29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

90. mál, friðun arnar og vals

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég hreyfði því við 1. umr. þessa frv., að ég teldi vafasamt, að rétt væri að friða erni eins takmarkalaust og gert væri ráð fyrir í þessu frv. Eftir að ég hafði talað við allshn. og vissi, að hún kæmi ekki með neinar brtt. við þetta frv., hefi ég í samráði við hv. 5. landsk. borið fram tvær brtt. við frv., á þskj. 253, en þar er þó ekki eins langt gengið og ég hefði e. t. v. haft dálitla tilhneigingu til. Þar er ekki gengið lengra en svo, að ef örn verpur í friðlýstu varplandi eða eyðir mjög æðarvarpi, getur sá, er fyrir tjóninu verður, snúið sér til hlutaðeigandi lögreglustjóra, er þá hefir heimild til að veita undanþágu frá banni friðunarl. og leyfa viðkomandi manni að gera þær ráðstafanir, sem hann telur heppilegar til þess að varplandið eyðileggist ekki. Lengra er ekki farið í þessari brtt., og nær hún þess vegna svo skammt sem unnt er. Það er alls ekki hægt að ætlast til þess, að varpeigendur verði aðgerðalausir gagnvart þeim usla, sem örninn gerir þegar hann leggst á varplönd þeirra, sem sérstaklega hefir borið við á Breiðafirði. Ég hefi frétt um tvö ný þessháttar tilfelli, annað frá Hrafnsey í varplandi þar. Þessi dæmi eru alltaf að koma fyrir, og ég tel alls ekki fjarri lagi, að slíkt geti gerzt. Ég tel það líklegt, að allir arnarvinir, sem vilja friða hann og láta honum fjölga, geti þó orðið sammála um það, að réttindi einstakra manna, sem eiga varplönd, séu meira virði en fjölgun arnarins, þegar um það er að ræða, að ernir eyðileggja fyrir þeim mikil verðmæti.

Í þessum brtt. er ekki minnzt á að taka upp neinar ráðstafanir gegn því, að ernir leggist á fé manna. Það er erfitt að sanna það, en þó veit ég um einn bónda á Skógarströnd, sem hefir misst 20–30 lömb, og sá, að örn tók nokkur þeirra. En mikill vafi leikur á því, hvaða örn það var, og hvar hann hefir átt hreiður sitt, enda þótt bóndi teldi sig vita það. Enda þótt ég telji mjög vafasamt, hvort örninn ætti ekki að vera ófriðhelgur fyrir lambadráp, hefi ég ekki gert neina till. þar að lútandi.

Síðari brtt. á þskj. 253 er um það, að fyrirsögn frv. verði: friðun arnar, — en ekki „arna“. Þetta er ekki stórt atriði, en samt þótti mér fara betur á því, að frv. yrði samþ. með þeirri breyt., er felst í brtt. á þskj. 253,2. Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vona, að þessar brtt. fái greiðan framgang hér í d., því að þær eru svo sanngjarnar, að ég tel ekki hægt fyrir hv. þm. að vera á móti þeim.