18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Skúli Guðmundsson:

Tilgangurinn með þessu frv. er sá, að ákveða greiðslu verðlagsuppbótar á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana. Ekki neita ég því, að ýmsir þessara manna hafi þörf fyrir einhverja launahækkun, eins og nú er komið, þar sem kostnaðurinn við að lifa er miklu meiri en var fyrir nokkrum mánuðum. En þörf þessara manna fer vitanlega fyrst og fremst eftir því, hvernig þeir eru settir fyrir, hve há laun þeir hafa og hvernig aðstæður þeirra eru að öðru leyti.

Ég álít, að í sambandi við þetta mál verði ekki hjá því komizt að athuga horfur í viðskipta- og atvinnumálum þjóðarinnar og hver áhrif styrjöldin kann að hafa á það, ef hún stendur lengi, sem eins vel má búast við. Við komumst ekki hjá því að hugleiða, hver áhrif styrjöldin á Norðurlöndum og í Þýzkalandi kunni að hafa á viðskiptalíf okkar Íslendinga, enda þótt þess sé enginn kostur, að gera sér þess fulla grein, þegar á það er litið, að þessar þjóðir keyptu mikinn hluta af framleiðsluvörum okkar og við fengum frá þeim verulegan hluta af okkar nauðsynjum. Hver áhrif mun það hafa fyrir íslenzkan landbúnað, ef við getum ekki á þessu ári eða því næsta selt þær landbúnaðarafurðir, sem þangað hafa verið seldar undanfarin ár, fyrir gott verð? Hvernig mun ganga að afla nýrra markaða fyrir þessar afurðir? Um það vitum við ekkert. Sama máli gegnir um ýmsar afurðir sjávarútvegsins. Við höfum á undanförnum árum selt mikið af síld til Svíþjóðar og Póllands; sömuleiðis höfum við selt síldarafurðir í stórum stíl til Noregs. Hver áhrif hefir það á fjárhagsafkomu þjóðarinnar, ef þessir markaðir lokast, og hvaða trygging er fyrir því, að við getum aflað okkur nýrra markaða annarstaðar? Því miður er engin trygging fyrir því, að það sé hægt, en við verðum að gera okkur ljóst, að á þessu veltur bókstaflega allt um afkomu fjölmennustu stétta landsins, framleiðenda til sjós og sveita og allra verkamanna, sem vinna við þá framleiðslu.

Í sambandi við þetta mál hlýtur sú spurning að vakna: Er það verjandi, að ákveða með lögum uppbót til fastlaunaðra manna án þess að taka tillit til afkomu framleiðslunnar? Ég segi nei, þetta er ekki verjandi, sérstaklega að því er þá snertir, sem bezt eru launaðir í þessari stétt. Það getur líka vel farið svo, ef svo fer sem nú horfir um lokun þessara markaða, að stj. hafi öðru að sinna en að greiða uppbætur til fastlaunamanna, sem hafa yfir 650 kr. tekjur á mánuði, en það var fellt við 2. umr. að binda uppbótina við það launahámark.

Samkv. þessu frv. á að miða uppbótina við hækkun á framfærslukostnaði eftir vísitöluútreikningi kauplagsnefndar, svo sem ákveðið er í l. frá síðasta Alþ. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi. Ég lít svo á, að þetta sé ekki nóg, en að það verði að taka tillit til fleiri hluta, og við 2. umr. lét ég þess getið, að ég myndi við 3. umr. bera fram brtt. við frv., þar sem tekið væri tillit til afkomu framleiðslunnar við útreikning á þessari uppbót. Í samræmi við það hefi ég ásamt hv. 2. þm. Árn. (BjB) borið fram brtt. á þskj. 503, og vil ég nú leyfa mér að fara um þá brtt. nokkrum orðum og skýra, hvað fyrir okkur vakir.

Brtt. gerir ráð fyrir því, að á eftir 8. gr. komi ný gr., svo sem þar greinir. Í þessari grein segir, að hagstofan skuli ársfjórðungslega reikna út verðbreytingar á nokkrum helztu útflutningsafurðum landsmanna eftir bráðabirgðaskýrslum hennar um útfluttar íslenzkar afurðir. Teljum við þar upp 11 verðmestu útflutningsafurðategundir, 7 frá sjávarútveginum og 4 frá landbúnaðinum. Við leggjum til, að þessi útreikningur verði fyrst gerður 1. júlí 1940 og að hann verði framkvæmdur þannig, að talið verði saman magn og verðmæti þessara vörutegunda, sem útfluttar hafa verið mánuðina júní 1939 til maí 1940, eða í eitt ár, og síðan reiknað út, hve mikið þessar vörur hafi hækkað eða lækkað í verði, samanborið við árið 1938 eftir meðalverði það ár. Við leggjum til, að samskonar útreikningur verði gerður 1. okt. 1940, 1. jan. 1941 o. s. frv. ársfjórðungslega, eins og áður er getið. Þessi útreikningur er mjög auðveldur: Við leggjum til, að miðað verði við verð varanna fob. á útflutningshöfn, en slíkar skýrslur liggja fyrir hjá hagstofunni á hverjum tíma, svo að þetta kostar ekki mikla fyrirhöfn. — Verði fluttar út aðrar vörutegundir en þær, sem getur í till., sem nemi 2% eða meira af heildarútflutningi landsins, eins og hann var árið 1939, skal taka þær vörur með í þennan útreikning, svo framarlega sem eitthvað af þeim tegundum hefir verið flutt út á árinu 1938.

