05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

1. mál, fjárlög 1941

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég þarf ekki að tala langt mál að þessu sinni. Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í till. frá einstökum hv. þm., sem fram hafa komið, en ég get tekið undir það með hv. frsm., að það er lítt viðráðanlegt. Hins vegar er lítil von um árangur, eins og þingið er nú skipað að tölu þm., þótt það séu ágætir menn, sem viðstaddir eru, og má fullkomlega gera ráð fyrir, að þeir taki tillit til þess, sem hér hefir verið sagt. Þó eru það einstaka till., sem ég tel rétt að víkja að.

Hv. frsm. gat þess um till. X á þskj. 308, þar sem talað er um endurveitingu styrks til öldubrjóts á Siglufirði, að það kynni að hafa verið óþarft að samþ. till. vegna þessarar upphæðar og að greiða mætti hana án þess, ef rök væru fyrir því færð við ríkisstjórnina, að slík greiðsla væri réttmæt. Ég hefi fallizt á þetta, bæði við hv. frsm. n. og aðalflm. till., og tel það í sjálfu sér ekki miklu máli skipta, hvort till. verður samþ. eða ekki, sérstaklega með tilliti til þess, hvernig afgreiðslu fjárl. yfirleitt er háttað.

Næsta till., sem ég vil minnast í, er á þskj. 333,IV, frá hv. þm. Seyðf., um að veita styrk til Nikulásar Friðrikssonar, sem borin var fram till. um af hv. fjvn. á síðasta þingi, en þá felld. Ég tel hinsvegar, að sú ferð, sem þessi maður tókst á hendur, og sá árangur af henni, sem fram hefir komið í skýrslum, sem hann hefir gefið, sé þess verður, að hann sé að einhverju leyti viðurkenndur með fjárveitingu af þingsins hálfu, og mér hafa borizt tilmæli frá mönnum, sem þessum málum standa nærri og fullkomlega verður að taka tillit til, hvað segja, sem eru þannig, að ég get ekki annað en mælt með því, að sú till. verði samþ. En ég hefði heldur óskað, að hún hefði ekki verið sett þannig fram, að það væri beint skilyrði, að jafnhátt framlag yrði lagt fram af Reykjavíkurbæ, þó ég geti fullkomlega mælt með því, að það yrði gert. Ef til vilt mætti þá bera þá till. fram sérstaklega, en ég veit auðvitað ekki, hvað hæstv. forseti, sem jafnframt er till.-maður, sér sér fært í því efni. (Forseti: Ég mun athuga þessa ósk hæstv. ráðh.)

Þá er hér till. á þskj. 372, sem er einskonar varatill., um ritstyrk til dr. Einars Ól. Sveinssonar. Þannig er ástatt, að dr. Einar hefir haft styrk á fjárl. til ritstarfa, en í fjárlfrv. eins og ég lagði það fyrir þingið er lagt til, að veittar verði 6 þús. kr. til bókavarðarstarfs við Háskóla Íslands, og er gert ráð fyrir, að dr. Einar hafi það með höndum, eins og hann hefir fram að þessu annazt bókavarðarstarf fyrir háskólann, en fyrir mjög litla borgun. Ef sú till. verður samþ., mætti þessi ritstyrkur falla niður, en hv. fjvn. hefir flutt till. um, að þessi 6 þús. kr. styrkur skuli niður felldur, og ef svo fer, því fellur með öllu niður styrkur til dr. Einars, en sá var alls ekki tilgangurinn með minni till. upphaflega um 6 þús. kr. veitingu til bókavarðarstarfsins. En fari svo, að mín till. verði felld og öllum slíkum styrkjum vísað til meðferðar menntamálaráðs, vil ég vænta, að hann fái þá styrk hjá því.

