23.04.1940
Efri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2279)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Jónas Jónsson:

Ég ætla að flytja skrifl. brtt. Við þetta frv. á þá leið, að aftan við 1. gr. bætist: „Og kennara við héraðsskóla og aðra skóla, sem ekki eru reknir af ríkinu.“ Ég ætla að fylgja þessari brtt. úr hlaði með fáeinum orðum. Ég verð að segja það, að mér finnst, að það hefði gjarnan mátt vinnast meiri tími til að athuga þetta mál, sem hér liggur fyrir, heldur en nú hefir verið. Og það mun mála sannast, að það hafi nú á síðustu tímum verið gerðar tilraunir til launahækkunar meira en búast mætti við, eftir því sem málefni standa til.

Það, sem þetta frv. fer fram á, er að lögtryggja ákaflega stórri stétt manna, sem vinnur hjá kaupmönnum og kaupfélögum, kauphækkun alveg án tillits til þess, hvernig afkoma þessara fyrirtækja verður. Og satt að segja held ég, að það sé of mikil bjartsýni hjá þeim, sem standa að þessu frv., ef þeir halda, að þeir séu að gera því fólki, sem þarna á hlut að máli, í heild nokkurt hagræði með þessu. Ég hefi við annað tækifæri hér í þessari hv. d. bent á það, að nú fyrir tæpum hálfum mánuði síðan gerðust þær breyt. á Norðurlöndum, sem lítur út fyrir, að hafi þær afleiðingar, að þjóðin tapi nokkrum af sínum allra beztu mörkuðum, sem nemur um 30 millj. kr. útflutningi, miðað við það, sem verið hefir. Og mikið af þessum mörkuðum er þannig, að það er ákaflega vafasamt, hvort hægt er að selja þær vörur, sem við höfum selt þar, með nokkuð svipuðu verði og verið hefir. Ég vil t. d. benda á það, að sumar af þeim vörum, sem vani hefir verið að selja í Skandinavíu, verður nú reynt að selja í Ameríku; en þær eru í svo ákaflega miklu lægra verði þar heldur en þær voru í Skandinavíu, að það er ekki sambærilegt. T. d. hefir síldarlýsi oft á undanförnum árum haft sinn bezta markað í Skandinavíu, en það virðist ekki hægt að selja til Norður-Ameríku vegna tolla. Ef við ætlum að reyna að selja það Bretum, sem reyna að halda öllu vöruverði niðri með járnhendi, þá eru engar líkur til þess, að Bretar gefi sérstaklega hátt verð fyrir þessa vöru, ef þeir vita, að við getum engum selt hana nema þeim. Þetta er ekki að gera ráð fyrir neinni sérstakri óvinsemd af Breta hálfu, heldur er það svo, þegar vara er ekki seljanleg nema á einum stað.

Ég vil nú spyrja þá menn, sem styðja þetta frv., hvort þeir hafi gert sér ljóst, hvort kaupmenn og kaupfélög séu vissulega svo á vegi stödd, að þau geti veitt launahækkanir starfsfólki sínu, og hvort stuðningsmenn málsins séu vissir um það, að það sé ávinningur fyrir fólkið, sem vinnur þarna, að fá skyldulaunahækkun í trássi við skoðanir þeirra manna, sem eiga að borga þetta, kannske alveg á móti hagsmunum þeirra. Því að vel gæti það farið svo, að verzlanir fækkuðu enn meira við sig starfsfólki heldur en annars hefði verið, ef þetta verður samþ., og að það yrði þá sama kaup, sem þessar verzlanir greiddu, en bara færra fólk við þessi störf. Mér er kunnugt um það, að úti á landi í smákauptúnum dettur engum manni í hug, að það eigi að koma til greina kauphækkun af þessu tagi. Þar hefir verzlunarfólk viða ýmiskonar búskap með, sem gerir því léttara um að komast af, og þannig, að þetta fólk er yfirleitt ekki bundið samskonar skilyrðum eins og í stærri bæjum. Og jafnvel hér í Reykjavík er það vitað, að ákaflega mikill hluti af smákaupmönnum telur sig alls ekki geta verzlað nema með því að borga lágt kaup, og þeir borga heldur ekki nema lágt kaup. Mikið af því fólki, sem vinnur hjá þessum mönnum, eru stúlkur, sem vinna að nokkru leyti líka heima á heimilum sínum. Og smákaupmenn taka þetta fólk í þjónustu sína með tiltölulega lágu kaupi, a. m. k. miklu lægra kaupi en ef það hefði taxtakaup, alveg á sama hátt og við landssímann vinna ógiftar heimasætur, sem hafa vasapeninga upp úr sínum störfum þar, en ekki full laun.

