16.04.1941
Efri deild: 36. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Það ber svo einkennilega við, hvað þetta mál snertir, sem hér er til umr., að það má heita, að búið sé að halda í því þrjár eða jafnvel fjórar framsöguræður, sína úr hverri áttinni, og er jafnan sami formálinn fyrir þessum ræðum, sem sé sá, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé nú ekki eftir þeirra höfði að öllu leyti, er hér hafa talað, en þó sameiginleg niðurstaða fulltrúa fyrir þá þrjá flokka, sem hér eiga hlut að máli. Hver fyrir sig þvær hendur sínar til hálfs. Hver og einn vill helzt fyrir sitt leyti hreinsa sig af hinum ýmsu ákvæðum þessa frv. og telur, að ef hann hefði mátt ráða, hefði þetta eða hitt ekki verið svona, eins og það stendur á prenti.

Þetta skýrist nú að vísu við athugun á sjónarmiðum þeirra manna, sem hér hafa átt hlut að máli, og ef ókunnugir hefðu furðað sig á þeim ræðum, sem fluttar hafa verið, þá verða þær öllu skiljanlegri fyrir þá, sem hafa fylgzt með þróun skattamálanna hér á landi á undanförnum árum.

Það var ýmissa manna ósk, og ég held flestra manna ósk í þessu þjóðfélagi, að þessi ófögnuður, sem heitir skattamál landsins, það er óhætt að kalla þau hreinan og beinan ófagnað eins og þau eru orðin nú, væri tekinn til gagngerðrar endurskoðunar og breytingar gerðar, sem næðu til allra greina skattalöggjafarinnar.

Þjóðin var yfirleitt farin að skilja það, að skattstefnan sósíalistíska, sem hefur verið í algleymingi a. m. k. síðastliðin 14 ár í þessu landi, var búin að leiða yfir atvinnuvegi þjóðarinnar stórtjón og búin að færa jafnvel hinum tekjuminnstu mönnum heim sanninn um bölvun þeirrar skattstefnu, sem hér var fylgt af hinum sósíalístísku öflum, sem að henni stóðu. Mennirnir, sem lengi höfðu haldið, að þeir væru svo tekjulitlir, að þessi ránför ríkisvaldsins á hendur gjaldþegnunum mundi aldrei ná til þeirra, voru nú farnir að finna til þess, að hún náði líka til þeirra.

Af þessum ástæðum leyfi ég mér að halda fram, að það hafi verið afar almennur þjóðarvilji fyrir því, að skattalöggjöfin væri tekin til verulega gagngerðra breytinga.

Hv. frsm. færði nokkur rök fyrir því, hvers vegna — með tilliti til hins óvenjulega ástands, eins og það heitir nú — það ráð hafi ekki verið tekið upp að búa til almennilega og skynsamlega skattalöggjöf fyrir framtíðina heldur en enn þá einu sinni að fara þessa uppáhaldsleið hinna sósíalistísku afla í þjóðfélaginu, bráðabirgðafyrirkomulagið. Það væri annars ekkert ófróðlegt, ef litið væri yfir og gerð skrá yfir alla þá bráðabirgðalöggjöf, sem hrúgað hefur verið upp hér á landi síðan 1927. Einlæg bráðabirgðalög á ýmsum sviðum og viðaukar við þau bráðabirgðalög o. s. frv. Og enn er haldið hér áfram á sömu brautinni, en þó má segja, að nú sé nokkuð meiri afsökun fyrir hendi heldur en oft hefur verið áður.

Hv. frsm. taldi þessu frv. margt til gildis, og má víst með sanni segja, að þar hafi verið að ýmsu leyti rétt mælt, og skal ég taka undir það að því er snertir þá lagfæringu á skattstiganum, sem hér er fram komin, svo og persónufrádráttinn og e. t. v. sumt af því, sem snýr að útgerðinni. En þó efast ég um, að allt, sem þar er fram sett, muni reynast heppilegt í framkvæmdinni eða til bóta fyrir atvinnuveg þann, sem hér á helzt hlut að máli.

Það er annars dálítið eftirtektarvert að athuga aðstöðu löggjafarvaldsins gagnvart útgerðinni á undanförnum árum, og þá ekki síður, hvernig þessi aðstaða hefur haft áhrif á framtak manna í þeim efnum.

