29.02.1940
Neðri deild: 7. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

23. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti! Á síðastl. þingi bar ég fram frv. um breyt. á l. nr. 27 13. jan. 1938, um vátryggingarfélög fyrir vélbáta. En það frv. var svo seint fram komið, að það náði ekki afgreiðslu, en var við 1. umr. vísað til sjútvn. En n. vannst ekki tími til að afgr. málið. Þess vegna hefi ég leyft mér að bera þetta frv. fram í sama formi og þá. Breyt. er í því fólgin, að 3. málsgr. 3. gr. l. orðist svo:

„Heimilt er þó félögum þessum að taka skip til vátryggingar allt að 250 smál. brúttó að stærð (sbr. þó 5. gr.).“

Í grg. frv. er tekið fram, af hvaða ástæðum frv. þetta er fram komið, og er það fyrst og fremst fyrir það, að sjávarútvegsmenn á Norðurlandi hafa hvað eftir annað farið fram á að fá þessa breyt. gerða að l. hér á þingi. Má og benda á, að fiskiþing Norðlendingafjórðungs, sem haldið var á Akureyri í nóv. síðastl., samþ. eindregna áskorun í þessa átt. Fiskiþingið, sem nú situr, mun vera með þetta mál á prjónunum, og það mun einróma álit þess að skora á hæstv. Alþ. að fá þessa breyt. gerða að l. Og frá slíkum mönnum, sem vit hafa á þessum málum, renna sterkar stoðir undir réttmæti þess.

Á Norðurlandi eru nokkur skip, sem falla í þann ramma, að þau eru bókstaflega útilokuð frá því að geta fengið vátryggingu, nema um algeran skiptapa sé að ræða. Ég skal benda á þrjú þessara skipa. Eitt er vátryggt í Svíþjóð, annað skipið er óvátryggt, en þriðja skipið er vátryggt með afarkostum. Þessi skip eru ekki notuð nema um síldveiðitímann, og liggja því venjulega 9 mánuði ársins án þess að þau séu notuð. Þess vegna er harðsnúið, að það skuli þurfa að vátryggja þau allt árið og fyrir fullum skiptapa, meira að segja þar sem ekkert tjón gæti komið til greina. Nú má segja, að það séu svo fá skip, sem um er að ræða, að ekki sé þörf á þessari breyt. En það kemur ekki málinu við, hvort það eru mörg eða fá skip. Það hefir verið horfið að því hér á landi að stækka skipin, og er talið nauðsynlegt, og með hverju ári hefir verið reynt að auka flotann með stærri skipum heldur en verið hefir, og það einkum eftir að farið er að stunda síldveiði meira en áður. Menn geta nú séð, að hér er um fullkomna sanngirniskröfu að ræða, og ég vona, að þetta mál fái góðar undirtektir hjá hv. þm.

Ég óska svo að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.