Ég býst við, að ef þessir smákaupmenn hefðu getað tekið fólk, sem eingöngu hefði gefið sig við verzlun, þá hefðu þeir gert það. Ég sé ekki ástæðu til að fara að blanda sér inn í að gera þessum litlu verzlunum erfiðara fyrir en þörf er á. Það liggja heldur engar sönnur fyrir um, að nokkur minnsta þörf sé fyrir þessa kaupuppbót, heldur hefir maður orðið var við, að þeim stéttum, sem eiga að borga þetta kaup, finnst sér vera gerður meiriháttar óleikur og það sé ekki þetta, sem þeir þurfa með frá því opinbera, heldur miklu frekar stuðningur, sem er erfitt að veita nú sem stendur. Það getur verið, að einhverjar stórverzlanir í Reykjavík telji sig svo vel stæðar, að þær geti hækkað kaupið. Mér þykir sennilegt, að nokkrar verzlanir gætu það, og þá þykir mér sennilegt, að þær geri það.

Ég man ekki eftir neinu verkfalli hjá verzlunarfólki, eins og áreiðanlega hefði verið, ef það hefði verið óánægt, en þar virðist hafa verið samkomulag milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda, og alltaf hefir verið stöðugt aðstreymi í þessar stöður. Ég get vel trúað, að ef losnuðu 500 stöður við verzlunarstörf og þær væru auglýstar, þá væri hægt að margsetja í stöðurnar með fólki, sem kæmi úr öðrum atvinnugreinum, t. d. frá framleiðslunni, og vildi gjarnan komast í þessar stöður, af því að það hefði þar betri lífskjör en annarstaðar. Í þessu liggur óneitanlega ákaflega mikil veila, og það er hlutur, sem ég trúi ekki öðru en þessi hv. d. sjái og henni beri skylda til að athuga, ef framleiðslustörfin til sjávar og sveita eru það lakar borguð, að hvenær sem opnast einhver lítil laus staða, eins og hér er um að ræða, með þeim gömlu kaupskilmálum, þá reyni fólkið á allan hátt að reyna að komast í þær stöður. Væri þetta gagnstætt, væri svo mikil eftirsókn eftir að vera bóndi, sjómaður eða iðnaðarmaður, að erfitt væri að fá fólk til að standa í búðunum eða vera við ritvélarnar, þá gæti komið til mála að setja löggjöf því viðvíkjandi, en þá mundu bara kaupmenn og kaupfélög hækka kaupið í samræmi við það almenna ástand í landinu, svo að þau fengju fólk. Nú þætti mér vænt um að fá að heyra frá forsvarsmönnum þessa máls, hvers vegna þetta gerist ekki, heldur það gagnstæða. Ég get ekki séð, fyrst fólkið flykkist í þessar stöður úr öðrum störfum, að þær séu svo illa launaðar, að það þurfi að bæta þær upp með lagaákvæðum. Ég get því ekki séð annað en að ef þessum rökum mínum verður ekki hrundið, en frv. samt samþ., þá hafi þeir atvinnurekendur, sem fá með þessu á sig útgjaldahækkun, fulla ástæðu til að segja: „Hvers vegna var Alþ. að blanda sér inn í þetta? Það lágu fyrir Ed. fullkomin rök, sem ekki var mótmælt af kunnugum mönnum, að það var margsinnis hægt að fá fólk í þessar stöður, sem vildi heldur vera þar en sinna sínum daglegu störfum.“ Það mundu ekki eingöngu kaupmenn og kaupfélög koma með þessi mótmæli, heldur mundu framleiðendurnir segja: „Hvers vegna er þingið að ganga inn í þetta og taka upp forustu í þessu máli og hækka kaup, sem litlar líkur eru til, að hægt sé að standa undir, fyrir menn, sem ekki biðja um það, og taka það af þeim, sem geta ekki borgað?“ Ég get ekki annað séð en að þetta sé í sambandi við skoðanir, sem eru ákaflega mannlegar, sem er þó ekki ástæða til að láta hafa áhrif á úrslit þessa máls. Það er eitthvað annað en hagfræðilegar ástæður. Ég vil skjóta því fram til meðhaldsmanna málsins. hvort það sé það, að í síðasta lagi eftir 12 mánuði eiga að fara fram kosningar í þessu landi. Það er ljóst, að ýmsir þeirra, sem hér eiga sæti, bjóða sig fram aftur, ef þeir verða þá hér á jörð. Og það er ekki svo litil stétt manna, sem er í búðum og skrifstofum. Ég get látið mér detta í hug, að þeir, sem eru áhugamenn um þetta mál, hugsi sem svo, að þetta muni vera vinsælt meðal manna í þessum stöðum og fólkið kannske launi þessa vinsemd með því að berjast fyrir endurkosningu þessara mætu manna, sem að þessu vilja styðja. Það eru svo margir menn, sem vilja styðja þetta mál og geta sagt fyrir sitt leyti, hvort þetta sjónarmið er rétt eða rangt. Mér hefði ekki dottið í hug að koma með þessa ágizkun, ef ég sæi einhverja ástæðu aðra fyrir svona vel viti borna menn að koma með þetta.

