30.03.1940
Efri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

84. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jónas Jónsson:

Ég get svarað nokkru af því, sem hv. 1. þm. N.--M. spurði um. Skemmtanaskatturinn er náttúrlega allfastur liður. Öll árin frá 1927–1930 var hann að smáhækka ár frá ári, úr 70 þús. kr. upp í l00 þús. kr. árlega, og ég hygg, að hann myndi hafa komizt sum árin upp í 120 þús. kr. Sá hluti, sem hér um ræðir, með þeim viðbótum, sem Alþ. hefir síðan samþ., myndi komast upp undir 200 þús. kr., og í heild sinni hefir þessi skattur orðið hærri en áætlað var fyrst. Ég get því hugsað mér, að það mætti gera ráð fyrir því, að 90–100 þús. kr. af þessum skatti rynnu árlega í þjóðleikhússjóð, ef ekki breytist árferði frá því, sem nú er. Þessi upphæð myndi því sem næst svara til skemmtanaskattsins samkv. því, sem hann var árið 1932.

Um hitt atriðið, sem hv. 1. þm. N–M spurði um, get ég ekki sagt neitt ákveðið. Það er um þetta eins og margt annað, ef samþ. verður, þá verður hæstv. ríkisstj. að skera úr því. Ég ætla því ekki að fara nánar út í það atriði, en vil aðeins segja það, að því aðeins höfum við flm. þessarar till. orðað þetta þannig, að heimilt væri að greiða þetta, ef fjárhagur ríkissjóðs leyfði, að við treystum okkur ekki til að fara greiðari leið en þá, að þetta yrði ekki fellt niður alveg skilyrðislaust. Þetta er mitt viðhorf, að ég álít, að ekki sé hægt að beita harðræðum, en ég treysti stj. til að haga þessu á skynsamlegan hátt, og hún yrði þá að taka tillit til þess hugsunarháttar, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. N.--M.

Ég þakka hv. 5. landsk. fyrir það, sem hann sagði í sinni ræðu um þjóðminjasafnið. Það var hann, sem réð því, að það form var haft í vetur í fjhn., að leggja til, að það væri ekki bein skipun til stj. að láta laga nokkurn hluta af kjallara þjóðleikhússins fyrir safnið, heldur var þetta lagt á vald stj. Ég er sömu skoðunar og hann, en ég vil árétta það, að ég álít, að það sé blátt áfram lífsnauðsyn, ef eitthvað verður unnið að húsum í Rvík og hitaveitan kemst á, að gera þetta í sumar. Það má segja, að hætta sé á því, að hvern klukkutíma, sem safnið er lengur þar, sem það nú er, eyðileggist það á svipstundu.

Ég vil hinsvegar taka það fram til skýringar fyrir þá, sem ekki eru kunnugir húsinu, að það er ekki gert ráð fyrir því, að þó í þjóðleikhússkjallaranum sé tekið nægilegt pláss fyrir þjóðminjasafnið fyrir 10–20 ár, að það hafi nein áhrif á aðaltilgang hússins. Þegar þar að kemur, þá rekur þetta sig ekkert á.

Ég vil svo um leið, af því að þetta mál kemur fleirum við en atvik einni, benda á, að þegar til þess kemur, að þetta hús verður fullgert, þá er af öllum þeim, sem mest hafa starfað að þessu, gert ráð fyrir, að það sé eðlilegt að hafa í því kvikmyndasýningar 4–5 sinnum á viku, en ekki leiksyningar nema 2–3 sinnum á viku, því húsið er það stórt.

Ég vil svo bæta við frá eigin brjósti, sem ég hefi stungið upp á í blaðagrein nýlega, að ég hygg, að þegar komið er að því, að ríkið reki kvikmyndahús, já eigi það að vera áhrifaríkt í sambandi við kvikmyndasýningar í dreifbýlinu, ekki þannig, að hægt sé að senda myndir í lítil fundarhús, heldur eigi að vera fast samband milli þessa hluta af kvikmyndastarfseminni og dreifbýlisins. Í vetur var gerð tilraun í þessu skyni af einum læknaskólastúdent, sem ferðaðist um landið með hreyfanlegt bíó, sem gekk vei. Ég álít, að það eigi að reka þetta þannig, að það geti orðið bæði til mikils gagns fyrir höfuðstaðinn, og það sé líka eðlilegt að láta dreifbýlið njóta góðs hér af, þar sem það hefir líka lagt í þessa húsbyggingu.