18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Brynjólfur Bjarnason:

Ég var farinn að óttast um, að málið færi umræðulaust í atkvgr., en ég vildi ekki láta þetta tækifæri hjá líða að skýra brtt. mínar, og þar sem ég tók ekki til máls við 1. umr., vil ég leyfa mér að segja nokkur orð um frv. almennt.

Einn ræðumaður sagði við 1. umr., að skattfrelsisl. fyrir útgerðina hefðu því aðeins getað komið að haldi, að eitthvert óvænt happ kæmi fyrir. Þetta er rétt. Þegar l. voru sett, var gert ráð fyrir því, að óvænt happ mundi koma fyrir, og þetta happ var stríðið. Þetta var stríðsundirbúningur stórútgerðarmanna til þess að geta haft stríðsgróðann skattfrjálsan. Og stríðið kom og gróðinn var skattfrjáls.

Nú vilja fulltrúar stórútgerðarmanna á Alþingi nota þessa aðstöðu til þess að fá varanleg fríðindi og ívilnanir gegn því að skattfrelsisl. verði afnumin. Þessi varanlegu fríðindi fá þeir með samþykkt þessa frv., og eru þessi fríðindi aðallega fólgin í eftirfarandi:

1) Hátekjuskatturinn er afnuminn, og það hefur þau áhrif, að skattur á hátekjumönnum lækkar mikið samkv. hinum nýja skattstiga.

2) Útgerðarfyrirtækjum er leyft að draga frá skattskyldum tekjum sínum árið 1941 tap undanfarinna níu ára fyrir stríð.

3) Með ákvæðinu um skattfrelsi á helming þess, sem lagt er í varasjóð, og þar sem gert er ráð fyrir, að 40% af varasjóðunum fari í sérstakan sjóð, sem ætlaður er til þess að koma upp nýjum framleiðslutækjum, þá gefst hér tækifæri til þess að sleppa við að greiða skatt af meiri hluta stríðsgróðans. Þegar á allt þetta er litið, er augljóst, að stórútgerðarmenn og stóreignamenn hafa gert góð kaup. Þeir hafa fengið varanleg fríðindi fyrir sérréttindi, sem aðeins voru veitt um ákveðið árabil. Hins vegar eru í frv. nokkrar umbætur, en þær ná svo skammt, að ég tel þær með öllu óviðunandi. Hækkun persónufrádráttarins er svo lítil, að lagður er skattur á tekjur, sem ekki eru helmingur af brýnustu þurftartekjum. Skatturinn á lágtekjumönnum og miðlungstekjumönnum verður þannig óhæfilega hár, þegar hægt er að fullnægja tekjuþörfinni með því að skattleggja stórgróðamennina sæmilega.

Umreikningurinn á tekju- og eignarskattinum samkv. vísitölu er hárrétt aðferð, en hann kemur ekki að fullum notum vegna þess, að vísitalan er áreiðanlega miklu lægri en verðhækkunin

Þetta frv. er sameiginlegt afsprengi þjóðstjórnarfl., sömu flokkanna sem á sínum tíma samþykktu skattfrelsislögin. Þessir fyrirvarar Alþfl. og Framsfl. um fylgi við frv. eru einskis virði nema því aðeins, að flokkarnir neyti sameiginlega þess meiri hluta, sem þeir hafa. ásamt Sósíalistafl., til þess að koma fram till. sínum. Báðir flokkarnir hafa haft á orði, að rétt væri að hækka persónufrádráttinn meira en hér er gert. Hvers vegna neyta þeir ekki meiri hluta síns og samþykkja það? Þeir hafa sömuleiðis haft á orði, að réttara sé að leggja skattinn á, áður en greiddur tekjuskattur sé dreginn frá. Hvers vegna samþykkja þeir það ekki?

Það er vitaskuld engin mótbára gegn þessu,. sem fram kom í ræðu hæstv. félmrh. (StJSt), að löggjöf skorti til þess að ýta undir menn að greiða skattinn á réttum tíma, ef sá spori sé tekinn, sem frádrátturinn er. Úr þessu má bæta með einföldu sektarákvæði. Það þarf ekki sérstaka löggjöf til þess. Þetta er því gersamlega einskisnýt mótbára. Ef Framsfl. og Alþfl. álíta rétt að hafa þessa aðferð við álagningu skattsins, er þeim innan handar að samþ. það. Ef þessir flokkar neyta ekki sameiginlegs meiri hl. til þess að koma þessum umbótum fram, eru fyrirvarar þeirra og till. ekkert annað en leikaraskapur. Sama máli gegnir um til. þeirra um tapsfrádráttinn.

Lög þau, sem afgreidd verða frá þinginu, með öllum sínum fríðindum fyrir stóreignamennina og stórútgerðarmennina, eru á ábyrgð þjóðstjórnarfl. allra og allra jafnt.

