04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2027)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Mér finnst gæta í sambandi við þetta frv. af hálfu Framsfl. mjög svo einkennilegrar stefnu, ekki sízt ef miðað er við fortíð þess flokks. Það er eiginlega talað um í þessu frv. að leggja skatt á skuldir, sem þýðir í þessu sambandi að leggja skatt á neyzlu manna í bæjum. Og í þessu tilfelli mun þessi skattur beinlínis velta yfir á þá, sem kaupa rafmagn, sem flestum hverjum þykir nú vera nægilega dýrt fyrir.

Og ég verð að segja það, að það er einkennilegt að taka upp þessa skattstefnu, einkum með tilliti til þess, hvernig komið er yfirleitt um skuldir hér í landi. Ég hygg, að það myndi þykja ákaflega skringilegt að leggja sérstakan skatt á mjög skuldug fyrirtæki með tilliti til þess, að þau hefðu fengið svo mikið lán frá því opinbera og notið samskonar fríðinda, að þau ættu að borga sérstakan skatt af því.

Mér virðist nær, ef á að ná þessum skattstofni, að leggja skattinn á einstök fyrirtæki hér á landi, sem njóta ábyrgðar ríkisins, eins og t. d. bankarnir. En engum dettur í hug að koma með sérstakar till. í þá átt. Ég verð þess vegna að segja það, að hér virðist miðað við það hjá Framsfl., að bæta einum skatti við kaupstaðarbúa í viðbót við alla aðra, og fara þá kyndugu leið í þessu sambandi, að leggja alveg sérstakan skatt á skuldir. Það er alveg bersýnilegt, að hér er verið að flýja frá því að þora að leggja skatt á þær eignir, sem til eru í landinu og gefa sérstaklega mikinn arð. Þetta verður því meira áberandi, þegar nú fyrir tveim árum er búið að undanþiggja stétt, sem grætt hafði vel, togaraútgerðina, frá skattgreiðslu. Þetta er því einkennilegra, sem eignarskattur er mjög lágur hér á landi, og ekki hafa komið fram till. frá Framsfl. um að hækka bann verulega. Það virtist sönnu nær í landi, þar sem líklega 1 þús. landsmenn eiga um 80 millj. kr. í eignum (ég tek lægstu tölur í skattframtölum), að leggja eitthvað hærri skatt á þá, sem slíkar eignir eiga, heldur en að leggja sérstakan skatt á skuldir í landinu, og þá sérstaklega á neytendur eins og neytendur rafmagns.

Þegar Framsfl. kemur fram með svona frv., er bersýnilegt, hve hræddur hann er við að leggja skatt á eignamennina hér í Reykjavík.

Ég skal ekki segja, hvort þeir í Framsfl. eru orðnir svo mjög tengdir þeim og orðnir svo fastir í sessi hér í Reykjavík. En hvernig sem það er, þá er þetta mikil breyting á skattstefnu Framsfl. frá því árið 1927, sem er alveg sérkennandi fyrir þetta frv. Þá kom það fram í sambandi við stofnun byggingar- og landnámssjóðs, að upphaflega virtust þeir menn, sem fluttu það frv., þora að ætlast til þess, að skattur yrði lagður á sérstaklega miklar skuldlausar eignir og tekjur til ágóða fyrir þá sjóðsstofnun. En það var að vísu fljótlega horfið frá því af Framsfl. og ríkissjóður látinn leggja til upphæðina með því m. a. að hækka tollana. Nú er svo langt komið hjá Framsfl., að þeim dettur ekki í hug að leggja til hér á Alþ., að reyna að bæta kjör þeirra, sem búa í sveitum, með því t. d. að koma upp rafstöðvum og þess háttar með því að taka fé til þess af skuldlausum eignum hér í Reykjavík, heldur ætla þeir að taka það með því að hækka gjöld þau, sem neytendur almennt þurfa að greiða.

Ég vildi bara minnast á þetta hér í sambandi við þá einkennilegu tekjuöflun, sem hér er ætlazt til, að verði viðhöfð. Það hefir hingað til þótt fyndni eða öfugmæli, þegar talað hefir verið um að taka af þeim, sem ekkert eiga, en það virðist eiga að fara að vera regla í íslenzku skattalöggjöfinni.

Ég skal vera fyrstur manna til þess að viðurkenna, að það eigi að koma upp rafveitum í sveitum, en ég álít, að það eigi að gera það á kostnað þeirra, sem eiga stóreignir í landinu, en ekki á kostnað þeirra, sem svo að segja ekkert hafa.