmt gengisskráningarl. Það er blátt áfram siðleysi að koma með till. um að hækka stórlega laun þeirra manna, sem hafa marga tugi þús. á ári, á sama tíma og þeir, sem að framleiðslustarfinu vinna, lepja dauðann úr skel.

Hv. þm. var að tala um, að yfirleitt væri sjaldgæft, að starfsmenn ríkisins hefðu hærri en 8 þús. kr. laun á ári, hæstu launin samkv. launalögunum væru 10 þús. og það væri hámarkið hjá starfsmönnum þess opinbera. Þetta er rétt, ef aðeins er litið á launalögin, en ef sjálf launin eru athuguð, verður allt annað uppi á teningnum. Það er ekki vafi á því, að ef reiknuð eru saman laun ýmissa embættismanna, þá hafa þeir hærri laun en 8 þús. kr., og langt fram yfir það, og hér er um að ræða stórt fjárhagsspursmál fyrir ríkissjóð.

Hv. þm. gat þess, að ósæmandi væri fyrir ríkið, hve illa það launaði ráðh. sínum, þeirra núverandi launakjör væru óviðunandi, og hann rökstuddi þessa skoðun sína með því, að það væri svo óviss staða að vera ráðh. Ég læt nú vera, hversu óviss sú staða er. (MJ: A. m. k. varð hún óviss fyrir Kuusinen). Berum ráðherrastöðuna saman við stöðu hafnarverkamannsins í Reykjavík, — hvor skyldi vera óvissari staða? Ef fara ættu fram einhverjar breytingar á ráðherralaunum, ætti frekar að minnka þau, því að þegar ráðh. fer frá, skammtar hann sér alltaf þá beztu stöðu, sem til er í landinu, og hv. þm. getur ekki komið með margar undantekningar. Ég veit ekki til þess, að ráðh. hafi þurft að lepja dauðann úr skel, hvorki meðan þeir gegna þeirri stöðu eða eftir að þeir eru komnir úr ráðherrastóli. Það er undarlegt af hv. þm. að koma með slíkar röksemdir, þegar hann heldur fram hagsmunum hálaunamanna á móti hagsmunum verkamanna, og er það fremur til að segja eitthvað en til að rökstyðja sitt mál.

Viðvíkjandi því, sem hv. 10. landsk. þm. sagði um afstöðu fjhn. til þessa máls, þá skilst mér á hans till., að borga eigi uppbót af 8 þús. kr., en ekki af því, sem þar er fram yfir. Sá maður sem hefði 10 þús. kr. laun, fengi uppbót af 8 þús., en ekki af 2 þús. kr. En það er hneyksli á þessum tímum, að uppbót skuli vera reiknuð af svo háum launum, og ég tel þessa till. því gagnslaust kák. Munu síðar koma till. til bóta í þessum málum.