28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

16. mál, vegalög

*Flm. (Pétur Ottesen):

Það er nú orðið nokkuð langt síðan breyt. hefir verið gerð á vegal., en grundvöllurinn undir þeim hefir breytzt síðan þau voru sett, því að á undanförnum árum hefir það verið svo, að jafnóðum og vegir féllu inn í þjóðvegakerfið, þar sem áður voru sýsluvegir, þá voru þeir jafnframt teknir upp í tölu þjóðvega. Með þessum hætti hafa smátt og smátt orðið þær breyt. á vegakerfi landsins, að allmargir af þeim vegum, sem áður voru sýsluvegir, eru nú að meira eða minna leyti búnir að vera sem sýsluvegir og hafa smám saman verið teknir upp í tölu þjóðvega. Á því tímabili, sem liðið er síðan vegal. var síðast breytt, en það var 1933, hafa orðið miklar og víðtækar breyt. á vegasamböndum landsins og umferð um vegi, og þess vegna er það ekki nema eðlilegt, þó að brtt. verði bornar fram. Það hafa komið fram óskir um breyt. á vegafyrirkomulaginu, sem ganga í sömu átt og lagt er til í þessu frv. og öðru frv., sem liggur fyrir þessu þingi. Einnig hafa komið fram fjölmargar brtt. í sömu átt á undanförnum þingum, en það hefir ekki tekizt að fá framgengt neinum breyt. á vegal. á þessu árabili, en ég býst við, að eftir því, sem lengra líður, þyki sanngjarnt, réttlátt og eðlilegt, að teknar verði aftur upp breyt. sem eðlileg afleiðing af þeim samgöngubótum og umbótum á vegakerfi landsins, sem hafa orðið á seinni árum. Mér virðist því eðlilegt, að þeir vegir, sem eru taldir upp í brtt. mínum á þskj. 16, verði teknir upp í þjóðvegakerfið, eins og því hefir verið háttað á undanförnum árum.

Ég þarf ekki að fjölyrða um hinar einstöku brtt., því að ég hefi gert það hér áður og auk þess hefir verið gerð grein fyrir þeim ástæðum, er liggja til grundvallar fyrir þessu frv. í grg. þess. Ég vil aðeins bera fram þá ósk, að Alþ. taki nú þessu máli þannig, að það fái nokkra afgreiðslu, og vildi ljúka máli mínu með ósk um að þessu frv. verði vísað til samgmn., að þessari umr. lokinni.