29.02.1940
Neðri deild: 7. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2075)

19. mál, verðuppbót á kjöti og mjólk

*Pétur Ottesen:

Ég kvaddi mér hljóðs hér í gær við þessa umr. um þetta mál. En ástæðan til þess, að ég gerði það, var ekki sú, að ég ætlaði á þessu stigi málsins að blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta frv. Ég heyrði það á umr. eða þeim, sem tóku hér til máls í þeim í gær, að þeir gerðu ráð fyrir því, að þetta mál færi til landbn. Og af því að ég á sæti í þeirri n., á ég náttúrlega greiðan aðgang að því að taka þetta mál til afhugunar þar. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var, að hér komu fram ummæli undir þessum umr., sérstaklega frá hv. þm. Seyðf., sem komu fram í nokkurskonar fyrirspurnarformi til hæstv. forsrh., með tilliti til þess, að hann hefir með höndum landbúnaðarmálin. var fyrirspurnin út af þeirri hækkun, sem gerð hefir verið sérstaklega á kjöti út úr frystihúsum fyrir nokkru síðan. virtist koma fram hjá hv. þm., að hann væri harla mikið hneykslaður yfir því og hann teldi það rangt, að nokkur hækkun yrði gerð á þessum landbúnaðarafurðum, og að því er mér skildist, líka á mjólkinni. Og mér skildist hv. þm. harma það ákaflega mikið og hann telja það líka rangt að farið, þegar gerð var breyt. á gengisI. á síðasta þingi, að láta ekki ákvæði þeirra l. haldast þannig, að verðið á þessum afurðum væri bundið þannig, að allar verðsveiflur, sem yrðu á nauðsynjavörum í þessu landi, gætu ekkert breytt verði á þessum vörum, heldur væri það látið haldast óbreytt. Það situr nú illa á mér að finna að því, að þessi ákvæði voru í l. tekin þegar gengisl. voru sett, að verð skyldi ekki breytast um ákveðinn tíma á kjöti eða mjólk frekar en kaupgjald breyttist á sama tíma, af því að ég var flm. þess frv., sem innihélt þessi ákvæði. En þær breyt. hafa þó orðið síðan, sem réttlæta það, þó að gerð yrði þessi breyt. á þessum ákvæðum, því að sú löggjöf var miðuð við heilbrigt og eðlilegt ástand, ekki miðað við þrengingar af heimsófriði„ sem komnar voru á daginn, þegar löggjöfinni var breytt. Enda var þá áður horfið frá þeim grundvelli, að kaupgjaldið skyldi haldast óbreytt, og lagður annar grundvöllur, að kaupgjaldið skyldi miðast við dýrtíðina samkv. þeim reglum, sem í frv. voru settar. Þess vegna þykir mér harla undarleg skoðun, sem hér kemur fram, að þrátt fyrir þessar breyt. á ákvæðunum um kaupgjaldsmálin ætti að halda þessum ákvæðum um afurðaverðið í l., og að engin breyt. yrði gerð á verði þessara afurða landbúnaðarins, sem öll afkoma landbúnaðarins hvílir á, þannig, að ef ekki hefði getað orðið verðhækkun á þessum vörum í samræmi við þá verðhækkun yfirleitt, sem þeir menn, sem landbúnaðinn stunda, verða að taka á sig, þá þýðir það ekkert annað en hnignandi afkomu þessara manna, og enda gersamlega loku fyrir það skotið, að þeir geti haldið áfram sínum búrekstri, ef þeir eiga að taka á sig alla verðhækkunina, en geta ekki fengið tilsvarandi verðhækkun fyrir sínar afurðir.

