05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (2455)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

Bergur Jónsson:

Dagblaðið „Vísir“ hefir birt kafla úr ræðu hv. þm. N.-Ísf., er hann flutti um leið og hann lagði fram brtt. okkar á þskj. 307. Lætur blaðið jafnframt svo um mælt, að hann hafi gert grein fyrir till. af hálfu flutningsmanna. En það lætur þess ekki getið, að hv. þm. lýsti því yfir skýrt og greinilega, að grg. hans fyrir till. væri eingöngu á hans ábyrgð, en ekki okkar meðflm. hans. Ég fyrir mitt leyti taldi sjálfsagða þessa yfirlýsingu hv. þm., því að hann talaði yfirleitt á allt annan veg um málið heldur en ég hafði búizt við, og raunar allt öðruvísi en hann hafði leyfi til, ef hann ætlaði að skýra mína afstöðu til málsins. Árásir hans á hv. þm. S.- Þ., form. Framsfl.. áttu einkar illa við í grg. fyrir brtt., er flutt var með þm. úr Framsfl. Þær hefðu verið eðlilegri í svarræðu við 3. umr. fjárl. á milli jóla og nýárs í vetur, eða t. d. í blaðagrein sem svar við greinaflokki hv. þm. S: Þ. „Sjö skáld leiðbeina Alþingi“. Þá hefði hv. þm. ekki þurft að slá varnagla um það, hver bæri ábyrgð á ummælum hans. Mín skoðun er sú, að markmið þáltill. og brtt. okkar sé í raun og veru hið sama: Nauðsynin á að verja stjórnskipulag okkar, lýðræðis- og þingræðisskipulagið, barátta gegn ofbeldis- og byltingastefnum, undirlægjuhætti fyrir erlendum yfirdrottnunarstefnum og svikum við frelsisvilja íslenzku þjóðarinnar. Ágreiningurinn er því ekki um markmið og tilgang, heldur um leiðir að sama marki.

Ég er sammála flm. þáltill. um það, að Alþingi sem löggjafarsamkoma þjóðarinnar eigi að hafa vakandi auga á því, að háskalegar ofbeldis- og einræðisstefnur, svo sem kommúnismi, nazismi og fasismi, fái ekki að þróast með þjóðinni. Það stjórnarfar, sem slíkar stefnur hafa skapað, þar sem þær hafa orðið þingræði og lýðræði yfirsterkari, er svo ægilegt fyrir menningu, mannúð og andlegt frelsi, að það gengur firnum næst, að nokkur óbrjálaður þjóðfélagsþegn lýðfrjálsrar, óvopnaðrar og hlutlausrar smáþjóðar, eins og íslenzku þjóðarinnar, skuli aðhyllast slíkar háskastefnur. Þetta ætti okkur öllum að vera deginum ljósara af þeim fregnum, sem okkur hafa borizt daglega síðustu árin af hörmungum og þjáningum, andlegum og líkamlegum, sem einræðisherrar og flokkar steypa yfir heilar þjóðir. Ég vil engan mun gera þessara óheillastefna, hverju nafni sem þær nefnast. Spurningin fyrir mér er eingöngu sú, á hvern hátt við getum bezt varið þjóðfrelsi okkar og lýðræði, inn á við sem út á við. Engri stofnun þjóðarinnar ber meiri skylda til að leggja þar hönd á plóginn en Alþingi. Og vopn Alþingis í þeirri baráttu er auðvitað fyrst og fremst réttlát og viturleg lagasmið, sem markar starfsvið framkvæmdarveldsins og dómsvaldsins. „Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða“, sögðu forfeður okkar, — og hverjum ber frekar að fylgja því boðorði en Alþingi? Vantrú mína á gagnsemi þáltill. leiðir fyrst og fremst af því, að með henni eru gefnar yfirlýsingar um mjög alvarlegar og viðkvæmar ráðstafanir, án þess að séð sé fyrir því, að þeim sé réttlátlega beitt eða komi að gagni. Slík aðferð löggjafarvaldsins við fyrirskipanir er ekki í samræmi við þingræði og lýðræði. Ef svipta á mann rétti til þess að gegna trúnaðarstarfi eða njóta trausts eða viðurkenningar þjóðfélagsins, verður að krefjast tvöfaldrar sönnunar á afbroti mannsins, en ekki láta sér nægja, að einhver ráðamaður í landinu telji sér eða segi sér vitanlegt, að maðurinn sé brotlegur. Ég skil ekki annað en að öllum hv. þm. hljóti að vera ljóst, að Alþingi getur ekki verið þekkt fyrir að búa til svo eftirlitslausa refsivendi fyrir þjóðina. Til samræmis við það lýðfrelsi, sem meginþorri þjóðarinnar óskar eftir, verður Alþingi a. m. k. að krefjast einhverrar lágmarksvissu fyrir réttmæti útilokunar frá trúnaðarstörfum og trausti og viðurkenningu í þjóðfélaginu. Annars er Alþingi sjálft komið inn á einræðisbrautina, sem allur þorri alþm. er þó sammála um, að ekki megi eiga sér stað.

Auk þess sem það eitt nægir samkv. þáltill., að „vitanlegt“ sé um staðreyndirnar, er aðeins gerð sú krafa, að hlutaðeigandi maður „vilji gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi“ o. s. frv. M. ö. o., það á að refsa mönnum fyrir það eitt, að hafa skaðlegan vilja eða hugarfar! Hvernig verður hjá því komizt, að svona fyrirskipanir verði „vindhögg“ eða „klámhögg“, þótt hátt sé reitt?

Eitt mikilvægasta verðmæti, sem þegnar lýðræðisríkja njóta, gagnstætt þegnum einræðisríkja, er það, að engum manni má refsa „án dóms og laga“. Að hverfa frá þeirri meginreglu í lýðræðislandi, er stórkostlegt skref í einræðisátt — „fasistiskt víxlspor“. Þess vegna finnst mér það gegna furðu., að hæstv. félmrh., sem er reyndur lögfræðingur, og hv. aðalflm. þáltill., sem er fyrrv. dómsmrh. og hefir unnið með skörungsskap að endurbótum á réttarfari landsins, skuli bera fram till., sem brýtur berlega í bág við þessa lýðræðismeginreglu. Í refsirétti lýðræðislanda er „in dubio pro reo“, vafi til hags sakborningi, ófrávíkjanleg meginregla. Að brjóta þá reglu er brot á einni af meginreglum Iýðræðisins. Mér er fyrir barnsminni, að faðir minn, góður dómari í æðsta innlenda dómstólnum, sagði mér, að betra væri að sleppa sekum en dæma saklausan. Sú hugsun hefir ávallt verið í mínum huga aðalsmerki mannúðlegs dómara. Góðan dómara tekur ávallt sárt að þurfa að dæma menn í þungar refsingar, sem baka þjáningar, en skyldan og réttlætistilfinningin krefst þess, ef víst er um sök. Hvílík reynsla er þá ekki að dæma saklausan mann? [frh.]