06.03.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög

Haraldur Guðmundsson:

Það hefði verið freistandi við þessa umr. að gera nokkurn samanburð á frv. og grg. hæstv. fjármálaráðherra og staðhæfingum flokksmanna hans um fjármálastjórn undanfarinna ára. En hæstv. viðskiptamálaráðherra hefur tekið þetta til svo rækilegrar athugunar, að ég þarf ekki miklu við að bæta. Þó vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp lítinn kafla úr fjárlagaræðu sama ráðherra, þeirri, er hann hélt á síðasta þingi. Þar segir meðal annars svo :

„Mér þykir það nú allmikilli furðu gegna, ef nokkrum hv. þm. getur komið það til hugar, að ég hefði ekki helzt kosið að geta gert till. um verulegar lækkanir á beinum rekstrarkostnaði ríkisins.“

Síðan gerir ráðherrann grein fyrir, hvers vegna hann beri eigi fram slíka till., og á hvaða liðum hækkun undanfarinna ára hafi verið :

„Vaxtagreiðslur og afborganir hafa hækkað um 1700 þús., dómgæzla og lögreglustjórn um 1150 þús., samgöngumál um 1442 þús., kennslumál um 936 þús., verklegar framkvæmdir um

2550 þús., styrktarstarfsemi um 580 þús. Dómgæzlu og lögreglustjórn væri hægt að lækka með því t. d. að fella niður tollgæzluna, sem mjög hefur vaxið síðustu árin. En verður það talið fært, eins og tekjuöflun ríkissjóðs er nú háttað? Eða að minnka löggæzluna? Eða vill hv. Alþingi stíga svo stórt skref til baka í kennslumálunum, að verulegur sparnaður verði að? Eða vill það fella niður alþýðutryggingarnar, sem aðallega valda gjaldaaukningunni til styrktarstarfseminnar? Ég er reiðubúinn til þess að ræða þessar leiðir við hv. fjárveitinganefnd, en ég geri mér, satt að segja, litlar vonir um, að samkomulag geti náðst um þær.

Þá eru eftir tveir útgjaldaflokkar, því að væntanlega dettur engum í hug að skera niður vaxta- og afborganagreiðslur, því að hjá því verður ekki komizt að inna þær af hendi, nema þá með þeim hætti að taka ný lán til að standast þær, og það get ég ekki séð, að fært muni vera, eins og nú er komið. Og ég hef ekki getað séð möguleika til útgjaldalækkunar í svipinn, sem nokkuð munaði um, aðra en þá að lækka enn framlög til samgöngumála og verklegra framkvæmda.“

Þetta er nú niðurstaðan, sem hæstv. fjármálaráðherra þá hefur komizt að, eftir að hafa gegnt embætti sínu um hríð. Og þessa sömu niðurstöðu staðfestir frv. hans nú. En þar með hefur hann afsannað öll fyrri gífuryrði flokksmanna sinna og flokksbræðra, sem fullyrtu, að auðvelt væri að skera niður milljónaútgjöld úr fjárlögum fyrri ára, án þess að valda erfiðleikum eða óþægindum öðrum en bitlingamönnum og beinasníkjum. Nú er ekki hægt að skera niður annað en verklegar framkvæmdir. Ég segi þetta ekki hæstv. ráðherra til lasts, heldur lofs, því að af þessu er auðséð, að hann metur meira staðreyndir en órökstudd vígorð. Ég hef farið yfir fjárlagafrumvarp þetta eins og fjárlagafrumvarp síðasta árs, og ég hef hvergi getað fundið milljónasparnaðinn þar, fremur en hæstv. ráðh. hefur lánazt að finna óþarfa milljónaeyðslur undanfarinna ára. Þetta fjárlagafrumvarp er yfirleitt með svipuðu sniði og fyrri frv. til fjárl. Munurinn er aðeins sá, að það er hærra, langtum hærra en nokkurt fjárlfrv. hefur áður verið. Og þó er fullvíst, að frv. hlýtur að hækka mjög verulega í meðförum þingsins, og alveg bersýnilegt, að margir liðir eru þar of lágt áætlaðir, þótt eingöngu sé miðað við þá dýrtíð, sem þegar er fram komin. Er ég með þessu engan veginn að ámæla hæstv. ráðherra. Ég viðurkenni fyllilega, að það er eðlilegt og óhjákvæmilegt, að fjárl. þurfi að hækka stórlega, eins og nú er ástatt, til þess að standa straum af þeim greiðslum, sem halda þarf uppi, því að kostnaðurinn hefur ekki minnkað á nokkurn hátt, en dýrtíðin aftur stóraukizt. Hins er þó ekki að dyljast, að ráðh. hefur talið sig þurfa að hækka marga liði alveg án tillits til dýrtíðarinnar.

