29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sveinbjörn Högnason:

Ég verð að segja hv. þm. Seyðf. það til maklegs lofs, að hann hefur jafnvel tekið umvöndununum betur en ég bjóst við af honum, er ég flutti ræðu mína um þetta efni, því að nú viðurkennir hann, að hann hafi ofmælt, og er gleðilegt að svo skuli vera, því að í báðum tilfellunum viðurkennir hann, að svo sé.

Hann sagði, að ég hefði sagt, að það, hvað dýrt væri að lifa, byggðist á því, hvaða kröfur menn gerðu til lífsins. Það er rétt, það byggist á því, en áður sagði hann, að þetta byggðist einungis á því, og þó að þetta sé ekki fyllileg viðurkenning á því, sem hann hefur ofmælt, þá er það þó í áttina, og maður verður að viðurkenna hvað lítið sem er í þessu efni. Í þessu tilfelli hefur hann upp orð, sem hafa átt að vera eftir mér, en viðurkennir, að þau séu ekki rétt. Það er sjálfsagt að viðurkenna þetta og meta það, því að það er þó alltaf í áttina til þess að reyna að gera sér grein fyrir málinu, ekki einungis frá sínu eigin sjónarmiði, heldur líka frá því sjónarmiði, sem ég hef haldið fram.

Annars var ekkert í þessu, sem hann talaði um, nema þessi ágreiningur um persónufrádráttinn. Hann sagði nú, að það væri alveg sama, hvort menn hefðu hjálp við hússtörf í kaupstöðum, því að það væru líka embættismenn upp til sveita, sem ekki væru framleiðendur, en þeir fengju sér sömuleiðis hjálp, ef þeir gætu veitt sér það. Það mun vera rétt, en þessir embættismenn mega ekki draga frá skattskyldum tekjum þau laun, sem þeir greiða fyrir húshjálp, svo ég sé ekki, að þetta raski neitt því, sem ég hélt fram.

Hv. þm. viðurkenndi einnig, að það væri rétt hjá mér, að kaupgjaldið vær í mismunandi hátt eftir því, um hvaða staði væri að ræða. Það er einnig mjög mismunandi, hvernig verkafólk lifir í hinum ýmsu stöðum á landinu og hvaða kröfur það gerir til lífsins. Sé ég því ekki, að það sé nein þörf á því, þar sem mismunurinn er svo mikill á kaupgreiðslum, að gera þennan mismun enn meiri með því að níðast á þeim, sem lægst hafa launin.