18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2578)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Sigurður Kristjánsson:

Mér skildist á því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að jafnvel þó að þessi till. yrði ekki samþ., þá myndi efni hennar verða framkvæmt á einhvern svipaðan hátt sem þar er lagt til, þar sem tillgr. a. m. k. reyndi að fullnægja eins og hægt væri innflutningsþörfum farmanna. Ef svo er, þá finnst mér það yrði algerlega meinfangalaust fyrir hæstv. ríkisstj., þó að þessi till. verði samþ. Annars vil ég segja það út af því, sem hv. 2. landsk. sagði, þegar hann minntist á það, að sá erlendi gjaldeyrir, sem farið væri fram á í till., að sjómenn fengju, væri töluvert mínni en sú upphæð, sem þeir gerðu sér vonir um að fá með samningum, að ég hefi rætt um þetta mál við menn úr farmannasambandinu, einmitt þá mennina, sem fyrstir báru fram þessar kröfur utan Alþ., og eftir það að ég kom með þessa till. hér á Alþ., þá talaði ég við nokkra menn úr þessum hópi og skýrði þeim frá því, að mér virtist það dálítið varhugavert að binda innflutning á heimilisnauðsynjum við helming kaupsins, eins og upphaflega hafði verið farið fram á, því að kaup þessara manna er geysilega misjafnt, og yfirmennirnir á skipunum fengju þá miklu meiri innflutning tiltölulega. Það varð að samkomulagi milli mín og þeirra manna, er stilltu þessum kröfum mjög í hóf, að viss upphæð yrði ákveðin handa öllum, og töldu þeir miklu hentugra að gera kröfurnar tiltölulega lægri og nokkurnveginn eins og þær verða með mínni brtt. heldur en að stofna málinu í hættu. Þeir óskuðu eftir því, að öllum yrði gert jafnt undir höfði, hvort sem þeir hefðu hærra eða lægra kaup. Að vísu er það ekki að öllu leyti sanngjarnt, því að þarfir þeirra, sem hafa hærra kaupið, eru einnig heldur meiri hvað innflutning snertir. En því er ekki hægt að neita, að kröfunum er stillt í hóf, eins og hv. 2.. landsk. tók fram.

Ég vildi, að það kæmi fram í umr. um þetta mál, að þetta er ekki borið fram hér á Alþ. án þess að það hafi áður verið borið undir neinn af þeim mönnum, er eiga þar hlut að máli. Að kröfurnar séu lágar, get ég rökstutt með því, að laun þeirra farmanna, sem eru fremur lágt launaðir á þeim siglingaleiðum, sem enn eru opnar, sem eru ekki aðrar en til Norður-Ameríku og Englands og e. t. v. að einhverju litlu leyti til Miðjarðarhafslandanna, er um 750 kr. á þeim ferðum, er taka 11/2 mánuð, með kaupi og áhættuþókun, en Ameríkuferðirnar taka oftast svo langan tíma. Þá sjá menn, að 150 kr. er ekki mikill hluti af kaupinu. En kaup skipstjóra og annara hæstlaunaðra yfirmanna getur komizt upp í 2000 kr. í slíkum ferðum, og þá sér hver maður, að 150 kr. eru aðeins sáralítill hluti af kaupi þeirra. Ferðirnar til Englands taka talsvert skemmri tíma, því að það er ekki eins langt, a. m. k. ef skipin eru ekki stöðvuð þar, en það getur auðvitað alltaf komið fyrir, að afgreiðsla skipanna tefjist til muna af þeim orsökum. En þegar allt gengur tregðulaust, taka Englandsferðirnar venjulega hér um bil 26 daga, sumar og vetur. Það má gera. ráð fyrir, að Englandsferðirnar taki að meðaltali ekki lengri tíma en einn mánuð. Samkv. þessari till. myndi innflutningurinn tæplega nema meiru en 1/3 af kaupi þeirra, sem lægst eru launaðir, en miklu minni hluta af kaupi þeirra, sem hærra eru launaðir.

Ég ætla ekki að teygja úr þessum umr. að óþörfu, en ég vil þó taka það fram út af því, sem frsm. meiri hl. sagði, að því fer mjög fjarri, að ég láti mig það einu gilda, hvort þessi till. verður samþ. eða henni vísað til ríkisstj. Þrátt fyrir vinsamleg ummæli hv. frsm. meiri hl. um till., og þrátt fyrir vinsamlegar undirtektir hæstv. viðskmrh. í garð þessarar till., sem að vísu er mikils um vert, tel ég samt, af því að þessi till. er sjálf mikils virði, að réttast sé, að hún verði samþ. hér, svo að þessir hlutir verði ákveðnir á þann hátt, sem þar er lagt til. Þess vegna vænti ég þess, að ef hv. þm. geta orðið sannfærðir og sammála um það, þá muni verða vel ráðið fram úr þessum málum.

Ég vænti þess, að hv. þm. geti orðið sannfærðir um og sammála um það, að hér er ekki um gjaldeyriseyðslu að ræða að ráði fram fyrir það, sem þegar á sér stað. Ég vænti þess einnig, að hv. þm. geti sannfærzt um það, að þessi fríðindi eru mikils virði fyrir þá, sem þeirra eiga að njóta, en lítil eða engin útlát fyrir hið opinbera.

Ég vænti því þess, að hv. þm. geti fallizt á að samþ. þessa till., sérstaklega með tilliti til þess, að við, sem í landi erum, eigum afarvandgert við þá, sem sigla til annara landa og leggja í hættu líf sitt og limi.