Eftir síðasta ófrið var talsverð velmegun hér á landi. Fólkið hafði nokkuð mikla peninga með höndum, og menn voru mjög áfram um það að koma þessum peningum í arðberandi fyrirtæki. Og stærsta átakið, sem fengizt var við, var útgerð, einkum stórútgerðin. Um tíma gekk þetta vel. En þegar fram í sótti, gerði margt vart við sig, sem varð til þess að koma á kné þessum tiltölulega blómlega atvinnuvegi, svo sem kaupkröfur, markaðstöp og verðfall og síðast en ekki sízt skattaálagning, bæði af hálfu ríkisvaldsins og bæjar- og sveitarfélaga. Og þetta heldur áfram að koma útgerðinni í kaldakol svo að segja. Útgerðin var yfirleitt taprekstur allt frá 1930 og fram til þess, að núverandi styrjöld fór að skapa nýtt viðhorf. Loks rak þetta svo langt, að sjálft Alþingi hafði til meðferðar frv. um það að gera sum útgerðarfélögin upp. Svo háværar urðu raddirnar um það, að hið opinbera skipti sér af stórútgerðartapinu, að Alþingi þóttist ekki geta leitt þetta mál hjá sér. Svona skapaðist þá veður í lofti á ekki lengri tíma en þarna var um að ræða. 1938 er ástandið orðið svo óbærilegt í þessum efnum, að Alþingi telur sig verða að gera hvort tveggja í senn, gefa útgerðinni loforð um skattfrelsi, — loforð, sem allir vissu þá og viðurkennt var við framsögu málsins á Alþingi, að væru einskis virði, nema því aðeins, að útgerðin yrði fyrir einhverju happi, svo að henni gengi betur þar eftir en fram að þeim tíma, — og um svipað leyti er það, sem Alþingi heitir verðlaunum, peningaframlagi, styrk úr fiskimálasjóði, ef einhver vildi nú leggja í það að kaupa nýtízku togara. Það er talsvert eftirtektarvert, ofan í hversu djúpan dal við vorum komnir í þessum efnum og hversu mikið vonleysi var búið að hertaka hugi manna, að það varð enginn til þess að taka í þá framréttu hönd og þiggja það landssjóðsfé, sem fram var boðið, eða hætta sínu fé á móti ríkisfé til þess að kaupa svona framleiðslutæki.

Svo kemur ófriðurinn og stríðsgróðinn, og nú hefur hið háa Alþingi beðið eftir því á annan mánuð, að menn úr hinum ýmsu flokkum gætu náð samkomulagi um það, hvernig ætti að meðhöndla þá peninga, sem hlaupið hafa á snærið hjá stórútgerðinni, því að ég held, að óhætt sé að segja, að mestur tími muni hafa farið í þessi störf, þó að nokkur tími kunni að hafa verið helgaður skattstiganum fyrir almenning o. s. frv.

Það hefur nú undanfarið mátt skilja það á skrifum sumra blaðanna, að það stappaði nærri, að þau litu á það sem ólán fyrir þjóðina, að þessi grein útgerðarinnar hefði orðið fyrir happi, um leið og á ýmsum sviðum þrengir að viðskiptum í heiminum. Þær eru ekkert orðnar fáar ritgerðirnar um það og kröfurnar, að tekin séu ráðin af þeim, sem nú eiga þessa peninga, og þeim fyrirskipað að gera við þá það, sem löggjafarvaldinu þóknast að ákveða. En minna hefur borið á því, að minnzt væri á nokkurt sjálfræði útgerðarfélaganna yfir hinum öfluðu fjármunum eða hverju þeir menn hafa fórnað á undanförnum árum og teflt í hættu, sem borið hafa hita og þunga dagsins, meðan hvert tapsárið rak annað.

Hér liggur þá fyrir þessi sambræðsla af till. og þankagangi hinna ýmsu aðila, sem að frv. standa. Hér er það kristaliserað í þessu frv., sem myndazt hefur úr hinum ólíku frumefnum, er notuð hafa verið í þessari bráðabirgðaúrlausn.

Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, að ekki hafi verið leitazt við að fara hér einhverja sanngirnisleið, en þó vil ég halda því fram, að óþarflega nærri sé gengið þeirri atvinnugrein, sem hér á hlut að máli. Þetta er ekki sagt sérstaklega vegna þeirra, sem í dag standa að þessum atvinnufyrirtækjum, heldur vegna þess, að ég veit það, og það vitum við reyndar allir, að tímarnir, sem í hönd fara, og sérstaklega tímarnir eftir þetta stríð, verða áreiðanlega ekki eins uppskeruríkir fyrir stórútgerðina eins og þetta tiltölulega stutta tímabil, sem liðið er af ófriðnum. Þess vegna þarf útgerðin að vera fjárhagslega sterk eftir ófriðinn.

Við vitum það af fyrri reynslu, að þessi stríðsgróði dregur einhvern veginn á eftir sér þann slóða af töpum og kreppu í atvinnuvegunum, að hinn fljóttekni gróði stríðsins er oft, ef ekki alltaf, fljótur að hverfa úr umferð.