Þá er hér till. á þsk. 375, 2, frá hv. fjvn., um að breyta aftur aths. við styrkinn til Leikfélags Reykjavíkur. Eins og aths. er orðuð á því þskj., hefir hún staðið í fjárl. undanfarin ár, og þannig hefir hún verið samþ. fyrir yfirstandandi ár, en ég breytti aths. viljandi eins og hún liggur fyrir á hinu upphaflega fjárlfrv. Hv. fjvn. hefir e.t.v. ekki tekið eftir því við fyrstu yfirferð sína, en athugað það nú og þess vegna borið fram brtt. og viljað láta þá skipun haldast á þessu máli, sem verið hefir, svo að menntamálaráð gæti þannig haft hönd í bagga með starfsemi leikfélagsins. En e.t.v. stendur líka öðruvísi á um framkomu brtt. Má vera, að hún standi í sambandi við nýskeða atburði í sambandi við starf leikfélagsins. En hvað sem því líður, þá skal ég gera grein fyrir þessari breyt. á fjárlfrv. Hún er fram komin af því, að mér hefir skilizt, að engin framkvæmd hafi orðið á þessu skilyrði, og hefir það ekki verið af því, að leikfélagið hafi viljað skjóta sér hjá því að verða við því, heldur hefir menntamálaráð ekki hirt um að rækja sitt hlutverk í því sambandi. Meira að segja hefir mér verið tjáð, að svo væri málum háttað, að sá maður, sem átt hefir að hafa það hlutverk með höndum, að lesa rit leikfélagsins fyrir hönd menntamálaráðs, hafi mælzt til þess, að stjórn leikfélagsins hætti að senda sér þessi rit, svo ég sé ekki ástæðu til að hafa þennan dauða bókstaf áfram í fjárl., enda hugsanlegt, að misskilningur gæti orðið út af því, ef árekstur yrði svipaður því, sem nú hefir orðið nýskeð, vegna þess að ekki hefir verið framkvæmt eftirlit menntamálaráðs í þessu efni. A.m.k. hefir mér skilizt, að meðlimum menntamálaráðs hafi með öllu verið ókunnugt um efni þess leikrits, sem nú átti að fara að sýna, því það er ekki fyrr en komið er að því að halda á frumsýningu, að upp komu þær skoðanir meðal manna, að nokkur vafi væri á því, að leikritið væri sýningarhæft. Auðvitað hefði ekki til þessa komið, ef menntamálaráð hefði verið búið að kynna sér leikritið, eins og til var ætlazt og skilyrði hafði verið sett um. Ég veit ekki, hvort hæstv. Alþingi. að fengnum þessum upplýsingum, sér ástæðu til að taka upp aftur þetta skilyrði í fjárl., mér finnst það a.m.k. tilgangslaust.

Svo eru það ekki fleiri till. einstakra hv. þm., eins þá frekar en annars, sem ástæða er til fyrir mig að gera að unntalsefni. Út af orðum. sem fallið hafa frá einstökum hv. þm. í sambandi við styrki til skálda og listamanna og þeirri breyt., sem hv. fjvn. leggur til, að gerð verði á frv. í því efni, þá hefi ég lítið um það að segja í viðbót við það, sem ég sagði í ræðu minni í gær. Mér finnst, að það, sem mælt hefir verið með því fyrirkomulagi að fá menntamálaráði það til meðferðar, vera ákaflega veigalítið, en það fyrirkomulag hinsvegar hafa töluverða agnúa. Ég er hræddur um, að þeir hv. þm., sem búnir eru að bera fram aragrúa af till. um styrki til sílda og listamanna, verði fyrir verulegum vonbrigðum við þá framkvæmd á styrkveitingunum. Eins og kunnugt er, þá er samkvæmt till. hv. fjvn. gert ráð fyrir 80 þús. kr. í þessu skyni og menntamálaráði gert að halda sér við þá upphæð, eða eins og hv. 1. þm. Eyf. komst að orði, að nú „væri verið að stöðva sig á ákveðinni upphæð“. Nú hafa lm. þm. flutt till. um styrki til margra manna, sem ekki hafa áður verið á fjárl., og ekki heldur hafa fengið styrk frá menntamálaráði, en samt ætlast hv. þm. til þess hver fyrir sig, að menntamálaráð taki þessa listamenn upp á sina arma og veiti þeim styrk, en jafnframt gera þeir ráð fyrir, að menntamálaráð veiti einnig þeim mönnum styrk, sem áður hafa fengið hann. Ég hygg, að tala þeirra nýrra manna, sem þegar hafa verið fluttar till.

