28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2070)

19. mál, verðuppbót á kjöti og mjólk

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Út af þessari fyrirspurn vil ég geta þess, að það er vitanlega ekki landbrh., sem ræður verðiagi á landbúnaðarafurðum. Það hefir aldrei verið nema að litlu leyti ákveðið í samráði við hann, heldur hefir það verið falið verðlagsn. að ákveða það. Þó að ég hafi fylgzt með því, þegar meiri háttar verðhækkanir hafa verið gerðar, hefi ég þar þó ekki ráðið, hvorki til né frá, hvaða ákvörðun þar hefir verið tekin. En viðvíkjandi þeirri verðhækkun á kjöti, sem hér hefir verið rætt talsvert mikið um, þá mun verð á því vera nú eins og það varð við síðustu breytingu 19 eða 20% hærra en á sama tíma í fyrra. Þetta mál, sem svo mikið hefir verið rætt, álit ég, að hafi því verið rætt af verulegum misskilningi. Það er vitað mál, að verðiagið var lögskipað frá síðastl. ári, eða á meðan gengisl. voru í gildi eins og frá þeim var gengið, og það hefir orðið að setja verðlag á kjöt síðasta haust hið sama samkv. ákvæðum l. og það hafði verið 1938. Bændastéttin hikaði ekki við, þó að verið hefðu hjá henni erfið ár, eða fulltrúar hennar, að taka á sig þá byrði, sem í raun og veru var lögð þeim á herðar með gengisl., þ.e. að borga nokkurn hluta af kaupgjaldi þeirra manna, sem unnu við sjávarsíðuna, með því að selja vörur sínar undir verði, því að það var í raun og veru gert á síðasta hausti og allt þangað til hækkunin fór fram. Okkur er það fullkomlega ljóst, og bændum er það líka ljóst, að til þess að sæmilega gangi fyrir landbúnaðinum, verður að vera til staðar atvinnulíf við sjávarsíðuna, sem var mjög aðþrengt, og þess vegna var gengisbreytingin gerð. Og bændur vissu líka, að þessa byrði yrðu þeir að taka á sig, til þess að það gæti gengið, og jafna metið í þjóðfélaginu og nota markaðinn fyrir þessa vöru.

Í haust var kjöt, sem lá fyrir utan þetta verðlag — stórgripakjöt — selt með eins háu verði og dilkakjöt, og í Noregi hefir verðlag verið á því verulegum mun hærra heldur en á innlendum markaði. En þar sem. svo hefir þó greiðzt fram úr við sjóinn og meira líf færzt í atvinnureksturinn — og þó að það hafi ekki gengið vel, þá hefir það gengið svo vel, að sjávarútvegurinn hefir komizt í bili úr mestu erfiðleikunum, sem áður þrengdu að honum, — þá get ég ekki litið svo á, að bændur séu skyldugir til að greiða þetta gjald úr sinum sjóði til þess að atvinnureksturinn haldi áfram. Og að því leyti álít ég þessa verðhækkun réttláta. En þó að þetta komi niður á neytendum, þá er þó svo örugglega frá því gengið, að kaupgjald verkalýðsins hækkar alltaf 3 mánuðum á eftir í samræmi við þessa hækkun eins og síðast. Mér finnst ekki réttlátt, eins og ástatt hefir verið með landbúnaðinn, og bændur hafa átt við margskonar erfiðleika að stríða, að gera þær kröfur til þeirra, að þeir selji nú vörur sínar undir verði. Og ég get upplýst, að auk þess sem markaður er opinn til Englands, þar sem fyrst átti að halda honum töluvert niðri, en hefir ekki tekizt, vegna þess að það kom bara ekki nóg kjöt á markaðinn, þá kom það fyrir, að Svíar leyfðu 200 smál. meira af kjötinnflutningi til sín héðan fram yfir það, sem við höfum haft, fyrir 7 aurum hærra verð pr. kg. fob. hér í Reykjavík heldur en fékkst fyrir það í heildsölu hér í Reykjavík á sama tíma.

