16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég sé ekki ástæðu til að fara inn á þetta rækilega, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á, þar sem hann vildi reyna að sanna það mál sitt með 5. gr. laga um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi, að síðasta Alþ. hefði ætlazt til, að frv. um þetta efni, sem hér er til umr., væri borið fram sem líkast því, sem afgr. voru ákvæði um verkakaup og uppbót á því á síðasta þingi.

Það, sem hv. 6. þm. Reykv. hefir gengið inn á með mér og segir, að sé rétt, er, að tíminn hafi verið svo naumur á síðasta Alþ. og komið að þinglokum, og að þess vegna hafi verið sett inn í l. ákvæðið um að heimila ríkisstj. að gefa út reglugerð um þetta. Það sýnir bezt, að ekki var ætlazt til, að þessi uppbót yrði veitt á sama hátt og uppbótin á verkakaupið almennt. Því að ef síðasta Alþ. hefði ætlazt til þess, að þessi mál væru afgr. á sama hátt í báðum tilfellum, þá gátum við gert það á fáum klukkutímum. En vegna þess að Alþ. áleit, að þessa uppbót ætti ekki að veita á sama grundvelli og almennu verkakaupsuppbótina, þá var ætlazt til þess, að ríkisstj. legði tíma í að reyna að finna nýjan, sanngjarnan grundvöll fyrir því, hvernig þetta skyldi gert. Þetta sýnir það gagnstæða við það, sem hv. 6. þm. Reykv. vill vera láta. (SK: Þetta er ekki blekking!). Það er ekki blekking, því að ég veit, að hv. þm. vita, að þegar málið var afgr. á síðasta þingi, var ekki tími til að finna grundvöll fyrir þessari uppbót, sem hér er um að ræða.

En hæstv. ráðh. kom með það í ræðu sinni áðan, sem ég hafði svarað, og gerði það af því að hann hlustaði ekki á mál mitt. Hann kemur fram með það, sem ég hafði svarað. Sama er að segja um hv. 6. þm. Reykv., sem ekki virðist hafa haft tíma til að vera hér á fundi, er ég svaraði honum. En ég er búinn að hrekja það, sem hann talaði um og sagði, að ég hefði ekki svarað. Aðrir hv. þm. hafa hlustað á mál mitt um þessi atriði, en þessir hv. þm. virðast ekki hafa viljað hlusta á mál mitt eða láta sannfærast. Hirði ég ekki um að endurtaka það, sem ég sagði um þetta, vegna þeirra, sem ekki vildu hlýða á mál mitt.