27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

23. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég flyt 2 brtt. við þetta frv. Fyrri brtt. er um, að lögveð í skipum fyrir vátryggingargjaldi skuli ekki vara lengur en eitt ár. Það hefir komizt inn í frv., að það fyrnist ekki fyrr en eftir 2 ár, en slík regla skapar ósamræmi um lögveð í skipum. Vextir af veðlánum verða að lúkast á fyrsta ári og sjóveð verður líka að lúkast á fyrsta ári. Ég fæ því ekki séð, hvaða gagn er að því að undanþiggja vátryggingargjöld frá þessu. Vátryggingargjöldin á þessum bátum eru svo há, að ef þau mega safnast fyrir í 2 ár áður en gengið er að þeim, þá myndi vafalaust lækka veðhæfi þessara skipa og þetta verða eigendunum frekar til ógagns en gagns, eins og búast má við, að innheimtan verði með þessu móti. Skip, sem er 70–80 tonn og þarf að borga 7–8 þús. kr. í vátryggingargjöld, stendur ekki vel að vígi, ef ekki er komið með fyrr en eftir 2 ár 15 þús. kr. lögveð í skipinu.

Það er fyrir tilmæli Landsbanka Íslands, Útvegsbanka Íslands og Fiskveiðasjóðs Íslands, sem þessi till. er flutt.

Ég vænti þess, að það verði ekki gerðar miklar aths. við þessa till., því það er útgerðarmönnum eins hentugt og bönkunum, að slíkir rekstrarreikningar séu gerðir upp einu sinni á ári og sum gjöldin bíði ekki fram yfir þann tíma.

Hin brtt. er smávægileg, en hún er um það, að skipaeigendum sé gert mögulegt að leita úrskurðar um það, hver sé skyldur að taka að sér vátryggingu skipa, ef félögunum ber ekki saman. Það hefir komið fyrir, að bátur sökk óvátryggður vegna svona deilu, þar sem ekki hefir verið hægt að leita til eins aðila, sem kvæði á um það, hvar tryggingarskyldan væri.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Ég vænti þess, að ekki verði breytt þeirri reglu, sem staðið hefir um skeið, svo að vátryggingargjöldin hafi ekki lengri lögveð en margur annar útgerðarkostnaður, sem er jafnrétthár.