Ég mun þá víkja nokkrum orðum að einstökum atriðum frv., aðeins mjög stuttlega, því að Alþýðuflokkurinn mun að venju sýna afstöðu sýna til frv. og einstakra liða þess með brtt. og við atkvgr.

Ég hafði búizt við því, með tilliti til bættrar afkomu ríkissjóðs og líka vegna ummæla hæstv. atvmrh. í útvarpserindi nú eftir áramótin, að framlög til nauðsynlegra verklegra framkvæmda, svo sem vega, hafna og lendingarbóta, yrðu hækkuð verulega, ekki sízt þegar þess er gætt, að hæstv. fjármálaráðherra tekur upp í frv. heimild til að lækka ólögbundin útgjöld ríkissjóðs um 35%. Enginn veit, hvernig atvinnuástæður verða árið 1942, og því væri mikil óforsjálni að gera ráð fyrir, að allir hafi þá nóg að starfa án opinberra aðgerða. Ef svo færi, að ekki yrði þörf framkvæmdanna til atvinnuaukningar, væri hægurinn hjá að geyma féð þar til síðar, er til þess þyrfti að taka. Sama máli gegnir, ef takmarka yrði t. d. framkvæmdir til hafnargerða o. þ. h. vegna skorts á erlendu efni.

Mér voru það því vonbrigði, að framlög til þessara mála hafa svo að segja ekki hækkað frá því, sem var á fjárl. þessa árs. Vegafé er að vísu hækkað um hér um bil 300 þús. kr., eða. um 15%, en framlög til hafnargerða o. þ. h. er lækkað um nærfellt 150 þús. kr. Þegar þess er gætt, að kaupgjald hækkar í samræmi við dýrtíðina, sem nú mun vera orðin 148 stig, verður ljóst, að hér er verið að draga mjög úr þessum nauðsynlegu framkvæmdum. Ég vil vona, að Alþingi geri hér lagfæringu á og að tilgangur hæstv. ráðherra með því að taka ekki upp í frv. hærri fjárhæðir í þessu skyni hafi verið sá að láta Alþingi kveða á um upphæð fjárins og skiptingu þess, en ekki hinn, að skera þessar framkvæmdir niður.

Þá er tillag til byggingarsjóða verkamanna í kaupstöðum og kauptúnum áætlað aðeins 120 þús. kr. og ekki gert ráð fyrir, að neitt af ágóða tóbakseinkasölunnar renni til þeirra. Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðherra sé fús til að bæta hér um. Þörfin er svo augljós og aðkallandi, að um hana þarf ekki að fjölyrða. Húsnæðiseklan er orðin svo mikil og þröngbýlið, bæði hér í Reykjavík og fleiri kaupstöðum, að bein hætta er af. Og fjöldi íbúða, sem notazt er við, getur varla talizt til þess hæfar. Með hverju ári, sem líður án þess, að nokkuð sé byggt að ráði, versnar ástandið. Hæstv. ráðherra sagði á síðasta þingi, að þá áraði ekki til að safna í sjóði. Nú hefur árað vel fjárhagslega. Ef svo skyldi fara, að ekki yrði hægt að ráðast í verulegar byggingar vegna efnisskorts, á einmitt að nota tímann til að safna í sjóði til slíkra framkvæmda, því að vandséð er, hve lánsfé verður auðfengið, þegar aðflutningur verður greiðari aftur.