um, sé komin upp fyrir tölu þeirra manna, sem þegar hafa verið viðurkenndir verðugir styrks og fengið hafa styrk frá þinginu og menntamálaráði, og ef þessar tölur á svo að leggja saman, án þess að hækka fjárveitinguna, því verður bersýnilega ekki hjá því komizt, að hv. flm. þessara till. hljóta að verða fyrir vonbrigðum, þótt menntamálaráð taki fullt tillit til till. þeirra, án þess þó að sleppa hendinni af þeim mætu mönnum, sem þeir hafa þegar viljað rétta hjálparhönd. Ég veit ekki, hvort menn hafa gert sér grein fyrir, til hvers er hægt að ætlast, þegar á „að stöðva sig á ákveðinni upphæð“ til skálda og listamanna, eins og það hefir verið orðað. Það er ómögulegt „að stöðva sig á ákveðinni upphæð“ til skálda og listamanna nema með því móti, að engum nýjum mönnum, eða ef nýjum mönnum er bætt við, þá hljóti það að verða til þess að draga frá þeim, sem þegar eru búnir að fá styrk. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að a.m.k. hjá einhverjum mönnum í hv. fjvn. hefir, einmitt í sambandi við þetta, komið upp sú spurning, hvort hægt væri að bæta þeim mönnum upp styrk, sem hann kynnu að fá hjá menntamálaráði, með dýrtíðaruppbót, og hafa þeir bent á, að styrkjunum á 18. gr. hefði fylgt dýrtíðaruppbót, og hefir um það verið spurt, hvort fjmrn. gæti úr þessu bætt. Mun þessari spurningu hafa verið beint til fjmrn. í samráði við menntamálaráð eða einhverja menn úr því. En þá væri ekki lengur staðar numið við ákveðna upphæð. Eins og ég gat um í ræðu minni í gær, þá ætti fjmrn. einnig að veita þeim mönnum styrki, sem menntamálaráð hefir ekki getað líknað neitt. Slíkt er ómögulegt, og það verða hv. þm. að gera sér ljóst. Mér dettur í hug í þessu sambandi það, sem er orðið frægt um einn skólastjóra í latínuskólanum gamla. Það var siður í skólanum, að piltunum var raðað þar á tveggja mánaða fresti eftir einkunnum. Og svo var ýmislegt uppi um það, sem því var samfara, sumir hröpuðu þá frá því, sem var við næstu röðun á undan, en aðrir hækkuðu. Og skólastjórinn skoraði á þá, sem höfðu hækkað, að halda sæti sínu. Og sömuleiðis, þegar einhver hafði lækkað, skoraði skólastjórinn líka á hann að herða sig og komast upp í sitt gamla sæti við næstu röðun. Þetta er dálítið álíka því, að það er ekki hægt að fullnægja hvorumtveggja; það er ekki hægt að veita þeim mönnum öllum styrk, sem hv. þm. koma nú með nýja, og veita einnig jafnmikið til þeirra, sem fengið hafa þennan styrk, eins og þeir að undanförnu hafa fengið, ef á að binda sig við einhverja vissa upphæð. Þessi meðferð á úthlutun styrksins, að láta menntamálaráð hafa hana með höndum, verður til þess, að þingið sleppir alveg af þessu hendinni, og gæti svo farið, að menn, sem þingið vildi styrkja, verði alveg útundan, og aðrir, sem þingið leggur minna upp úr, verði styrksins aðnjótandi. Þess vegna tel ég ekki rétt af Alþ. að sleppa þessu úr sinni hendi. Og að í menntamálaráði verði betur farið með þessi mál en í þinginu, tel ég fjarstæðu, og algert vantraust á þm. sjálfum að halda fram, að þeir séu ekki jafnfærir til þess að fara með þetta eins og menn, sem í menntamálaráði eru, að þeim ólöstuðum. Og í sambandi við þetta vil ég minna á þau ummæli, sem hv. þm. S.-Þ. viðhafði hér í gær, er hann sagði, að einn maður væri á lista menntamálaráðs, sem hefði hlotið styrk hjá menntamálaráði og reyndar hjá þinginu líka undanfarin ár, sem hefði aldrei átt að fá neinn styrk. Þessi maður hefði fengið þennan styrk að vísu með því að telja sig opinberlega til eins flokks, en í raun og veru með því að fylgja öðrum. Nú veit ég ekki, hvort það hefði mátt bæta því við, að honum hefði hlotnazt prófessorsnafnbót frá þriðja flokknum. Ég veit það ekki, en grunur minn er kannske, að svo sé. En hvað sem um það er, er það bersýnilegt af þessum ummælum hv. þm. S.-Þ., að sú ráðstöfun, að vísa þessari úthlutun til menntamálaráðs, hefir nú ekki reynzt einhlít til að koma á réttlátri skiptingu hvað þessum manni viðkemur, samkvæmt orðum hv. þm. S.Þ. sjálfs, þar sem þessi mjög svo óverðugi maður heldur styrknum eftir sem áður, þó að menntamálaráð hafi fengið að hafa þessa úthlutun með höndum.

