11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2107)

53. mál, eyðing svartbaks

Pálmi Hannesson:

Hv. 6. þm. Reykv. flutti hér áðan af sinni alþekktu mælsku alllangt mál um þetta frv., nokkurskonar náttúruheimspeki um jafnvægið í náttúrunni. Ég skal ekki taka mikinn þátt í umr. um þetta. Við, ég og hv. 6. þm. Reykv., fluttum saman frv. hér á Alþ. í fyrra um friðun Eldeyjar og þar með súlunnar, sem þar er, og vissulega mun það hafa nokkur áhrif í þá átt að halda súlunni við. En súlan er banvænn morðingi, m. a. drepur hún nytjafiska, sem hv. 6. þm. Reykv. vill halda lífinu í að öðru leyti en því, að menn geti banað þeim. Með því að halda við súlunni er verið að fækka fiskunum, en hann vildi halda henni við engu að síður; þó að súlan sé geysilega grimm við fiskana, fannst honum það ekkert tiltökumál.

Hv. 6. þm. Reykv. ræddi ekki heimspekilega um rottuna. Hún hefir komið hingað í kjölfar mannanna sem nýbyggjandi í náttúruríki landsins, og raskar þess vegna því jafnvægi, sem fyrir var, þegar hún kom.

En hitt, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á, að veiðibjallan taki lax og silung til stórkostlegra muna, hefi ég aldrei heyrt getið um fyrr. Mér fyndist réttast, að hann tæki sig til og skrifaði doktorsritgerð um þessi efni; ég tel þau svo merkileg fyrir vísindin, að þau megi ekki liggja í þagnargildi. Sama máli gegnir um hrafnager eða „ský af hröfnum, sem varpa sér yfir byggðirnar, drepandi, myrðandi og stelandi“, eins og hann komst að orði. Þetta er nýtt fyrir mig, og ég geri ráð fyrir, að það sé nýtt fyrir sama sem alla landsmenn og nýtt fyrir vísindin. Ég vil skýra frá því, að ég hefi grun um, að hann tali ekki um þetta af eigin sjón eða rannsóknum, heldur muni þetta vera að miklu leyti ímyndun. Það nær ekki nokkurri átt, að menn hafi getað séð fljúgandi ský af hröfnum steypast yfir byggðir drepandi, myrðandi og stelandi.

En það var í rauninni ekki þetta, heldur annað, sem ég vildi benda hv. allshn. á; í fyrsta lagi er veiðibjallan algerlega ófriðaður fugl eftir gildandi l., í öðru lagi er gengið inn á að eyða henni með eitri, og í þriðja lagi eru nokkur verðlaun sett til höfuðs henni. En þetta hefir ekki þótt hrökkva til, og með þessu frv. á að reyna að hvetja menn til að drepa hana með því að hækka verðlaunin, sem sett eru til höfuðs henni, og flm. fn-. búast þá við, að betri árangur verði. Ég fyrir mitt leyti efast um það. Ég vil benda hv. allshn., sem væntanlega fær þetta frv. til athugunar, á það, hvort ekki væri hentugt að heimila t. d. ráðh. eða sýsluyfirvöldum að gefa úrskurð um heimild til að eyða varpstöðvum veiðibjöllu og jafnvel skylda til að gera það, og fengju þeir þá einhvern til að útrýma veiðibjöllu nálægt varplöndum, þar sem mikill skaði hlýzt af, og heimild til að veita nokkurt fé til slíks, verði það framkvæmt. Ráðh. eða sýslumenn gætu sett reglur um slíkt. En ég held, að þetta frv. komi ekki að tilætluðum notum, þótt að l. verði.

Sama máli gegnir um hrafninn; hann er réttdræpur hvenær sem er og hvar sem er á landinu. En eins og kunnugt er, er krummi skynsamur fugl, og verði hann skotinn að nokkru ráði, þá fjarlægist hann þann stað; og það, að hröfnum hefir farið fjölgandi upp á síðkastið, stafar af því, að menn hafa hætt að skjóta hrafna, þótt þeir gangi nálægt þeim. En hvað það snertir, að hrafninn lifði allt sitt líf á því, sem hann dræpi, þá eru það sérstök fuglafræði, sem hv. 6. þm. Reykv. býr yfir, og hann ætti að flytja þau á öðrum vettvangi en hér í Nd.