08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (1994)

9. mál, brúasjóður

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. frsm. telur enga leið aðra en aura saman á mörgum árum til brúagerða. Hann færði engar röksemdir fyrir þessari staðhæfingu sinni. (PZ: Það er reynsla undanfarinna ára). Það er að vísu rétt, að í fjárlfrv. er ekki ætluð stór upphæð til brúagerða, en það er vegna þess, að brúagerðirnar eru eitt af þeim verkum, sem lítt mögulegt er að hrinda í framkvæmd eins og nú standa sakir vegna gjaldeyrisvandræða. Slíkt þarf engan að undra. Hitt er vantraust á Alþ., að það sjái ekki nauðsyn á brúagerðum og veiti til þeirra fé á hverjum tíma eftir því sem ástæður leyfa. Það hafa ýmsar stórár verið brúaðar fyrir bein framlög úr ríkissjóði, svo sem Ölfusá, Þjórsá og Hvítá í Borgarfirði. Ég efa ekki, að Alþ. muni framvegis veita fé til þessara þörfu framkvæmda, þegar þess er kostur.

Hv. frsm. sagði, að benzínskatturinn væri lægri hjá okkur en annarstaðar, en hann gat ekki um, hve hátt benzínverðið er orðið hér. Ég ætla, að það sé nú orðið hærra hér en í öllum nálægum löndum, vegna hins mikla aðflutningskostnaðar. Og hver hækkun kemur niður á almenningi í hækkuðum fargjöldum og flutningsgjöldum, hvort sem sú hækkun stafar af hækkuðu aðflutningsgjaldi eða sköttum.

Ég get tekið undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði áðan, að það sé hægt að byrja á þessum smáálögum, — en hvar verður hætt við slíka stefnu? Nóg eru verkefnin, sem bíða framkvæmda.