Ég vil aðeins benda á það hér, að t.d. um þá verðhækkun, sem varð á kjöti, þá er það fyrst til þess að svara, að þessi verðhækkun kemur fyrst til greina, þegar búið er að selja mikinn hluta af frystu kjöti þessa árs. T.d. hjá Sláturfélagi Suðurlands, sem er langstærsti aðilinn, sem selur kjöt á innlendum markaði, var það svo, að þegar verðbreyting var gerð, var búið að selja mikinn meiri hluta af kjötframleiðslu bænda þeirra, sem SS verzlar með. Og það er ekki óverulegur hluti af þeirri kjötframleiðslu, því að þar var síðast slátrað 52 þús. fjár, sem vó um 700 smál. kjöts. Og hjá öðru félagi hér nálægt, sem selur á innlendan markað, var slátrað 20 þús. fjár, sem vó, að ég ætla, 250 smál. Þetta kjöt fer allt á innlendan markað. Hjá Sláturfélagi Suðurlands var þannig aðeins eftir á milli 1/3 og 1/4 hluta af kjötframleiðslunni óselt, þegar verðhækkunin kom á, hitt var búið að selja með sama verði og kjöt var sett síðastl. ár, svo meiri hlutinn af allri kjötframleiðslunni var seldur við lága verðinu, þrátt fyrir það, að mikil verðhækkun hefir orðið á flestum öðrum vörum í landinu. Þannig myndi, ef kjötverðið hefði ekki verið bundið með sérstakri löggjöf, tilsvarandi verðhækkun hafa orðið á því strax í haust, í hlutfalli við verðlagsbreytinguna almennt í landinu. Ég skal í því sambandi benda á, hvað það kjöt, sem kjötverðlagsnefnd ekki ákveður verð á, hefir hækkað mikið, en það er ærkjöt, hestakjöt og nautakjöt. Ærkjöt mun hafa hækkað um 23%, hestakjöt allt að 50% frá því í haust og til þess tíma, sem sala venjulega fer fram á slíku kjöti. Sú hækkun, sem hér er um að ræða bjá Sláturfélagi Suðurlands og þeim öðrum, sem selja á innlendan markað, nemur ekki miklu, þegar tekið er tillit til þeirrar hækkunar, sem þeir hafa yfirleitt fengið undanfarin ár á þessum tíma, í sambandi við geymslukostnaðinn á kjötinu. Hún mun ekki nema meiru en 8%, eða tæplega það, sem sé 8 aurum á kg., eða á milli 5 og 6%. Í þessum útreikningi er tekið tillit til þess kostnaðarauka, sem nú er orðinn við geymslu á kjöti, miðað við það, sem áður var. T.d. er í þessum aukna kostnaði hækkun á rafmagnsverði, vinnulaunum og á öllu, sem þarf til vélarekstrar. Er þetta mjög lítilfjörleg hækkun, sem hér er um að ræða, 5 eða 6%, samanborið við þá 25% hækkun á ærkjötinu og 50% hækkun á hestakjötinu, sem hvorttveggja er utan við valdsvið kjötverðlagsnefndar. Það er sannarlega ekki á miklum rökum reist að vera að gera sérstaklega mikla háreysti út af því, þótt bændur fengju þessa lítilfjörlegu verðhækkun á miklum minni hluta framleiðslu sinnar.

Ef svo er aftur á móti litið á aðstöðu þeirra bænda, sem selja mjólk á innlendan markað, þá ætla ég, að útkoman verði sú, að þeir hafi alls enga hækkun fengið, eða því sem næst, a. m. k. þeir bændur, sem selja mjólk hingað til Reykjavíkur. Að vísu hefir mjólkin hækkað til kaupendanna um 4 aura lítrinn, en bændurnir hafa ekkert fengið af þessari hækkun, svo ég viti til, og ætti ég þó að fara nærri um það, þar sem ég er einn úr hópi þeirra framleiðenda. Þótt bændum sé greitt einum eyri meira fyrir lítrann, þá verður þeirra gróði enginn, vegna hækkandi flutningskostnaðar, sem stafar af hækkuðu benzínverði og hækkun á öðru, sem til flutninganna þarf. Ég held, að bændurnir fái nú raunverulega minna fyrir mjólkina en þeir fengu áður, þegar þessi eins eyris hækkun er borin saman við þá lækkun, sem varð á henni á síðasta ári, og aukinn flutningskostnað. Fyrir okkur, sem flytjum mjólk fyrir Hvalfjörð, nemur aukinn flutningskostnaður frá 1/2–1 eyris á litra. Ég þykist hafa sýnt fram á með þessu, að sízt er ástæða til að öfundast yfir eða vera með nokkrar aðfinnslur út af því, sem skeð hefir í þessu efni, — því mjólkurverðið til bændanna stendur í stað eða tæplega það, — þessari litilfjörlegu hækkun, sem orðið hefir á þeim litla hluta kjötframleiðslunnar, sem eftir var að selja og ég hefi hér með gefið upplýsingar um. Mér finnst því þau andmæli, sem gegn því hafa komið hér í þinginu og áður í blöðunum, vera á engum rökum reist, heldur standa bændur nú höllum fæti til að mæta þeirri dýrtíð, sem orðið hefir af völdum stríðsins, og er ófyrirsjáanlegt, hvernig þeim tekst að sjá sér og sínum farborða, ef ekki verða alvarlegar breytingar til hins betra á sölunni á afurðum þeirra. Þeir fá ekki umflúið, frekar en aðrir, að taka á sig þunga þann, sem leiðir af síhækkandi verðlagi í þessu landi og hækkuðu kaupgjaldi.

Það var út af þessu, sem ég á þessu stigi málsins lagði nokkuð til umr., en um frv. sjálft geymi ég mér að láta fram koma mína afstöðu, þar til málið verður tekið fyrir í landhn., ef það fer þangað, en fari það til annarar n., þá til meðferðar þess síðar í þinginu.