Ég minntist á það í gær, að þegar verið var að deila um þetta í fyrra á Alþ., þá var ein aðalröksemd fyrir því, að það bæri að fela menntamálaráði þetta, að það hefði sýnt sig, að þingið hefði veitt styrk kommúnistum sem kristnum mönnum, og mætti ljóst vera, að slíkt væri mesta óhæfa, enda óverðugt, einnig með tilliti til þeirra ritstarfa, sem þeir hafa innt af hendi. En hvernig fer? Þeir fá styrk alveg eins hjá menntamálaráði eins og hjá Alþ. Ég tel ekkert sanngjarnara en það, að það komi til atkv. þm. sjálfra, hvort þessi eða hinn maðurinn eigi að fá slíkan styrk eða ekki. Og ég fyrir mitt leyti tel því alveg rétt og eins og vera ber, að hér eru komnar fram till. um að taka upp styrki til þeirra „listamanna“ (ég hefi það nú í gæsalöppum), sem ég felldi niður frá því, sem var í fjárl. Ég er nú svo lánsamur, að ég tel suma þeirra manna óverðuga styrks af ríkisfé, vegna þess að með því er styrkt þeirra pólitíska starfsemi, sem, eftir því sem tekið hefir verið upp eftir mér við umr., ég tel „þjóðskaðlega“, eins og líka tekið var til orða í ræðu í dag. Það, sem sagt hefir verið um það, fer ekkert í bága við mínar skoðanir, hvers þessir menn séu verðir beinlínis sem rithöfundar, alveg að slepptri þeirra pólitísku starfsemi. Og það, sem einn hv. flm. var að tala um þann mikla arf, sem sumir þessara manna mundu skilja þjóðinni eftir, þá sé ég fyrir mitt leyti ekkert eftir því, þó sá arfur verði ekki mikill. Ég vil ekki kaupa þann arf fyrir neitt verð. Annars fer náttúrlega um þetta eftir því, sem hv. þm., þegar til atkvgr. kemur, telja sér til mests sóma og föðurlandinu til mestra heilla. Og læt ég svo útrætt um það.

Ég sé svo ekki ástæðu til yfirleitt að fara frekar orðum um þetta mál. Ég get í raun og veru þakkað hv. frsm. fjvn. fyrir þau ummæli, sem hann lét falla í sambandi við heildarafgreiðslu fjárl. í sinni síðustu ræðu, og hefi ég ekkert við þau að athuga. vona ég, að samstarfið milli mín og fjvn. verði það, sem eftir er, vandræðalaust, eins og ég líka vona, að það verði við hv. alþm. En ef hinsvegar fleiri eða færri hv. þm. eru sama sinnis og hv. 2. þm. Skagf. og lýsa sig mótfallna frv., sem borið hefir verið fram um heimild fyrir ríkisstj. til að fella niður eða lækka ymsar greiðslur samkv. l., þá verður að skeika að sköpuðu með það. Ef Alþ. ber ekki traust til ríkisstj. til þess að fara vel og réttilega með heimildir, sem ríkisstjórnin þykist þurfa að fá, þá verður náttúrlega að taka afleiðingunum af því.