22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég tók engan þátt í umr. um þetta mál um daginn og sat þá hjá við atkvgr., enda er ég óánægður með þetta frv. að ýmsu leyti. Skal ég þó ekki nú ganga inn á þá óánægju, sem hjá mér er hvað frv. snertir sem heild, heldur aðeins snúa mér að þessu atriði málsins, eins og það liggur fyrir nú. Það liggur hér fyrir brtt. frá fjhn. við 2. gr., um það að fella aftan af gr. síðustu málsgr. Ég held, að það sé varhugavert og rangt að fella hana niður. En ég hygg, að það, sem vakti fyrir hv. Nd., þegar hún setti þetta inn, hafi í raun og veru ekki verið það, að einhver prestur til dæmis, sem ræki bú samhliða sínu prestsstarfi og hefði þannig yfir 8 þús. kr. nettótekjur, mætti ekki fá uppbót á sín laun. Ég held, að þetta orð „tekjur“ þarna sé komið inn af því, að menn hafi ekki gert sér ljósan muninn, sem er á launum, nettótekjum, skattskyldum tekjum og brúttótekjum. Og ég hygg, að það, sem hv. Nd. hefir viljað ná með þessu, sé ekki það að þetta sé miðað við 8 þús. kr. tekjur á ári samanlagt, heldur 8 þús. kr. laun úr ríkissjóði. Þess vegna vil ég leyfa mér að koma hér með skrifl. brtt. á þá leið, að í staðinn fyrir „,tekjur samanlagt“ í 2. gr. komi: laun úr ríkissjóði. Ég vil leyfa mér að leggja þess brtt. fram, en jafnframt lýsi ég því yfir, að hún kemur ekki frv. neitt nálægt því í það horf, sem ég vildi vera láta. Ég skoða hana frekast sem leiðréttingu á ritvillu, sem komizt hefir inn í frv. í hv. Nd. Því að ég vildi gera miklu fleiri breyt. á frv., ef ég færi að eiga við það á annað borð að laga frv. verulega.