Nú skilst mér, að þetta mál eigi meira og minna fylgi í öllum flokkum. Og þá er komið að þeirri spurningu, að einn flokkur hafi uppgötvað, að þetta var ágætt kjósendamál fyrir hann, og þá er spurningin sú, — hvers vegna eru þá aðrir flokkar einn eða tveir með þessu? Þá sýnist mér, að ef þetta væri eina ástæðan, þá segðu þessir hinir flokkar eitthvað á sama hátt og einn merkilegur innratrúboðsmaður í Danmörku, Vilhelm Beck að nafni, þegar hann var staddur við matborð, þar sem mikið var framreitt af góðum réttum og meðal annars lambakjöt. Nú var þessi prestur ákaflega sannfærður eins og sumir trúaðir menn eru, að hann yrði sáluhólpinn og mundi fara beina leið til guðs, þegar hann dæi, og jafnsannfærður var hann um aðra, að þeir mundu fara allt aðra leið. Þegar hann nú leit yfir borðið með öllum þessum ágæta mat, þá hugsaði hann sem svo: „Hvers vegna á að láta alla þessa óguðlegu menn fá alla lambasteikina?“ Og þessi ágæti prestur, sem heitir Vilhelm Beck, sem ég veit, að prófessorinn, sem hér er, kannast vel við fyrir þá guðfræðilegu starfsemi, settist við borðið og reyndi að samræma það, að vera frelsaður eins og hann sjálfur var og éta lambasteikina, til þess að þeir óguðlegu, sem voru við borðið, fengju ekki því meira. Nú vil ég spyrja, hvort þetta óeðlilega fylgi við þetta mál kunni að vera eitthvað skylt þessari guðfræðilegu skoðun Vilhelms Beeks, hvort þeir, sem voru svo óheppnir að koma ekki með frv., en eru svona með því, hvort þeir hugsi ekki sem svo: „Eigum við að láta hina flokkana sitja eina að lambasteikinni? Eigum við að láta þá eina fá fylgi allra þessara mörgu manna, sem eru við ritvélarnar, við búðarborðin, í pakkhúsunum?“ Því að það er vitanlegt, að þetta fólk vill gjarnan fá launahækkun og betri lífskjör, og menn geta sagt sem svo, að dýrtíðin hafi aukizt, og því mælir enginn í mót, og það geti verið gott fyrir þetta fólk að fá meiri peninga, ef það væri hægt að greiða þá af höndum. En þá kemur spursmálið: Þó að einn, tveir eða þrír menn geti notað þetta mál til að auka fylgi sitt við næstu kosningar, þá er það röksemd fyrir þá persónulega. En er það góð röksemd fyrir landið, og er það gott fyrir okkur hinu. sem eigum kannske ekki von á að fá neitt fylgi fyrir þetta? Ég hefi ekki reiknað það út, en ég get hugsað mér, að ef ég býð mig fram fyrir sama kjördæmi aftur, þá mundi ég kannske fá samtals fimm atkv. fyrir þetta. En ég er svo harðsvíraður, að ég er að hugsa um að vera á móti þessu frv., þó að ég með því setji nokkur atkv. í hættu, af því að ég finn enga röksemd fyrir, að þetta sé nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið. Ef maður fer að meta það fylgi, þann stuðning, sem maður getur gert sér í hugarlund, að þetta frv. skapi sem kosningamál, þá hygg ég, að flestir þeir mætu menn, sem eru með þessu frv., mundu komast inn engu að síður. Þeir hafa yfirleitt svo marga ágæta eiginleika og hafa sýnt svo prýðilega frammistöðu í mörgum öðrum málum, að ég sé ekki neinar líkur til, að þeir þurfi að bæta þessum blómum á sig. Þess vegna hefi ég enga samvizku af því, þótt ég greiði atkv. á móti þessu máli.

