18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2518)

93. mál, innflutningur á byggingarefni o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég get fyrir mitt leyti fallizt á þessa till. eins og hún er afgr. frá hv. allshn., en ég vildi taka það fram um leið og málið er tekið fyrir, að útlitið hefir nú versnað allmikið við atburðina á Norðurlöndum; en nær allt byggingarefni, sem hér var notað, var fengið frá Norðurlöndum. Menn höfðu verið að gera ráðstafanir til þess undanfarið að fá þaðan byggingarefni út á leyfi, er fengizt höfðu. Nú fæst ekkert út á þau leyfi, og óútséð er, hvort hægt er að fá t. d. sement frá Bretlandi. Það er því óvíst, að hægt sé að afla byggingarefnis til viðgerða, hvað þá til nýbygginga. Ríkisstj, mun þó fylgjast með möguleikum í þessu efni. En jafnframt því, að erfiðleikar aukast um að ná í byggingarefni, hafa fjárhagsörðugleikar versnað, því að nú er norðurlandamarkaðurinn horfinn fyrir okkar beztu markaðsvörur. Í fyrra seldum við þangað fyrir 20–30 millj. kr. Útlitið er því enn ískyggilegra en það var áður, en þó er sjálfsagt að fylgjast með möguleikum í þessu efni og greiða fyrir málinu eftir föngum.