08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

30. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Bernharð Stefánsson:

Ég vil aðeins, sem annar af flm. þessa frv., þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu málsins. Einnig vil ég geta þess f.h. okkar flm., að við föllumst algerlega á þá brtt., sem liggur fyrir frá n. Ég skal taka fram, út af því atriði í brtt., að í staðinn fyrir úttektarmenn hreppanna komi trúnaðarmenn ræktunarsjóðs, að okkur fannst þetta ákvæði frv. vera í samræmi við l. um erfðaábúð og óðalsrétt. Í þeim er úttektarmönnunum ætlað að gefa ýms vottorð, m.a. um hvaða hús séu nauðsynleg á jörðinni til búrekstrar. En þó að gengið sé út frá því, að þessir menn gefi flest vottorðin, sé ég ekkert á móti því, að í þessu sérstaka tilfelli sé farið að eins og lagt er til í brtt., og tel ég hana á margan hátt eðlilegri.