Ég læt svo úttalað um þennan hluta málsins með þeirri lokaniðurstöðu, að þetta séu ekki frambærileg rök fyrir málinu og þessir menn. sem að frv. standa, séu allir svo prýðilega settir í mannfélaginu, að það sé ekki minnsta ástæða fyrir þá til að leggja í þennan mikla aukakostnað, sem það er fyrir þjóðina að fá þetta skaðlega frv. samþ. Og nú ætla ég að koma að því, hvernig ég álít þetta frv. beinlínis skaðlegt. Til þess liggja margar ástæður. Ég vil fyrst taka fram, að ég álít skaðlegt á þessum árum, þegar lítur út fyrir, að verzlunarstéttin, kaupmenn og kaupfélög, muni eiga við stórkostlega erfiðleika að búa vegna minnkandi innflutnings, að fara þá að íþyngja svona þessum fyrirtækjum. Menn geta spurt mig, hvers vegna ég haldi, að verzlunin muni dragast saman, hvort ég áliti, að gjaldeyrísnefndin og ríkisstj. muni beita auknu harðræði við neytendur landsins, og hvort ég búist við, að þessir aðilar, sem hafa þótt harðdrægir hingað til, hafi öðlazt einhverja lakari eiginleika og svo kannske að þessi nýja n., sem við vorum að samþ. í dag, hafi einhver skaðleg áhrif. Ég geri ekki ráð fyrir, að stj. eða n. beiti áhrifum sínum í þessa átt, en ég er þannig gerður, að ég get ekki búizt við góðu, þegar Danmörk, sem er eitt af okkar aðalviðskiptalöndum, er þannig sett, að okkar elzta skip, Gullfoss, getur ekki komizt þaðan, og Eimskipafélagið gerir ráð fyrir að sjá aldrei svo mikið sem einn nagla úr honum, þótt skipið liggi heilt og óskaddað á legunni í Kaupmannahöfn, og 1100 Íslendingar biðja um leyfi til að fá að fara með Gullfossi, en geta ekki fengið með nokkru móti. Danmörk er því lokuð eins og niðursuðudós, svo að ómögulegt er að koma vörum þangað eða þaðan eða Íslendingum burt, og okkar elzta og bezta skip liggur þar og ómögulegt að ná því þaðan. Ég held, að enginn maður geti búizt við, að Danmörk verði fyrr en þá að stríðinu loknu leyst þannig, að við getum hafið viðskipti við hana, og vil ég leiða að því nokkur rök. Ástæðan til þess, að Danmörk varði sig ekki móti þýzku innrásinni, sem Danmörk þó bjóst við, var sú, að Danir vissu, að þeir gátu ekki varið sig lengi, og þeir vissu, að þeim gat engin þjóð hjálpað. Og þó að vesturveldin séu að reyna að hjálpa Noregi til að losna við þýzka innrásarherinn á landi og sjó, sem enginn veit, hvernig fer, þá er það vitað, að það tekur enginn Danmörku úr höndum þeirra núverandi húsbænda, fyrr en þessu núverandi stríði lýkur. Danmörk er því fyllilega lokuð frá öllum viðskiptum við okkur, þar sem við liggjum á þeim parti hnattarins, þar sem Englendingar hafa yfirráðin vegna flota síns. Það má náttúrlega segja, að Svíþjóð sé ekki komin í stríðið, en eftir því sem við vitum bezt, þá er eina sjóleiðin þangað lokuð af tundurduflum Englendinga, Þjóðverja og Svía sjálfra. Hér á höfninni liggja skip, sem voru að koma frá fjarlægum löndum með farm, sem Svíar gjarnan vildu fá, en komast ekki heim og engar líkur á, að geti komizt heim. Og þó það kynni að vera hugsanlegt, að við gætum komið skipum í gegnum tundurduflabeltin til Svíþjóðar, þá er það of mikil bjartsýni að gera ráð fyrir, að við getum haft nokkur viðskipti þar. Það mætti láta sér detta í hug, að við gætum fengið að flytja vörur frá og til Svíþjóðar eftir nyrztu járnbrautum Noregs og Svíþjóðar, en hvaða líkur eru þá til þess, að bandamenn vilji leyfa okkur að flytja til Svíþjóðar mikið af okkar útflutningsvörum, eins og okkar ágætu síld? Þá kemur að síðustu verzlunin, sem við höfum haft við Noreg. Maður vill vona allt það bezta um þessa frændþjóð okkar, en þar sem barátta er þar um allt landið og herflokkar tvegga stórvelda eru í landinu sjálfu, þá er mikil bjartsýni að halda, að þau verzlunarsambönd, sem við höfum haft þar, geti haldizt. Þegar við því lítum á aðstöðuna í öllum þessum löndum, þá er ekki annað að sjá en að allir markaðir þar séu okkur gersamlega lokaðir, og þá kem ég að því, sem mér finnst æskilegt að heyra frá meðhaldsmönnum málsins, sem bera kaupmannastéttina fyrir brjósti, hvort þeir geti búizt við, þegar útlitið er svona, að verzlunin verði svo blómleg á næstu árum, að þessi stétt geti haldið öllu sínu fólki og borgað því. En það, sem ég fyrst og fremst óttast um, er þó ekki verzlunarstéttin, heldur þeir, sem standa á bak við verzlunarstéttina. við megum búast við stórkostlega samandreginni verzlun frá því, sem nú er. Við erum búnir að missa verzlun okkar í Suðurlöndum, í Mið-Evrópu og Skandinavíu. Við eigum erfiðan aðgang að Englandi og nokkurn aðgang að Ameríku og mörkuðum þar, sem eru okkur óhagstæðir. Og þá virðist heppilegra að gera það, sem hægt er, til þess að létta undir með kaupmönnum og kaupfélögum heldur en að fara nú að setja l., sem auka á erfiðleika þessara fyrirtækja, sem nú sýnast vera að fá yfir sig stórkostlegt hallæri, svo að þau muni ekki geta haldið sínu fólki. Ef þessi rökstuðningur minn er réttur, — og ég hefði gaman af að heyra einhvern meðhaldsmann frv. leiða skynsamleg rök að því, að hann sé rangur, — þá þarf meiru en litla djörfung um leið og menn vilja gera gott fyrir starfsfólkið í verzlununum, að vilja leggja slíkar byrðar á stéttina.