Annaðhvort hefði með valdboði orðið að banna útflutning á þessari vöru eða að gera kjötið upptækt hjá bændum og selja það undir verði. Aðrahvora leiðina hefði orðið að fara, því að þegar kjötið hækkaði, sagði Sláturfélag Suðurlands. við getum ekki varið það fyrir okkar umbjóðendum að selja kjötið hér, þegar við getum fengið meira fyrir það með því að flytja það út. Það verður þá að taka fram fyrir bendurnar á okkur með valdboði. Það hefir orðið mikil óánægja út af verðhækkun þeirri, sem orðið hefir á innlendu vörunum, en á það má benda, að framleiðslukostnaður við þær hefir hækkað, og það stórkostlega. T. d. hefir tilbúinn áburður, sem er mjög stór liður í þessari framleiðslu, hækkað um 50%. Má jafnframt benda á það, sem eru veruleg rök að mínu áliti, að samkv. skýrslum um verðhækkun á erlendum og innlendum vörum, — en ég álit, að verðhækkunin á innlendu vörunum eigi að vera mínni, ef mögulegt er, — þá er það ekki sambærilegt, hvað erlendar vörur hafa hækkað meira. Margar nauðsynjavörur, sem fluttar eru til landsins, hafa hækkað um 50 og upp í 80%, en innlendar vörur, t. d. mjólk, hefir hækkað um 9–10%, og kjöt, eftir því sem ég bezt man, hefir hækkað um 19%. Hækkunin á innlendu vörunum. stafar vitanlega af verðhækkun, sem hefir orðið á þeim erlendu vörum, sem þarf til þessarar framleiðslu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að skýra frá, að vegna þeirrar mótstöðu, sem þessi 10% hækkun á mjólkurverðinu hefir mætt, hefi ég fengið tvo beztu endurskoðendurna, sem ég taldi völ á, löggilta endurskoðendur hér í Reykjavík, til að grandskoða allan kostnað við rekstur búanna vegna stórhækkaðs kolaverðs og fjölda margs annars, sem aldrei kemur í vasa bænda. Þessari skýrslu var nú skilað fyrir 2 dögum síðan. Þar kom það í ljós, að það eru 3 aurar, sem þeir þurfa að borga í þennan kostnað, svo að mjólkurverð hefir, miðað við síðasta ár og verðlag þá, raunverulega lækkað hjá bændum um 1–2 aura. Af þessari hækkun, sem nú verður, dregst því frá á 3. eyri, sem fer í bein útgjöld og aldrei getur komið í vasa bænda. Það útlenda efni, sem þarf til þessarar framleiðslu, svo sem kol og benzín, og þar með flutningskostnaður, hefir hækkað stórlega í verði, og það verður vitanlega að draga það frá áður en farið er að reikna verðhækkun til bænda. Því er það, að þrátt fyrir þessa 4 aura hækkun fá bændur ekki nema á annan eyri. Það fer því fjarri, að aðstaða bænda sé góð, því að vitanlega lendir margskonar verðhækkun önnur á framleiðslu þeirra, t.d. vegna kaupa á áburði, en hann hefir, eins og ég sagði áðan, hækkað um 50%, og sumir bændur hafa orðið að kaupa áburð fyrir um 7 þús. kr. Ég veit vel, að þetta er viðkvæmt mál, og þess vegna voru endurskoðendurnir Björn Árnason og Ari Thorlacius fengnir til að rannsaka þetta, og þessi er útkoman.

Ég ætla svo ekki á þessu stigi að ræða þetta mál frekar. Ég tel mikla nauðsyn á, að á þessu máli verði tekið með sanngirni, og ég álít, að tekið hafi verið með sanngirni á kjöthækkuninni, en með ósanngirni á mjólkurhækkuninni gagnvart bændum. Ég mun í þessu máli eins og öðrum reyna að fylgja því fram, sem ég tel sanngjarnt. Og þó að kjötið hækki nú eitthvað hjá þessari stétt, sem alltaf býr við óvissu. þá álít ég heldur snemmt, eftir allt, sem á dagana hefir drifið með þá miklu fjárpest, sem nú herjar á sauðfjárstofn bænda, að fara að taka skatt af þessari stétt, þó að kjötið hafi hækkað um 21%. Ástandið hefir ekki verið þannig í sauðfjársveitunum.

Ég vil því eindregið beina því til hv. alþm., að þeir fyrir alvöru kynni sér þessi mál og reyni að taka á þeim með fyllstu sanngirni. Það er ákaflega erfitt að fást við þessi mál, því að allar hækkanir eru óvinsælar, þegar þær eru framkvæmdar, þó að þær séu nauðsynlegar.