27.02.1940
Sameinað þing: 3. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, fjárlög 1941

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Mér finnst ég geta yfirleitt þakkað þær undirtektir, sem þetta frv. hefir fengið hjá þeim ræðumönnum, sem ég hefi á annað borð hlustað á og fylgzt með. Sérstaklega verð ég að viðurkenna, að hæstv. viðskmrh. tók þessu máli mjög vinsamlega, þótt hann lýsti afstöðu síns flokks á þá leið, að hann myndi eiga mjög erfitt með að sætta sig við þær niðurfærslur á fjárlögum til landbúnaðarins, sem gerðar eru í frv. Í því sambandi er ekki annað fyrir mig að gera en vísa til þess, sem ég hefi þegar sagt um þá hluti. Þessar till. eru byggðar á þeirri skoðun minni, að í raun og veru sé ekki hægt að gera ráð fyrir, að þær framkvæmdir, sem þar er um að ræða að styrkja, geti átt sér stað. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að fjárframlagið til landbúnaðarins í fjárl. yfirstandandi árs hafi lækkað jöfnum höndum við framlög til annara nauðsynlegra mála, enda sýndi ég fram á það í ræðu minni áðan, og tel mig ekki þurfa að endurtaka það.

Það var ljóst, að hæstv. ráðh. vildi láta í það skína, að ég hefði í þessu frv. málað of svart framtíðarhorfurnar og byggt of mikið á slæmri afkomu síðasta árs, sem stafaði af sérstökum ástæðum, t.d. gengistapi ríkisfyrirtækja, þannig að ríkistekjurnar af þeim voru minni en áætlað var. Því er til að svara, þótt ekki þurfi að gera ráð fyrir slíkum áföllum á þessu eða næsta ári fyrir þau fyrirtæki, þá er hinsvegar þess að gæta, að ófriðarástandið tók ekki til nema 1/3 hluta síðasta árs, og afleiðingarnar, sem það ástand getur haft fyrir afkomu þessara fyrirtækja og ríkissjóðs, eru ófyrirsjáanlegar og geta orðið eins þungbærar og það gengistap, sem olli slæmri afkomu síðasta árs.

Hæstv. ráðh. vék að því, að tiltækilegt væri að líta nokkru bjartari augum á framtíðina en ég hefði gert, en ef reynslan sýndi, að afkoman yrði erfiðari en ráð var fyrir gert, mætti halda aukaþing siðar á árinu og gripa þá til róttækari ráðstafana. Ég vil nú í stað þess stinga upp á því við þá, sem þannig hugsa, hvort ekki sé eins heppilegt að fara gætilega að þessu sinni, en ef reynslan skyldi verða sú, að við sæjum ekki upp úr peningahrúgunni, sem um okkur safnast á þessu ári, þá væri tekið til athugunar á þinginu næsta ár, hvað hægt væri að leiðrétta í framkvæmdum ársins 1941, sem hér er lagt til, að fært sé afvega frá þeirra sjónarmiði. Ég tel, að með þeirri aðferð mætti ná alveg sama tilgangi, og ég tel þá aðferð forsvaranlegri, eins og horfurnar eru nú.

Hv. 3. landsk., Stefán Stefánsson, talaði á þann veg, að ég get ekki annað en látið mér vel líka undirtektir hans undir frv. Hann talaði að vísu um það, að í frv. væri gert ráð fyrir hækkun ýmissa rekstrarútgjöldin, sem hann hefði óskað, að væru lækkuð. Ég get ekki verið hv. þm. sammála um það. Frekar er ég þeim sammála, sem orð hafa haft á því, að í því efni mundi frv. vera of óvarlegt fremur en þvert á móti. Ég skal í því sambandi benda á, að útgjöldin á 11. gr. eru áætluð lægri en í l. fyrir 1940 og sama máli gegnir um 14. gr., þó að þetta muni ekki miklu, og það eina, sem um er verulega að ræða, sé 10. gr. Þar er nokkuð hærri upphæð áætluð, og stendur það í sambandi við það, að nauðsynlegt er talið, að endurskoðunin í fjmrn. verði aukin. Getur e.t.v. komið til mála að athuga í samráði við fjvn., hvort rétt sé að falla frá þeirri aukningu og spara þau útgjöld, en óneitanlega er æskilegt að hafa endurskoðun ríkisins í sem beztu lagi.

