16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

51. mál, lax- og silungsveiði

Pálmi Hannesson:

Það eru örfá orð! Það eru þrjú atriði, sem ég leyfi mér að benda á. Í fyrsta lagi, að meginregla laxveiðilaganna er sú, að lax eigi aðeins að veiða í ám og fallvötnum, en ekki í sjó. Það er geysilega mikið atriði, að þeir, sem taka árnar á leigu, sérstaklega útlendingar, geti treyst því, að ekki sé verið að hringla með þær meginreglur, sem hafa verið settar, því að ef það er gert eins og lagt er til að gera hér, þá spyrja þeir: Hvað kemur næst? Þeir verða að vera öruggir um, að meginreglan sé ekki brotin. (BÁ: Það er ekki gert hér). Það má nú segja, að það sé ekki hreyft við henni. Ég hygg, að ef þessi till. verður samþ., þá fái eins margar jarðir tækifæri til að veiða lax eins og þær, sem hafa veiðirétt nú, og allar þær nýju jarðir fengju veiðirétt í sjó. — Í öðru lagi er eftirlitið mjög torveldað, og í þriðja lagi verður erfitt að fá veiðifélög til að starfa, ef á að fara að tína upp menn út með öllum ströndum. Þá verður ekki hægt að ákveða félagssvæðin, ef þetta verður gert. Á þessu þrennu vildi ég vekja athygli hv. þd.

Mér skilst á hv. þm. Mýr., að honum sé um og ó, hann á sjö börn á landi og sjö börn í sjó. Hann á kjósendur uppi í landi og kjósendur úti á Mýrum, og nú virðist, að honum séu þeir kærari, sem eru við sjó, en þeir, sem eru uppi til fjalla. En ég vil samt treysta honum til þess sem þeim búnaðarfrömuði, sem hann er, að honum skiljist, hver er meginregla löggjafarinnar, því að þegar hann lætur til leiðast að hvika frá henni, þá er hann sárt leikinn eins og Sámur fóstri í sögunni.