27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Sú athugun, sem þetta mál hefir fengið, fór þannig fram, að kirkjumrn. hefir skipað biskup landsins og vígslubiskupinn norðanlands til að semja þetta frv. Að athuguðu máli hefir svo kirkjumrh. beðið eina þingn. að flytja þetta mál. Þetta er ekki minni athugun en venja er til um þingmál.

Það er um 2 höfuðatriði að ræða í þessu frv., sem bæði eru einföld. Hið fyrra er það, að ríkið afhendi þá kirkju, sem það hefir í Rvík, til safnaðarins og greiði með henni meðlag, sem að vísu er nokkuð hátt, en þó ekki mjög mikið, þegar miðað er við stærð þess safnaðar, sem kirkjuna notar, og einnig það, að ríkið hefir vanrækt sína kirkjuhaldaraskyldu gagnvart stjórn safnaðarins í mörg ár. Þessari upphæð, 300 þús. kr., sem verja á til kirkjubygginga, á að jafna niður á mörg ár, svo upphæðin verður ekki tilfinnanleg á hverju ári. Þessi fjárhæð mun ekki nægja til að gera þær kirkjur í Rvík, sem þarf með, ef prestunum verður fjölgað, heldur verður söfnuðurinn eða þeir söfnuðir, sem myndaðir verða í Rvík, að leggja fram stórfé til þess að hægt sé að byggja þær kirkjur, sem ætlazt er til, að byggðar verði.

Embættismannafjölgunin, sem leiðir af þessu frv., er ekki meiri en það, að nú sem stendur er heimild til þess að hafa 4 presta í Rvík, 2 samkv. l. um prestakallaskipun og 2 var bætt við fyrir nokkrum árum samkv. heimild í fjárl. Hér er farið fram á heimild til að bæta við 2, en þar á móti ætti að koma, að bráðlega mun verða fækkað prestum annarstaðar, þar sem sóknir eru mjög litlar. Biskup landsins hefir fært það í tal við mig og fleiri nm., að það megi telja víst, að slíkar till. muni verða lagðar fyrir kirkjumrh. á næsta ári. Hann hefir nefnt við mig nokkur prestaköll, sem líklegt er, að lagðar verði fram till. um að sameina. Þetta eru að vísu eftirkaup, en ég hygg þó, að á þessu megi byggja.

Ég vil svo aðeins mæla með till. hv. þm. V.-Sk. um að láta aðeins einn prest verða um hvert prestakall í Rvík.

Þó að kristnihald í Rvík hafi verið dauflegt, þá má vafalaust nokkuð kenna um því, að prestar hafa verið fáir og önnum kafnir og ekki getað þess vegna sinnt ýmsum þeim störfum, sem annars er talin skylda, að prestarnir inni af hendi. Með því að fjölga prestum, svo þeir geti staðið í persónulegu sambandi við marga af sóknarmeðlimum sínum, þá eru líkur til, að kirkjulegt líf færist í vöxt.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um frv., en ég tel óþarft að vísa því til annarar n., þar sem það er komið frá ríkisstj. og stjórn kirkjumálanna.