29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Emil Jónsson:

Þar sem svo er orðið áliðið, skal ég ekki gera að umræðuefni það, sem helzt hefur verið rætt áður, því að hv. þm. Seyðf. hefur gert svo skýra grein fyrir skoðunum okkar Alþfl.-manna. En mig langaði með örfáum orðum að minnast á brtt. á þskj. 304 við brtt. n. á þskj. 291 við síðustu gr. frv. Inn í síðustu gr. höfðu í Ed. verið teknir 3 liðir, þrenn óskyld l., fyrst það, sem leiddi af eðli frv. og allir eru sammála um, að með l. skyldi nema úr gildi skattfrelsi útgerðarinnar. Þegar frá er skilin skoðun hv. þm. A.-Húnv., eru langflestir sammála um, að það er sjálfsagt og rétt.

En þá eru enn önnur tvenn l., sem með þessari gr. eru numin úr gildi. Önnur um skattgreiðslur íslenzkra iðnfyrirtækja eða öllu heldur skattfrelsi þeirra, og hin um tekjuöflun Hafnarfjarðar kaupstaðar, sem afgreidd var með sérstökum l. hér á síðastl. ári.

Fjhn. hefur nú orðið ásátt um, að þessi síðustu l. verði látin gilda áfram, og er það þess vegna aðeins annar liðurinn, eða skattfrelsi iðnfyrirtækja, sem mig langar til þess að minnast á með aðeins örfáum orðum, og hef ég leyft mér að koma með brtt. við þau.

Þessi l. voru sett fyrir 6 árum og eru í eðli sínu eiginlega ekki skattalög, heldur þvert á móti verðlaunaveiting til þeirra, sem brjóta sér nýjar brautir í iðnaðinum og stofna til fyrirtækja, sem ekki hafa þekkzt hér á landi áður.

Þessum fyrirtækjum hafa verið veitt þau hlunnindi, að þau hafa verið skattfrjáls í 3 ár eftir stofnun þeirra.

Ég þori að fullyrða, að þessi ákvæði hafa orðið til þess, að fram hafa komið og stofnuð verið þau fyrirtæki, sem annars hefðu tæplega verið stofnuð.

Sum þessara fyrirtækja hafa á þessum 3 ár um, sem þau hafa verið skattfrjáls, komizt yfir byrjunarörðugleikana og komið undir sig fjárhagsfótum til þess að mæta örðugleikunum síðar.

Á þessum 6 árum, sem liðin eru síðan þessi l. voru sett, hafa þessi hlunnindi verið veitt samtals 26 fyrirtækjum. Þar af eru um það bil helmingur, eða sennilega öllu fleiri, komin undan þessum hlunnindum og nú farin að greiða skatt, og sum þeirra orðin öflugur skattgreiðandi. í ríkissjóð.

Þessi hlunnindi hafa verið veitt venjulega 4, 5 eða 6 á ári, flest 6 og fæst 2, svo að ríkisstj. getur í sjálfu sér ekki munað það verulega, hvort þessum hlunnindum verður haldið áfram eða ekki.

Ég vildi þess vegna mega vænta þess, að þessi hlunnindi fengju að vera áfram eins og þau hafa verið og verði ekki blandað inn í þessi skattamál, því að þau eiga þar ekki heima, þar sem þau eru í raun og veru allt annað atriði, nefnilega verðlaunaveiting til þeirra, sem brjóta sér nýjar brautir í iðnaðinum.

Ég vildi enn fremur vara menn við þeirri aðferð, sem þarna kemur fram, að taka óskyld mál saman í eitt, því að þetta er eiginlega ekki samtengt því frv., sem hér liggur fyrir.

Ef menn vilja afnema þetta, má gera það með sérstökum l., og tel ég rétt, að slíkt yrði borið fram á þinglegan hátt í sérstöku frv., en ekki sett hér saman . við.

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri, því að út í önnur atriði málsins þarf ég ekki að fara, þar sem aðrir hafa vikið að þeim.