22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Magnús Gíslason:

Mér skilst, eftir að hafa lauslega athugað málið eins og það kom frá hv. Nd., að þá hafi ekki verið gerðar neinar verulegar breyt. á þessu frv. frá því er það fór héðan, nema þessi viðbót, sem bætt var við 2. grein frv., að þeir, sem hafa 8 þús. kr. tekjur á ári samanlagt, fái enga uppbót á laun sín samkv. l. Eins og frá þessu er gengið nú, virðist mér þetta ákvæði lítt framkvæmanlegt, ef það á að haldast óbreytt. Í 8. gr. frv. stendur, að verðlagsuppbót eigi að greiðast mánaðarlega eftir á. En þeir, sem sjá eiga um framkvæmd á þessu, gætu ekki endanlega séð um framkvæmdir á þessu ákvæði frv., ef að l. yrði, fyrr en árið væri liðið og séð verður, hvort tekjurnar verða samtals 8 þús. kr. á árinu eða ekki. Í öðru lagi get ég ekki betur skilið en að eftir þessu ákvæði megi ekki greiða verðlagsuppbót af meiru en 650 kr. launum á mánuði, og þá gæti farið svo, að maður með 7800 kr. launum geti fengið sína verðlagsuppbót greidda, sem getur orðið 11% og getur orðið hærri, þannig að sá, sem ekki hefir 8 þús. kr. laun, að uppbótinni ekki talinni, gæti með verðlagsuppbótinni haft yfir 8 þús. kr. í laun og jafnvel meira en annar, sem hefir hærri stofnlaun, en fær enga uppbót, af því að hann fær eitthvað yfir 8 þús. kr. í laun. Ég legg til, að þessi megingalli, sem hefir orðið á frv. í hv. Nd., verði afnuminn.