Í þeirri gr. er einnig gert ráð fyrir auknum kostnaði með hliðsjón af aukinni dýrtíð, t.d. á prentun, skýrslum, pappírsnotkun, og held ég, að forsvaranlegra væri að taka meira tillit til slíkrar hækkunar á öðrum liðum heldur en færa niður þessa gr. Sama er að segja um það, sem talið er, að heyri undir fjmrh., er snertir endurskoðun á launakerfi og starfsemi ríkisins, en það er bersýnilegt, að slíku verður ekki komið í framkvæma nema með fullu samstarfi á milli allra ráðh. og þeirra annara aðila, sem slíkt veltur á. Í því efni tekur mjög til starfssviðs hinna ráðh. umfram það, sem tekur til fjmrh. Þótt fjmrh. vildi einn reyna að framkvæma slíka endurskoðun, þá er það alveg óframkvæmanlegt fyrir hann, nema í samstarfi við hina ráðh. Slíkt verður að gerast með samstarfi á milli stjórnarinnar og þingsins, og stjórnarinnar og embættismanna þeirra, sem hugsað væri til að gera einhverja breytingu með.

Það er svo langt bil á milli okkar hv. þm. Seyðf. og mín, að ég veit ekki, hvort það er til nokkurs fyrir okkur að talast við. Á þeim tíma, sem ég er að bogna undir því, hvernig eigi að standa straum af gjaldföllnum skuldum, að upphæð 21/2 millj. kr., og horfast í augu við það, að við kunni að bætast enn ein millj., þá talar hv. þm. Seyðf. um að safna í sjóði. Þarna er svo langt á milli, eins og ég sagði áður, að okkur þýðir ekki að deila. Ég geri alls ekki ráð fyrir, að fjárhagsafkoman verði þannig, að ríkissjóður geti safnað fé, miklu heldur eru líkur til að skuldirnar aukist. Það er hægt að tala um, að nauðsynlegt sé að auka jarðrækt og framkvæmdir á öllum sviðum, en við verðum einhverstaðar að fá fé til þess, og framkvæmdirnar geta líka strandað á fleiru en peningaleysi, eins og t.d. margar jarðræktarframkvæmdir, sem þeir menn, sem bezt hafa vit á, telja, að muni stöðvast af sjálfu sér. Hvað þýðir að tala um nauðsyn þess að auka þær framkvæmdir, sem menn sjá fyrir, að hlýtur að draga úr? Hv. þm. sagði, að jarðabótaframlagið væri lögbundið. Mér var það ljóst, en ég þykist sjá fram á, að samkomulag náist um að fá það lækkað, eins og gert er ráð fyrir í frv., og að gerð verði sú lagabreyting, sem tryggi, að það nái fram að ganga.

Hv. þm. minntist á, og þótti það miður, að lækkað er framlag til nýrra þjóðvega, en það hefir líklega farið fram hjá honum, að framlagið til vegagerðar yfirleitt er nokkurnveginn eins og í núgildandi fjárl. Ég býst við, að vegavinnan geri sitt gagn fyrir fólkið í landinu, hvort sem það eru nýir vegir eða annað, sem unnið er að. Ef auka ætti það framlag, þyrftu að leggjast fram um það till., sem hægt væri að hafa trú á, að hægt væri að standast kostnaðinn af.

Hv. þm. talaði sérstaklega um það, og það var að vísu nokkur von, að ekki gæti komið til má!a að lækka fjárveitingu til verkamannabústaða, og að aldrei hefði verið brýnni nauðsyn á þeim byggingum en nú. Tilgangurinn með styrk til byggingarsjóðs verkamanna var ekki upphaflega sá, að það fé yrði lánað út til byggingarstarfseminnar, heldur að aflað yrði annara lána til þess, en styrkurinn yrði til þess að borga vaxtamismun af þeim lánum og skuldum þeirra, sem húsin eiga að eignast. Einmitt í þessu sambandi sló hv. þm. fram þeirri hugmynd, að gott væri að eiga sjóðina, þegar úr rættist, stríðinu væri lokið og hægt að hefja framkvæmdir af fullum krafti. Ég vil enn víkja að því, að ef ríkissjóður safnar fé í sjóði á yfirstandandi ári, þá er nægur tími að ráðstafa því fé á næsta þingi.