Þegar þessi — ég held ég megi segja — staðreynd er athuguð, þá væri full ástæða til að gera meira heldur en gert er með þessari bráðabirgðaúrlausn til þess að skapa heilbrigðan og réttlátan grundvöll fyrir útgerðina, í fyrsta og síðasta lagi vegna þess, að það er undir því komið, á hversu góðum grundvelli útgerðin starfar, hvað hún getur lagt af mörkum til þjóðarbúsins og hvað hún getur fætt marga munna á landinu á komandi árum eins og þetta hefur verið háð afkomu hennar á liðnum árum. Hversu margar fjölskyldur munu ekki hafa horft fram á afkomubágindi, atvinnustöðvun og jafnvel neyð á liðnum árum, þegar við borð hefur legið, að útgerðin hreint og beint gæfist upp? Ég hygg, að þær hafi ekki verið fáar.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að hið svonefnda skattfrelsi verði afnumið, og ég er viss um, að enginn ætlast til annars en að það hverfi á einhvern hátt úr sögunni. Hins vegar er það heldur óviðkunnanlegur grundvöllur fyrir löggjafarákvæðum, að þau séu, þegar þau eru sett, látin verka aftur á bak, en það virðist úr því sem komið er vera eina leiðin til þess að afnema hið svokallaða skattfrelsi útgerðarinnar. Í því sambandi vil ég minnast á það, sem hæstv. viðskmrh. lagði til málanna, og benda á þá játningu, sem hann gerði í ræðu sinni í dag, játningu, sem ég tel gerða fyrir hönd þeirra flokka beggja, Alþfl. og Framsfl., sem hafa staðið að niðurrifsskattastefnu síðasta áratugs. Hæstv. viðskmrh. sagði sem sé um skattfrelsisl. frá.193S, að þau hefðu verið sett, „þar eð sýnt þótti, að engar líkur voru orðnar til þess, að félögin gætu nokkurn tíma reist sig við með gildandi skattalöggjöf“, eins og hann orðaði það. Já, það er nú vitað, að ástandið var svona, og það er talsvert góðra gjalda vert, að það er viðurkennt, þó að seint sé.

Hugmyndin um það að verja verulegum hluta af gróða togaraflotans nú í stríðinu til þess að endurbyggja hann eftir stríðið er góðra gjalda verð. Í þessu frv. er þessi hugmynd færð út og ákvæði sett um það, hvernig ganga eigi frá þeim peningum, sem fastsettir verða í því skyni. Ég verð að taka undir það með hv. frsm., þegar hann sagði við framsögu málsins, að hann hefði óskað eftir, að sá stakkur, sem útgerðinni er þar sniðinn með ákvæðunum um nýbyggingarsjóð, væru nokkuð rýmri. En ég er honum ekki fyllilega sammála um það, sem hann sagði um, að nýbyggingarsjóðurinn væri sem varasjóður, sem hlyti að verða undirstaða undir lánstraust, því að þótt nýbyggingarsjóður og varasjóður geti verið hjálp fyrir lánstraustið, þá er það því skilyrði háð, að sú atvinnugrein, sem lánið skal veita til, verður í augum lánveitanda að vera fyrirtæki, sem geti staðið undir sér og þeim lánum, sem til þess eru veitt. Þá, en fyrr ekki, er þetta orðið grundvöllur undir lán, en það er það, sem ég er ekki óhræddur um, að verði tilfellið með aðbúnað stórútgerðarinnar í framtíðinni eins og það hefur verið á liðnum árum, að þessi aðbúnaður miði ekki að því, þegar gróðaflóðið hættir, sem nú er um að ræða, sem við vitum allir, að er ekki nema dægurfluga, að lánsstofnanirnar megi líta á togaraútgerðina sem trygga atvinnugrein. Það er t. d. með þennan nýbyggingarsjóð ákaflega óviðkunnanlegt ákvæði að skylda þá, sem eiga hann, til að koma honum fyrir á þann hátt, að eins og nú standa sakir getur hann enga vexti gefið, því að ég tel augljóst, að með því að slegið sé föstu, að hann sé geymdur í opinberum verðbréfum eða í banka, þá sé hann svo að segja vaxtalaus, því að við vitum, að bankarnir eru hér um bil hættir að gefa vexti, og opinber verðbréf standa engum til boða í dag, og þessir sömu menn, sem löggjöfin skyldar til að eiga fé sitt þannig geymt, eiga svo að reka atvinnufyrirtæki sín með lánsfé frá bönkum, sem lána með fullum vöxtum. Ég vil beina því til hv. n., hvort hún geti ekki náð samkomulagi um það að rýmka dálítið til í þessu efni, og ég held, að það hljóti að vera hægt að ger a það á tryggilegan hátt, svo að leið sé til þess að geyma þessa sjóði á þann veg, að þeir svari einhverjum sæmilegum vöxtum, því að það er satt að segja hálfbarnalegt að rígbinda þetta svo, að menn séu dæmdir til að hafa stórskaða af því, hvernig þetta fé er geymt. Og af þessum nýbyggingarsjóðum og varasjóðum, sem eftir ákvæðum frv. verður óarðbær eign, verða félögin og hluthafarnir að greiða skatt til ríkisins, því að við vitum eftir reynslu undanfarinna ára, að hlutabréf fiskveiðahlutafélaga hafa verið metin af skattstjóra til þessarar og þessarar krónuupphæðar og mönnum gert skylt að borga skatt af þeim, þó að þau hafi enga vexti gefið, svo að maður, sem á hlutabréf í fyrirtæki, sem stendur að þessari eign, verður að gjalda árlega til ríkisins fullan skatt af nafnverði, eins og hér væri um arðbæra eign að ræða, um leið og með einstrengingslegum ákvæðum er svo til hagað, að engir vextir fást af þessari eign, meðan hún er þannig geymd. Við þetta bætist svo það, að ef félag fargar skipi sínu, svo að það er gert upp, þá tekur ríkið tekjuskatt af 60% af þeirri upphæð, svo framarlega sem það er ekki notað til að borga skuldir. Hér er þó um að ræða fé, sem Alþingi í dag vill láta kalla skattfrjálst og vill láta landslýðinn skoða, að lagt sé til hliðar með þeim fríðindum, að það sé skattfrjálst, en það er þó engan veginn víst, ef svo fer, sem ég lýsti nú. Svo getur farið, að af þessu fé verði menn að borga fullan skatt til ríkisins.