Ég veit ekki, hvort ég á að segja til smekkbætis, að hér í bænum er nú staddur Íslendingur, sem á heima í Winnipeg og hefir þar stóriðju. Og þegar maður spyr hann, hvernig baráttan sé við dýrtíðina í Kanada, sem er í stríðinu, þn hefir hann allt aðra sögu að segja en við hér. Hann segir, að það sé gert feikna átak af stj. Kanada og þingi Kanada til þess að halda dýrtíðinni niðri. T. d. má taka bændurna, sem framleiða það ágætasta hveiti, sem til er í víðri veröld og er sent út um allan heim. En þegar stj. stóð í nokkurskonar bakábyrgð fyrir bændurna, til þess að þeir færu ekki á vonarvöl, þá kostaði það ríkið hvorki meira né minni en 90 millj. dollara, og þó framleiddu þessir bændur það bezta hveiti, sem til er í heimi. Þetta var árið 1939. Nú hélt ég í minni fáfræði, að nú væri það farið að blómgast, nú væri stríðið komið og verðið því farið að hækka. Hvað haldið þið, að þessi mikli búmaður hafi sagt? „Hveitið er lítið sem ekkert farið að hækka; stjórnin heldur því niðri, og bændurnir hafa engan ávinning fengið.“ Hann sagði, að það væri ekki eingöngu svo með hveitið, heldur væri einnig reynt að halda kaupinu niðri. Það er fróðlegt fyrir d. að heyra það, af því að það hefir svo mikið verið talað hér um sjómenn og kaup þeirra, að þeir halda líka fargjöldunum niðri.

