03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

*Frsm. (Árni Jónsson):

Herra forseti! Ég sé ekki ástæðu til að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Eins og nál. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 310, ber með sér, hefir orðið algert samkomulag í n. um afgreiðslu málsins. N. kvaddi til fundar við sig og viðtals biskup landsins, báða dómkirkjuprestana í Reykjavík og formann sóknarnefndar. Það kom fram í viðræðunum við þessa menn, að þeir höfðu sitthvað við frv. að athuga. Það var t. d. á það bent, að með því framlagi, sem lagt er til, og með þeim greiðslufresti, sem á framlaginu er skv. frv., dragist það óþarflega lengi, að kirkja komist upp hér í bænum, og ýmislegt fleira, sem ég hirði ekki um að telja upp, var fundið að frv. En þrátt fyrir það var það álit þessara manna, að mikil bót væri að frv. eins og það liggur fyrir, og ekki gerlegt, þar sem svo er áliðið þings, að gera á því breyt. og hrekja það á milli deilda.

Frv. þetta hefir áður legið hér fyrir í annari mynd, en var að þessu sinni sérstaklega undirbúið, þar sem hæstv. kirkjumálaráðh. hafði skipað þá herra Sigurgeir Sigurðsson biskup og Friðrik Rafnar vígslubiskup til þess að vinna að undirbúningi þess. Það er augljóst, að eins og mannmargt er nú orðið í Reykjavík, er ekki við bætandi þá skipun, sem er á þessum málum. Þegar dómkirkjan var byggð, var vel fyrir rúmi séð, þar sem ætlað var rúm fyrir 900 manns, en síðan hefir íbúatala bæjarins líklega tífaldazt.

Nú eru 3 prestar starfandi fyrir dómkirkjusöfnuðinn, og koma þá um 10 þús. safnaðarmanna á hvern prest, því að í dómkirkjusöfnuðinum eru um 30 þús. manns. Annarstaðar er talið, að í bæjum álíka stórum og Reykjavík sé ekki leggjandi meira á einn prest en að þjóna 5 þús. manna söfnuði, og eftir því ættu þjónandi prestar dómkirkjunnar í Reykjavík að vera sex. Í frv. er gert ráð fyrir að fjölga prestunum frá því, sem nú er, með þetta fyrir augum. Auk þess er gert ráð fyrir að fjölga kirkjunum. Eins og kunnugt er, er kirkjan aðeins ein, en í bæjum af líkri stærð og Reykjavík eru víða 10–12 kirkjur.

Eins og ég tók fram áðan, er enginn ágreiningur innan n. um frv., og vænti ég, að hv. deild taki því einnig vel og afgreiði það eins og hér er lagt til.