Loks kemur það ákvæði till., sem er aðalefni hennar, að ef verðhækkun á útflutningsvörunum eftir þessum útreikningi verður minni en hækkun framfærslukostnaðar eftir vísitöluútreikningi kauplagsnefndar, skal draga helming af þeim mismun, er fram kemur, frá framfærslukostnaðarvísitölunni áður en kaupgjaldshækkanir eru ákveðnar eftir henni samkv. 2. gr. þessara laga. Ég skal nefna eitt dæmi þessu til skýringar.

Við skulum hugsa okkur, að framfærslukostnaður hafi hækkað um 20%, en á sama tíma hafi hækkun á útflutningsvörum numið 12%. Kemur þá fram 8% mismunur, og skal þá draga 4% frá stigatölu kauplagsnefndar áður en kaupgjaldshækkanir eru ákveðnar. Yrði þannig miðað við 16% hækkun í stað 20%.

Nú skal það viðurkennt, að verð á útflutningsvörum segir ekki til um afkomu atvinnuveganna, þar kemur auðvitað ekki síður til greina, hve mikið vörumagn út er flutt. En við höfum ekki búið okkur undir að leggja fram till. um það, að vísitöluútreikningurinn nái einnig til vörumagnsins, því að það er erfiðara og flóknara en svo, að hægt sé að gera það undirbúningslítið, þó að slíkt ætti vitanlega að koma til greina, þegar sett verða ný launalög. Ég hefi áður haldið því fram, að þegar til þess kæmi, bæri að setja í launalögin ákvæði um hækkun og lækkun á launum embættismanna og opinberra starfsmanna í samræmi við afkomu framleiðslunnar og atvinnuveganna í landinu á hverjum tíma. Því verður ekki í móti mælt, að það sé réttlátt, að þeir, sem eru í fastlaunuðum stöðum, beri byrðarnar ásamt öðrum að einhverju leyti, þegar illa gengur fyrir atvinnuvegunum og afkoman í heild er erfið, en njóti þess líka, þegar vel gengur og betur árar. En þó að ekki sé lengra gengið en þetta nú í því að taka tillit til verðlagsins á aðalframleiðsluvörunum, þá vil ég fullyrða, að þessar till. séu mikið til bóta, ef þær verða samþ. Það er, eins og ég hefi tekið fram, auðvelt að framkvæma þessar till., og það kostar ekki mikla fyrirhöfn að framkvæma þennan útreikning. Ég get búizt við því, að mótbárur komi fram gegn þessum till., t. d. kann vel að vera, að einhver kunni að skjóta því fram, að við hefðum átt að flytja slíka till. á síðasta þingi, þegar ákveðin var verðlagsuppbót til verkamanna og sjómanna og nokkurra fleiri manna. En þó að það væri ekki gert, þá tel ég, að þetta eigi fullan rétt á sér nú, eins og ég benti á við 2. umr.

Hér er um að ræða eingöngu fastlaunaða menn, sem eru mikið betur settir í þjóðfélaginu en meginþorri þeirra manna, sem fengu verðlagsuppbót samkv. gengisl. Flestir þeirra hafa mjög stopula atvinnu, og það er þess vegna engin trygging fyrir því, að heildartekjur þeirra verði meiri en áður, þrátt fyrir þær uppbætur, sem þeir hafa fengið á tímakaupið samkvæmt ákvæðum gengisl. Sérstaklega má búast við því, að hagur þeirra verði erfiður, ef illa gengur með sölu á okkar framleiðsluvörum og viðskipti okkar við önnur lönd þar af leiðandi dragast stórkostlega saman. Það er því allt öðru máli að gegna með þessa menn heldur en þá, sem eru á föstum launum. Nú kann einhver að segja, að það hefði verið eðlilegra, að þetta verkaði bæði til hækkunar og lækkunar á kaupuppbætur, þ. e. a. s., að ef hækkun á framleiðsluvörum yrði meiri en hækkun á framleiðslukostnaði einhvern tíma, þá ætti það að verka til hækkunar á kaupuppbætur, fyrst við leggjum til, að hún lækki, ef verð útflutningsvaranna er minna en hækkun á framleiðslukostnaði. Þetta er haft þannig vegna þess, að við teljum, að það sé ekki, eins og nú standa sakir og eins og afkoma atvinnuveganna er, ástæða til að ákveða með löggjöf kauphækkun á laun fastlaunamanna, þó að framleiðsluvörurnar hækki eitthvað í verði. Við verðum líka að athuga það, að þessi ákvæði ná aðeins til kaupuppbótar, en ekki til launa. En ég vil endurtaka það, að ég álít eðlilegt, ef ný launalög yrðu sett, að framleiðsluvöruverðið verkaði bæði til hækkunar og lækkunar á laun embættis- og starfsmanna ríkisins. Ég sé ekki, að þess sé þörf, að fara um þetta fleiri orðum, því að ég vænti þess, að hv. þdm. sé ljóst, hvað í till. felst og hvað fyrir okkur vakir, mér og hv. 2. þm. Árn., og vænti ég þess, að hv. þd. geti fallizt á till.

Ég vil að lokum undirstrika það, að ég tel, eins og nú er háttað um viðskipta- og atvinnulíf hjá okkur, alls ekki fært fyrir hv. Alþ. að ákveða með l. slíka uppbót sem hér um ræðir, án þess að hún sé að einhverju leyti háð skilyrði um það, að aðrar stéttir þjóðfélagsins geti lifað. Með öðrum orðum, að kaupuppbótin fari að einhverju leyti eftir því, hvernig þeim þegnum þjóðfélagsins vegnar, sem ekki eru svo lánsamir að vera í fastlaunuðum stöðum hjá ríkinu.