Ég hef þá í fáum dráttum bent á, hvernig þetta mál horfir við í heild sinni. Ég ætla ekki að fara út í neina tekniska hlið á þessu máli, en mér þótti ræða hv. síðasta ræðumanns allfróðleg í því efni. Ég geri ráð fyrir, að aths. hans hafi að mörgu leyti verið réttar, en hann hefur líka aðstöðu til þess öllum mönnum fremur að benda á þessar teknisku hliðar slíks máls sem þessa. En formælendum þeirrar góðu hugmyndar, sem hér hefur verið talsvert hampað að eðlilegum hætti, vil ég segja það frá mínum bæjardyrum séð, að sá öflugasti nýbyggingarsjóður, sem löggjafinn getur stuðlað að, er grundvöllur undir atvinnuveginn, sem er þannig gerður, að þeir, sem hann vilja stunda, geti gert sér skynsamlega von um arðvæna afkomu. Ef löggjafarvaldið sneiðir fram hjá þeim aðgerðum, sem nauðsynlegar eru til þess, að slíkur grundvöllur sé lagður, eða beinlínis beinir gangi málsins inn á annan veg, t. d. með skattalöggjöf, þá hjálpar enginn nýbyggingarsjóður til frambúðar til þess að halda þessari atvinnugrein gangandi. Það er og verður alltaf þungamiðjan í öllum atvinnurekstri og farsælasta leiðin fyrir alla, sem að honum standa, að hægt sé að reka hann með skynsamlegri og öruggri von um arðvæna afkomu. Undir því er í mínum augum mest komið, þó að ég vitaskuld viti, að það getur verið ákaflega mikil hjálp til þess að komast yfir örðugan hjalla, ef til er varasjóður til þess að kaupa fyrir þau nauðsynlegustu áhöld, sem til atvinnurekstrarins þarf. En virðulegasta skylda Alþingis er að stuðla að því eftir megni, að atvinnuvegirnir séu reknir á heilbrigðum grundvelli, en þeirri skyldu hefur á undanförnum árum mjög svo lítið verið sinnt gagnvart stórútgerðinni. Þær aðgerðir, sem gerðar voru, þegar allt var komið í ógöngur á árinu 1938, voru beinlínis afleiðing af vitlausri skattapólitík undanfarinna ára, og því miður hafa þær aðgerðir, skattfrelsið svokallaða, orðið til þess, að almenningur hefur litið svo á, að útgerðin hafi búið við skattfrelsi, þó að það skattfrelsi, eftir því sem nú liggur fyrir, muni aldrei sjá dagsins ljós í framkvæmd, því að hér er verið með löggjöf, sem á að verka þannig aftur á bak, að skattfrelsisl. frá 1938 eru þar með gerð ónýt.

Ég vil að síðustu endurtaka þá beiðni til n., að hún sérstaklega reyni að sjá. til þess, að þessir peningar, sem eiga að vera aukavarasjóður til nýbyggingar, geti um leið verið til styrktar atvinnurekstrinum, en ekki sem mylnusteinn um háls honum, en ef frv. verður samþ. óbreytt í þessu efni, liggur nærri, að það síðarnefnda yrði tilfellið.