03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sveinbjörn Högnason:

Við 2. umr. þessa máls flutti meiri hl. fjhn. þá brtt. við þetta frv., 3. gr., að sami persónufrádráttur skyldi vera um allt land. Þetta var fellt með tveggja atkv. meiri hl., og mun stafa af því, að ýmsir þm. sveitakjördæma og aðrir þm. vinveittir sveitunum voru fjarverandi. Tel ég því, að niðurstaða þeirrar atkvgr. sé næsta óglögg mynd af afstöðu hv. dm. til þessa atriðis. Um ýmsa var það og vitanlegt, að þeir töldu alla sanngirni mæla með því, að sami persónufrádráttur væri fyrir allt landið, en hins vegar álitu þeir rétt að sýna nokkurri sveigjanleik í þessu máli vegna hinnar miklu andstöðu, sem vart varð af hálfu kaupstaðaþingmannanna, og vildu því fara þá leið að gera mismuninn sem minnstan, úr því óréttlætið fékkst ekki afnumið með öllu.

Hins ber vitanlega að krefjast, að eitt gangi yfir alla þegna þjóðfélagsins og því óréttlæti, sem ríkt hefur undanfar in ár, verði útrýmt. En þetta óréttlæti er tvíþætt, því að með þessu er höggvið í sama knérunn og gert er í launal., þar sem þeir fá lægst launin, er í dreifbýlinu búa, og annað kaupgjald er þar eftir því. –Dæmi eru til þess, að 9 króna mismunur er á dagkaupi vegavinnumanna í sömu gryfjunni, eftir því úr hvaða byggðarlagi þeir eru. Hér á að halda áfram með sama óréttlætið. Þá má og nefna framleiðendur á bæjarlandi Reykjavíkur og þá, sem búa svo nærri Reykjavíkurmarkaðinum, að þeir sleppa bæði við ýmsan tilkostnað, sem aðrir þurfa að greiða, og fá auk þess miklu hærra verð fyrir vöru sína. Samkv. þessari samþykkt hv. d. á enn að verðlauna þá með hærri persónufrádrætti en aðra landsmenn.

Þannig myndast tvöföld skrúfa, sem sogar fólkið úr dreifbýlinu í þéttbýlið. Fyrst lægri laun og lægri persónufrádráttur í sveitum, og á hinn bóginn hærri laun og hærri frádráttur í Reykjavík. Enda er því ekki að leyna, hver árangurinn er orðinn af þessari stefnu. Það er stöðugur fólksstraumur til kaupstaðanna. Þar eru gerðar hærri kröfur um lífsþægindi. Af því leiðir hærra kaupgjald. Af því stafar svo aukin dýrtíð. En til þess að mæta henni þarf svo enn hærra kaup, og svo einnig til að mæta því atvinnuleysi, sem af þessum fólksflutningum stafar. Þessi þróun er stórháskaleg, og við henni þarf að stemma stigu.

Við flm. þessarar till. teljum það ekki aðeins nauðsynlegt vegna dreifbýlisins að jafna þetta, heldur einnig, og ekki síður, vegna þéttbýlisins, svo unnt sé að sporna þar á móti hinni óeðlilegu fólksfjölgun í lengstu lög. En ef þessu verður haldið áfram þangað til stríðinu lýkur, að fólkið safnist úr sveitunum í þéttbýlið, þá verður hrunið því meira og erfiðleikarnir því geysilegri.

Sami meiri hl. fjhn. flytur nú till. um þetta efni á þskj. 342. Þessi brtt. okkar miðar að því að gera mismuninn minni. Það er gott að reyna að jafna þetta eitthvað, þótt ekki fáist fullt réttlæti í þetta sinn. Það eru, eins og ég vék að, þeir hv. þm. A.-Sk. (JÍv) og hv. 3. landsk. þm. (StSt), sem flytja þessa brtt. ásamt mér.

Við höfum orðið að ganga nokkuð til móts við þá, sem vilja halda misréttinum áfram, og leggjum því nú til, að 100 kr. mismunur sé á frádrætti fyrir börn, en hins vegar sé hann hinn sami alls staðar fyrir fullorðna.

Þetta mál var svo ýtarlega rætt við 2. umr. hér í d., enda þótt fáir væru þá viðstaddir, að ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum og læt því þessa greinargerð nægja að svo stöddu.