18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2039)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Ásgeir Ásgeirsson:

Það hefir verið lögð sú spurning fyrir mig, hver meining væri með því að vísa öllum rafveitufrv. til hæstv. ríkisstj. Ég get lýst því yfir sem minni afstöðu, að ég tel, að svo eigi að vera hvað þetta mál snertir, því að það er umfangsmikið og myndi verða bezt undirbúið af hæstv. ríkisstj. Svo stórt „princip“-mál sem það, að taka gjald fyrir ábyrgðir, er réttast að verði nákvæmlega athugað af hæstv. ríkisstj. Það er hennar hlutverk að meta slíkar greiðslur og setja ákvæði þar að lútandi. Ég hygg því, að það muni vera líkt um bæði þessi frv., að bezt væri að vísa þeim til stj.

Ég þarf ekki að svara hv. 1. þm. Rang. með langri ræðu, svo sem þeim orðum hans, að fulltrúar þeirra, sem búa við dýrar rafveitur, væru helzt mállausir hér á Alþ. Það er óhætt að segja, að fyrir því mun séð í fjárl., að fjárveiting sú, sem um ræðir, verði þannig, að hana mætti svo að segja afnema, ef þörf gerðist vegna fjárhags ríkisins. En í þeirri óvissu, sem nú ríkir, virðist verða að reyna að finna einhverja tryggari leið til fjáröflunar í þessu skyni.

Það var helzt á hv. 1. þm. Rang. að skilja, að meiningin væri sú, að ekki verði byrjað nú strax að leggja fram fé í þessu skyni. En mér skildist svo samkv. samtali á fundi þeirrar n., er fékk þetta frv. til meðferðar, enda er nú svo til ætlazt, að byrjað verði nú strax á því að leggja fram framlög gegn ákveðinni upphæð frá hlutaðeigandi aðilum. Slík framlög eru ekki ákveðin í sjálfu frv., því að flm. þess hafa ekki treyst sér til að gera till. um slíkt eins og nú standa sakir. En um ábyrgðir, „provision“, Útvegsbankann, mjólkursölusamlagið né neitt slíkt ætla ég ekki að tala.

Ég vil svo að endingu benda á það út af því, sem sagt hefir verið um strjálbýli og þéttbýli, að í Noregi og Svíþjóð er það talin regla, að allt of kostnaðarsamt sé að leggja raflagnir þar, sem strjálbýlla er en sem svarar 35 íbúum á hvern ferkm., og þess vegna er ekki alstaðar talið fært að byggja rafveitur fyrir heil héruð í þessum löndum. En slíkt þéttbýli er ákaflega fágætt í sveitum þessa lands, og það myndi þurfa mikinn styrk til þess að unnt væri að koma upp rafveitum fyrir hið mikla strjálbýli í sveitum okkar, enda er það um þetta frv. að segja, að það gengur alls ekki í þá átt, að styrkja rafveitur í strjálbýlum sveitum. Þetta frv. er alls ekki að mestu leyti flutt til hagsbóta fyrir sveitastrjálbýlið. Menn eru nú búnir að verða varir við það hér á Íslandi, að það hefir í sumu verið helzt til of langt gengið af þeim mönnum, er töldu, að öllu væri hægt að bjarga í þessum efnum. Ég þekki það úr mínu kjördæmi í síðastl. 20 ár, að það hefir oft verið reynt að telja mönnum trú um hið ómögulega í þessum efnum, sem aldrei kemur til framkvæmda, m. a. það, að rafmagnið skapaði sitt eigið verð á þann hátt, og að ekki væri hægt að veita sér aðra hluti, er hefðu eins mikið gildi eins og þetta. Þetta hefir gert það að verkum, að menn hafa reynt að útvega sér ódýr lán til raflýsingar, en ódýr lán hrökkva aldrei langt, til þessa þarf styrki, og þá meira að segja svo háa, að stórfé nemi.