18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

74. mál, verðlag

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þm. Barð. gerði grein fyrir, eru í þessu frv. nokkru nánari ákvæði um verðlagseftirlit en í núgildandi l., og eru breytingarnar þó ekki mjög miklar. Um 9. gr., sem hv. þm. Ísaf. minntist á, er það að segja, að þeirri gr. er aðeins ætlað að ná til varnings, sem ekki hafa verið sett um ákvæði um hámarksálagningu eða hámarksverð. Það er misskilningur hjá hv. þm., að hér sé aðalreglan sú, að leggja megi á sama hundraðshluta og áður. Það er bannað að hækka hundraðshluta álagningarinnar frá því, sem var fyrir ófriðinn, en þessu á að haga svo, að nettóágóðinn verði ekki vegna verðhækkunarinnar meiri að upphæð en áður var við sölu á sama vörumagni, að viðbættu álagi, sem teljast verður hæfilegt vegna aukinnar áhættu og kostnaðar. Ástæðan til þessarar breyt. er sú, að ef aðeins stæði í l., að bannað væri að hækka hundraðshl., þá er hætt við, að verzlanaeigendur litu svipað á og fram kom hjá hv. þm., að þetta gæfi þeim grundvöll til að halda sér við svipaða hundraðstölu og áður var, og til þess að það komi fram, að það er ekki tilgangur löggjafarvaldsins að leggja áherzlu á, að þeir skuli halda sínum hundraðshluta, er þetta ákvæði sett í frv. Nú getur verið álitamál, hvort þetta ákvæði skuli standa eða ekki. T. d. stendur þetta ákvæði ekki í ensku verðlagsl., og virðist sem þau heimili aðeins verðhækkun sem samsvarar raunverulegri hækkun á kostnaðarverði og auknum dreifingarkostnaði. En í dönsku l. er það vítalaust, þó að vöruverð sé hækkað nokkuð fyrir aukinni áhættu. Það ætti því að vera á valdi dómara að ákveða í hvert sinn, hvort of langt er gengið. Loks nær þetta aðeins til vörutegunda, sem n. sér sér ekki fært að skipta sér af. Breytingin er gerð til þess, að menn geti ekki borið fyrir sig, að samkv. l. sé til þess ætlazt, að þeir haldi sömu hundraðsálagningu og áður en stríðið brauzt út. Ég held því, að þetta sé til bóta, því að í því felst talsvert aðhald. Eina

breytingin, sem ef til vil mætti gera á gr., væri sú, að strika út ákvæðið um, að taka megi tillit til aukinnar áhættu við vöruálagningu, en ég held þó ekki, að það væri rétt.