13.04.1940
Neðri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Steingrímur steinþórsson):

Fjhn. hefir athugað brtt. hv. 6. þm. Reykv. og hv. 7. landsk. þm., sem fara fram á að hækka persónufrádrátt allmikið frá því, sem nú er. Nefndin hefir leitað umsagnar yfirskattanefndar um það, hve miklu þetta mundi muna hvað snertir tekju og eignarskattinn, og við höfum fengið upplýsingar um það — útreikningurinn er að vísu miðaður við skattgreiðslur ársins 1937, en ég geri ekki ráð fyrir, að það muni svo miklu, að það sýni ekki nokkurn veginn, hve mikil áhrif þetta hefir á tekju- og eignarskattinn. — Samkvæmt þeim upplýsingum, sem við höfum aflað okkur, mun þessi breyting lækka tekju- og eignarskattinn rétt um 400 þús. kr., svo það er auðséð, að hér er ekki um neitt smáræði að ræða, og fjhn. er á einu máli um það, að ekki geti komið til álita nú að fara að samþ. till., sem heggur svo stórt skarð í einn af aðaltekjustofnum ríkisins, svo ég læt í þetta sinn nægja að geta þess, að fjhn. mælir gegn því, að þessar till. verði samþ., sem hér liggja fyrir.