26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

61. mál, umferðarlög

*Garðar Þorsteinsson:

Ég hefði talið heppilegra, að afgreiðsla þessa máls hefði beðið þar til atkvgr. um hitt málið væri lokið, því ef umr. um þetta mál er lokið, þegar atkvgr. fer fram um hitt, - hvernig á þá að samræma þetta frv. bifreiðal., ef brtt. við það frv. verða samþ.? (BÁ: Það er búið að leggja fram brtt. til að samræma það).

En ég vildi nota tækifærið til að minnast á 13. gr. frv., 3. mgr., þar sem stendur, að þar, sem engin gangstétt er, skuli gangandi menn gæta sérstakrar varúðar og halda sig utarlega á akbrautinni og við vinstri brún hennar. Mér skilst, að í þessu tilfelli sé gerð undanþága, þar sem gangandi menn eiga annars að ganga á hægra kanti og halda sig þar, bifreiðar eiga að aka á hægra kanti, menn, sem mætast, eiga að víkja til hægri o. s. frv. En hér er gerð undantekning. Gangandi menn eiga þar, sem engin gangstétt er, að ganga á vinstra vegarkanti, og skýringin á þessari undantekningu er sú, að meira öryggi þykir í því, að gangandi menn hafi bifreiðastrauminn á móti sér og geti vikið út af vegarkanti, í stað þess ef bifreiðin fer í sömu átt og gangandi maðurinn, þá sjái hann hana ekki, og bifreiðarstjórinn geti þá e. t. v. keyrt aftan á manninn. Ég skal játa, að mér er kunnugt um, að nokkur slys hafa orðið með þeim hætti, einkanlega hér fyrir innan bæ, þegar menn hafa verið á ferð þar að næturlagi í rigningu og þoku og gengið eftir vinstra vegarkanti, þá hafa bifreiðar komið á eftir þeim, einnig á vinstra kanti, þ. e. réttu megin, en ekki tekið eftir manninum og keyrt aftan á hann. Ég man a. m. k. eftir 3 slíkum slysum. En ég vil telja, að ef hér á að hafa hægri handar akstur, þá eigi að vera samræmi í umferðarreglunum. Hér eru víða vegarspottar þannig, að stundum er á þeim gangstétt og stundum engin, og eftir þessu ákvæði 13. gr. skilst mér, að maður, sem gengur hægra megin, þar sem gangstétt er, verði að fara þvert yfir veginn og yfir á vinstra vegarkant, þegar gangstéttinni sleppir. Á þessu kynni að verða ruglingur. Þótt slys vilji til á þann hátt, að bifreiðarstjóri taki ekki eftir manni, sem á undan honum gengur á veginum, þá bakar það bifreiðarstjóranum sakar- og fjárhagsábyrgð, ef hann keyrir þannig á mann, og þessi ábyrgð er honum áreiðanlega full hvatning til þess að taka vel eftir þeim, sem á undan honum eru á veginum. Þó að menn gangi utarlega á vegarkanti og viti, að bifreiðar getur verið von á eftir þeim, þá á það að vera þeim nægilegt öryggi, þegar þeir taka eftir bifreiðinni, að víkja til réttrar hliðar. Ég hefi því leyft mér að bera fram skriflega. brtt. um það, að orðið „vinstri“ í. 3. mgr. 13. gr. verði „hægri“, sem ég rökstyð með því, að það eigi að vera full samræmi í umferðarreglunum, ef breyta á á annað borð til.