Sósíalistafl. er andvígur grundvelli þessa frv. Skv. frv. er gert ráð fyrir, að 40% af varasjóði sé lagt í nýbyggingarsjóð til þess að koma upp nýjum fyrirtækjum fyrir gróðann, sem lagður er til hliðar og er að nokkru leyti skattfrjáls. Sósíalistafl. viðurkennir ekki rétt einstakra manna til þess að auðgast þannig á stríðsgróðanum, sem kemur upp í hendurnar á þeim eins og hver annar fiskidráttur. Auk þess er engin trygging fyrir því, að fénu verði varið til nýbygginga, áður en það er orðið verðlítið. Stríðsgróðinn á ekki að vera eign einstaklinga, heldur sameiginleg eign landsmanna.

Sósíalistafl. hefur líka árum saman bent á, að það er í raun og veru hin versta svikamylla, að leyft sé að draga opinber gjöld frá skattskyldum tekjum. Þetta er svo augljóst mál, að jafnvel Framsfl. er nú farinn að viðurkenna það.

Eðlilegast væri að sameina alla skattana í eitt og skipta tekjunum síðan eftir ákveðnum hlutföllum milli bæjarfélaga, ríkis og einstaklinga. En ef þessi háttur væri upp tekinn, mundu bæjarfélögin eiga undir högg að sækja hjá ríkinu, eins og valdahlutföllin eru nú í landinu. Í stuttu máli: Sósíalistafl. er það ljóst, að gagngerð breyting á skattalöggjöfinni og skattafyrirkomulaginu kostar gagngerða breytingu á valdahlutföllum stéttanna í landinu.

Brtt. þær, sem Sósíalistafl. flytur við frv. þetta, geta því ekki komið nema að takmörkuðum notum. Þær miða allar að því að létta skattabyrðinni af þeim, sem hafa lág laun og miðlungslaun, en draga úr fríðindum stóreignamanna, og mundu þær marka ærið djúp spor í áttina til endurbóta, ef þær næðu samþykki.

Þá vil ég skýra með fáum orðum þær brtt., sem ég flyt við frv. þetta á þskj. 202.

1. till. miðar að því að takmarka allverulega þær fjárupphæðir, sem njóta skattaívilnana, ef þær eru lagðar í varasjóð. Og 4. og 5. brtt. eru fluttar til samræmis við þetta. Er lagt til, að skattaívilnunin nái aðeins til 40% í stað 50% af varasjóðstillaginu og megi aldrei vera hærri en nemur 1/3 af innborguðu hlutafé eða stofnfé þessara félaga. Enn fremur er lagt til, að réttur hlutafélaga til að draga frá 5% af innborguðu hlutafé, áður en skattur er lagður á, verði afnuminn. — Þetta miðar að því að byrgja helztu smugurnar, sem hlutafélögin hafa notað til þess að smeygja sér undan réttmætum skatti af stórgróðanum. Þó er ekki, eins og um hnútana er búið í skattalöggjöfinni, unnt að komast fyrir alla klæki þeirra, er svíkja vilja undan skatti, t. d. er það stundum gert að búa til mörg hlutafélög utan um eitt og sama fyrirtækið.

2. till. er um það, að tekjuskattur sé lagður á án þess að tekjuskattur fyrra árs sé dreginn frá. Þetta hefur þau áhrif, að skattskyldar tekjur, sem eru yfir 14 þús. kr., verða skattlagðar nú svipað og meðan hátekjuskatturinn og 12% viðaukinn voru enn í gildi, og hækkar skatturinn svo nokkuð, eftir því sem tekjurnar hækka. Á lágum tekjum hefur þetta sama og engin áhrif. En í sambandi við 3. brtt. mína verður niðurstaðan sú, að borið saman við frv. stjórnarfl. og núgildandi skattalög, hækkar skatturinn á hátekjumönnum allmikið, en lækkar hins vegar mjög verulega á lágtekju- og miðlungstekjumönnum.

Þá kem ég að 3. brtt. minni, en hún fjallar um hækkun persónufrádráttarins. Hér er um allríflega hækkun að ræða. Með því að hækka persónufrádráttinn eins mikið og hér er lagt til, og þegar þess er gætt, að hin raunverulega skattfrjálsa upphæð fæst með því að bæta 32% af upphæðinni við, þegar skatturinn er lagður á tekjur ársins 1940, þá fer hinn skattfrjálsi hluti teknanna að nálgast brýnustu þurftarlaun (meðalvísitala ársins 1940 er 132). Hjón með 3 börn í Reykjavík hafa t. d. 4900 kr. skattfrjálsar, ef farið er eftir þessari till. Við það bætist svo 32%, svo að hin skattfrjálsa upphæð 5 manna fjölskyldu yrði þá 6468 kr. á þessu ári. 5 manna heimili í Reykjavík með 7000 kr. árstekjum, mundi t. d. greiða aðeins rúmar 5 kr. í tekjuskatt í stað 155 kr. nú. Það er því augljóst, að þessi till. yrði til þess að lækka mjög ríflega skattinn á láglauna- og miðlungstekjumönnum, þar eð hinn skattskyldi hluti teknanna lækkar að sama skapi og persónufrádrátturinn hækkar.

Ég mun svo bíða með að bera fram víðtækari brtt., þangað til séð er, hvernig þessum till. verður tekið. En skal að lokum lýsa yfir því, að ég mun til vara greiða brtt. Alþfl. atkvæði mitt, Þó að ég telji þær næsta ófullnægjandi og ganga mikils til of skammt.