18.04.1941
Efri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Það er rétt hjá hv. 1. þm. N.-M., að ég gekk út frá því, að 12% viðaukinn yrði innheimtur á árinu. En það var vegna þess, að þetta var tilkynnt í sjálfu Lögbirtingablaðinu, að hann skyldi innheimta.

Nú heyri ég, að hæstv. ráðh. segir, að það muni ekki verða gert. Um þetta hefur sennilega verið rætt utan funda í n. og mér því verið ókunnugt um það.

Ég skal ekki harma það, þótt 12% viðaukinn

verði afnuminn, eins og hag bæjar- og sveitarfélaga er nú komið.

Í sambandi við skrifl. brtt. hv. 1. þm. N.-M. og hv. 5. landsk. viðvíkjandi mati á búfé má segja, að þeir hafi gert allverulegan afslátt á upphaflegu brtt. hv. 1. þm. N.-M. En ég er ekki sammála þeim um að þetta sé það eina, sem nú færist til í mati. Ég veit t. d. um ýmiss konar verðbréf og veðdeildarbréf, að þau hafa hækkað á skömmum tíma úr 75% upp í nafnverð og þar yfir.

Ég er ekki viss um, að allir bændur yrðu glaðir, þótt þessi brtt. næði fram að ganga, enda nefndi hv. fyrri flm. till., að hún væri varasöm, og matið gæti farið út úr eðlilegu samhengi, ef tíminn yrði eins langur og upphaflega var lagt til af honum.

Annars er mér alveg sama, hvernig atkv. falla um þessa brtt. á þskj. 225. Fyrri flm. sagðist sjálfur eiginlega vera á móti henni, en hefði sveigt til vegna áhrifa frá Reykjavíkurandanum, og harma ég það mjög, að hann skuli þannig hafa leiðzt út á lastanna braut.

Þá er það till. hv. þm. Hafnf., sem var tekin aftur við 2. umr. Hv. þm. talaði fyrir henni þá, og býst ég því ekki við, að hann tali fyrir henni nú. Ég er persónulega með þeirri brtt., en ég vil benda á, að n. ber hins vegar fram þá till. um þetta efni, sem samkomulag náðist um, sem þess vegna má telja öruggt, að verði samþ., og er hún á þá leið, að 1/3 í stað ¼ af nýbyggingarsjóði megi vera í bundnum pundum. Tel ég þar hafa nokkuð áunnizt. Þó að ég sé með till. hv. þm. Hafnf., vildi ég þó vera með í að flytja þessa till. til þess að fá þó þessa bót.

Fyrri brtt. n. er aðeins framkvæmdaratriði. Um það hefur verið talað, að nauðsynlegt væri að senda skattan. leiðbeiningar til þess að gera útreikning skattsins auðveldari, en það yrði óendanleg runa, ef ætti að taka upp töflu fyrir hverja einustu krónu. En það má gera hana meðfærilega með því að láta hlaupa á 50 kr. T. d. ef maður hefur 4376 kr. tekjur, þá er það 435, sem reiknað er um. Þetta munar svo ákaflega litlu á skatti, en er mjög mikið til hægðarauka.

Þá benti hv. 1. þm. N.-M. okkur á það í n., að óhægt gæti verið að reikna með meðalverðvísitölunni, því að hún yrði í langflestum tilfellum brot. Það er óþægilegt að verða alltaf að vinna með þessum brotum. Þess vegna tókum við upp þá brtt., að meðalvísitalan, sem reiknað yrði með, skyldi alltaf vera heil tala, þannig að minna en hálfum væri sleppt, en hálfur eða meira fyllt upp. Þessi till. er aðeins til að gera framkvæmdina auðveldari, og býst ég því ekki við, að hún. þurfi að valda ágreiningi.

Það voru ýmsar fleiri till., sem ég hafði í hyggju að bera fram, en ég álít ekki til neins að bera fram aðrar till. en þær, sem samkomulag gat fengizt um milli flokkanna, en það má athuga frv. betur, meðan það er á milli d., því að það þarf ekki að tefja það svo mikið, þó að einhverjar breyt. yrðu gerðar á því í Nd., sem samkomulag væri um og Ed. þyrfti svo aðeins að samþ. formlega.