14.03.1940
Efri deild: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2008)

9. mál, brúasjóður

*Magnús Jónsson:

Ég verð að játa, að ég skildi ekki upp á víst, hvort þessar upplýsingar hv. þm. stóðu beint í sambandi við brúargerðir, svo ég held, að ég leiði þær hjá mér.

Ég kannast við, að ef mín brtt. verður samþ., þá gengur verkefnið hægar, en þetta er það, sem alltaf er verið að deila um, því að einn vill fara hraðar en annar. Það þarf ekki endilega að stafa af því, að einn hafi meiri áhuga fyrir málinu en annar, heldur eru skiptar skoðanir um það, hvað sé heilbrigt og fært að fara langt. Það er enginn vandi að vera sannur framfaramaður, ef það er ekkert annað en leggja nógu mikil gjöld á. Þeir, sem vilja fara hægar, geta eins vel gert það af þeim ástæðum, að þeir telja þá betur tryggt, að framkvæmdum sé haldið áfram og hægt að standa undir þeim útgjöldum, sem þær hafa í för með sér.

Eins og ég gat um við 2. umr., þá er ekkert púður fundið með þessu frv., þó þetta gjald sé lagt á. Það má eins gera það með öðru móti. Það má eins stinga upp á nýjum gjöldum, sem gefa tekjur í ríkissjóð, til þess að standa undir þessu. Það er því ekkert púður fundið með þessu út af fyrir sig.

Mér þykir það undarlegt mjög, að heyra þennan hv. þm. halda því fram í samhandi við þetta frv., að öll stórbrúasmíði hafi verið stöðvuð, því alltaf hafa við og við verið byggðar stórbrýr. Það hefir verið byggt yfir Markarfljót, vesturvötn Héraðsvatnanna og Skjálfandafljót. Ég man ekki eftir fleirum í svipinn, því ég hefi ekki kynnt mér þetta, en það er alltaf verið að byggja brýr. Það er augljóst, að þótt hver einstök brú kosti mikið, er hægt að gera þetta eins og aðrar framkvæmdir, að veita fé til þess á fjárlögum, en það þarf bara að aura saman til þess. Það mætti alveg eins segja, að það væri ómögulegt að koma veginum yfir Holtavörðuheiði eða Vatnsskarð. Þetta er aldrei hægt á einu ári, og ef tekið er nógu stórt stykki, er hægt að láta sér vaxa það í augum. Það, sem þarf að gera, er bara að taka það í nógu mörgum áföngum.

Hv. þm, reiknar 50 til 70 ár fram í tímann. sem það mundi taka að brúa þessar ár. Ég held ekki, að þessi útreikningur sé til neins. Við vitum ekkert um það, hvort talað verður um þetta eftir 50 ár. Vitum ekkert, hvort benzín verður notað eftir 50 ár. Það þýðir ekkert á þessum tímum að vera með þessa útreikninga. Væri það ekki undarlegt, ef útreikningar hefðu verið um það árið 1870, hvað nú mundi verða? Það bendir líka allt til þess, að eftir 50–70 ár verði margt og mikið breytt. Ég býst við, að hv. þm. viti álíka mikið um þetta eins og hann og presturinn, sem hann átti tal við, vissu um annað líf, — það er svo margt, sem breytist.

Með því að taka þessa fjáröflunarleið eins og hún liggur fyrir ætti að vera hægt að safna fé, sem mætti nota í þessu skyni og vinna með því, og ætla ég ekki að vera á móti því, að það yrði tekið inn á fjárlög. Sjóðurinn ætti að geta orðið tilefni til þess, að ráðizt væri í verkið. Nú er útlitið þannig, að ekki eru líkur til þess, að hægt verði að fá innflutt efni til stórbrúa. svo þó að þessu yrði skipt, yrði sá hluti, sem til brúargerða félli, nægur, og með því móti er þetta komið meira í þá átt, sem ég vil, að það stefni, nfl. að féð sé greitt úr ríkissjóði í þessu skyni. Ég tel þá eina aðferð betri, og það er að bera fram tilt. á fjárl. um brýr og aðra nauðsynlega hluti og ræða þær á þeim vettvangi, sem heyrir til slíkum málum, sem er undir umr. um fjárl. Brýr eru ekki að neinu leyti frábrugðnar öðrum framkvæmdum, sem ráðizt er í hér á landi. Þetta er alveg hliðstætt öðrum framkvæmdum ríkisins.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en hygg, að erfitt sé að neita því, að þessar till. mínar eru mjög sanngjarnar, og er ég viss um, að ef frv. yrði samþ. með þessum breyt., yrði það vinsælla en ella. Ég tel ekki heldur rétt að fara inn á þá braut að taka þannig sérstakar tekjur í ríkissjóð.