22.04.1941
Neðri deild: 42. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég hafði einmitt hugsað mér að gera athugasemd við 3. gr. frv., m. a. það atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. var að gera að umtalsefni, um leið og ég talaði um vextina, og hætti ég ekki við það, og vil þess vegna fara um það nokkrum orðum.

Ég er alveg á sömu skoðun og hv. 4. þm. Reykv. um það, að það er verið að fara inn á dálítið athugaverða braut með því að áskilja einhverri sérstakri n. rétt til þess að útnefna trúnaðarmenn, sem eiga að vera trúnaðarmenn Alþingis. Þetta er ekki aðeins upphafið. Fjvn. er byrjuð á því, eða menn fyrir hennar hönd, að pota henni fram til slíks. Og má mikið vera, að það verði ekki samkeppni. um það að komast í þá n., sem á að vera nokkurs konar veitingarvald fyrir stöður, sem ég skal ekki segja, að verði bitlingar.

Ég álít þetta mjög athugaverða og jafnvel háskalega braut að ganga inn á. Hvað verður langt þangað til fjvn. heimtar að mega skipa bankastjóra og bankaráðsmenn í Landsbankann, og svo að sjútvn. vill hafa hlutdeild um Útvegsbankann, skipa gæzlustjóra þar og við fiskveiðasjóð o. fl.?

Ég held, að þetta sé mjög athugaverð braut, sem við erum hér að ganga inn á. Og hafði ég hugsað mér að gera athugasemd við þetta, og get það ekki síður, þó að hv. 4. þm. Reykv. gerði það. Og það er rétt að það komi fram, að það eru fleiri þeirrar skoðunar. Um það, hvort rétt sé að hafa gæzlustjóra við þessa banka, ætla ég ekki að ræða sérstaklega. Ég vil þó benda á Það, að það er ekki óeðlilegt, þó að Alþ. vilji hafa eitthvert öryggi fyrir stjórn svona mikilsverðra stofnana og eiga einhverja trúnaðarmenn, sem þar gætu haft gát á, hvernig öllu væri háttað. Það er náttúrlega ekki útilokað, að slíkir menn geti orðið nafnið tómt, og þess vegna lítils verðir. En það er þó ekki tilgangurinn. Og ég held þess vegna, að það sé vel til fallið, að bankastjóri hvaða banka sem er hafi einhverja menn, sem gæti þess, hvernig stofnuninni er stjórnað, og séu þeir bankastjórum einnig til ráðuneytis.

Það er líka þjóðfélaginu óhollt, að þeir verði allt of einráðir um bankamálin, sem hafa svo mikla þýðingu fyrir alla okkar lífsbaráttu. Hitt er að sjálfsögðu athugandi, að þessum eftirlitsmönnum séu ekki skömmtuð óhóflega há laun fyrir starf sitt, og eins sé hins gætt, að þeir ræki sitt starf vel og sofni ekki á verðinum.