Mér þykir verst, að form. Sjómannafélags Reykjavíkur, hv. 2. landsk., skuli ekki vera viðstaddur nú, — hinn mikli forkólfur sjómannastéttarinnar, sem barizt hefir fyrir kauphækkun sjómannanna, ekki aðeins nú, síðan að styrjöld sú, er nú geisar, byrjaði, heldur og á undanförnum árum. Ég ætlaði að segja honum, hversu mjög Bretar hefðu staðið sig verr en hann. Þeir settu nfl. kaup sjómanna sinna fast, létu það ekki hækka nema að litlu leyti, þegar hann var að heimta stórum aukið kaup og hlunnindi íslenzku sjómönnunum til handa, og það svo mjög, að stýrimenn á togara geta komizt upp í 1800 kr. á mánuði. Að sjálfsögðu eigum við alþm. hér og nokkra sök á, þar sem við höfum samþ. ýmis lög, sem hækka kaup manna fram úr öllu hófi. Hvað sjómennina snertir, þá var það vitanlega eina rétta leiðin að láta þá fá háar tryggingar, eins og hina erlendu sjómenn, því að það dettur vitanlega engum í hug að neita því, að mikil áhætta fylgir því að sigla til stríðslandanna, en með háum tryggingum var aðstandendum sjómannanna veitt það öryggi, sem þeir í raun og veru eiga kröfu til. En hið ógengdar háa kaup, sem að miklu leyti verður eyðslueyrir fólksins, er engin trygging, ekkert bjargráð, ef illa fer. Hér högum við okkur sem milljónerar, enda þótt við séum aðeins sárfátækt fólk. Að ég hefi ekki talað um þetta hvað snertir kaup sjómanna fyrr en nú, er sökum þess, að ég hefi ekki séð fram á, að það hefði hina minnstu þýðingu. Aldan, sem vakin var með kröfum þeirra, var svo sterk, að gegn henni virtist jafnþýðingarlítið að reyna að standa og að maður standi fram á brúninni á Dettifossi og reyni að standa á móti ofurþunga vatnsins, er það væri að því komið að steypast fram af brúninni. Nú er búið að skrúfa kaup sjómannanna svo hátt, að þeir eru flestir orðnir hálaunamenn. Ég veit ekki, hvort þeim er svo mikill greiði gerður með þessu. Þau verða ekki svo lítil viðbrigðin fyrir þá, er þeir hrapa niður úr þessum mikla peningamokstri, niður í litlar tekjur, þar sem gæta verður allrar sparsemi og sparneytni til þess að geta dregið fram lífið. Hið mikla kaup þeirra sjómanna, sem sigla á stríðssvæðinu, vekur óhjákvæmilega mikla óánægju innan sjómannastéttarinnar. Þeir, sem sækja á fiskimiðin heima, verða margir hverjir að láta sér nægja að búa í kjallaraholum við skarðan kost, samtímis því, sem hinir lifa í veilystingum praktuglega.

Hvað snertir kauphækkun þá handa verzlunarfólki, sem hér er um að ræða, er það að segja, að ég tel hana ekki sanngjarna, þegar litið er til þess ástands, sem hér ríkir og fyrir dyrum er, að siglingar til landsins geta að meira eða minna leyti teppzt þegar minnstum vonum varir. Auk þess er till. þessi stórmóðgun við alla þá, sem bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Hún hefði átt miklu meiri rétt á að koma fram hvaða ár sem verið hefði síðastl. 50 ár en nú. Verzlunarmannastéttin, sem hér á að borga brúsann, hefir oft átt erfitt á undanförnum áratugum, en aldrei eins og nú. Það eitt er víst, og á eftir að sannast betur.

Að síðustu vil ég svo segja þetta, að þegar búið er að troða peningum í vasa allra — harmoníkuleikararnir eru líka, hvað þá aðrir, búnir að fá sína uppbót, þá getur varla talizt ósanngjarnt að láta þessa litlu stétt manna, kennarana við héraðsskólana, fá lítilsháttar uppbót, svo engir verði eftir, nema framleiðendur og kaupmenn, sem mega víst fara á hausinn án þess að aðrar stéttir hafi með þeim hina minnstu linkind, enda þótt þeir eigi nú í raun og veru að borga allan brúsann.