Hæstv. ráðherra sagði, að tillag til alþýðutrygginga hefði hækkað mikið. Þetta er rétt. En ég vil leyfa mér að benda á, að þetta tillag er þó enn áreiðanlega áætlað verulegri upphæð lægra en telja má fullvíst, að það verði, jafnvel þótt dýrtíð aukist lítið eða ekkert frá því, sem nú er. Útgjöld trygginganna til ellilauna, örorkubóta og sjúkrahjálpar hljóta að hækka með vaxandi dýrtíð og hluti ríkissjóðs af þessum kostnaði að aukast að sama skapi. Ég hygg, að hæstv. ráðherra muni vera mér sammála um þetta. Mér er ánægja að viðurkenna, að hann hefur jafnan sýnt skilning á nauðsyn og gildi trygginganna.

Ég sé, að hæstv. ráðherra gerir í frv. ráð fyrir, að verðlagsuppbótin hækki upp í 1200 þús. kr. Í því sambandi vil ég leyfa mér að spyrja, hvort ekki megi vænta bráðlega frá honum eða hæstv. ríkisstjórn frv. um breytingu á þeim ákvæðum, sem nú gilda um verðlagsuppbót til opinberra starfsmanna, þannig að hún verði framvegis ákveðin í samræmi við dýrtíð á hverjum tíma, upp að ákveðnu launamarki, en miðist ekki aðeins við hluta af dýrtíðinni, eins og nú er. Verkamenn hafa yfirleitt fengið fulla dýrtíðaruppbót með samningum, auk nokkurrar hækkunar á grunnkaupi viðast hvar. Starfsmenn bankanna hafa einnig samkvæmt ákvörðun bankaráða fengið fulla uppbót, svo og starfsmenn Reykjavíkurbæjar. Ég verð að telja sjálfsagt, að hið sama verði látið gilda um starfsmenn ríkisins. — Hér er um að ræða þúsundir manna, sem eiga yfirleitt við lág laun að búa og hafa orðið mjög hart úti síðastl. ár.

Höfuðgalli frv. í mínum augum er þó sá, að þar er enga viðleitni að finna til þess að búast undir að mæta breytingum frá því ástandi, sem við eigum nú við að búa. Enginn veit, hvaða atburði kann að bera oss að höndum. En ekkert vit er í því að gera ráð fyrir sama fjárhagslega góðæri framvegis. Vér verðum að nota gróðann, sem fenginn er, til þess að vera sem bezt búnir við hverju einu.

Ef styrjöldin stendur lengi enn, má telja víst, að erfiðleikar á flutningum og siglingum fari vaxandi og torvelt verði að fá til landsins nauðsynlegar vörur. Er ekki sjálfsagt að nota eitthvað af þeim peningum, sem streyma nú inn í landið, til þess að gera okkur betur sjálfbjarga en við erum nú? Nokkur athugun hefur verið gerð á möguleikum til sementsvinnslu hér á landi og kostnaðarhlið þess máls. Sama er að segja um verksmiðju til að búa til áburð. En einmitt áburður og byggingarefni eru okkur lífsnauðsyn. Flutningsgjöld eru nú gífurlega há og munu verða svo árum saman að stríðinu loknu. Er ekki sjálfsagt að gera nú þegar gangskör að því að ljúka nauðsynlegum undirbúningi og jafnvel reyna að koma þessum fyrirtækjum upp, ef þess er nokkur kostur? Er líklegt, að peningarnir séu betur komnir annars staðar? Og sé þess ekki kostur að fá efni til þessara fyrirtækja, meðan á stríðinu stendur, á þá ekki samt að ganga frá undirbúningi og tryggja sér fé? Margt fleira mætti nefna, svo sem þurrmjólkurgerð, vinnslu ostefnis úr mjólk, herzlustöð fyrir síldarlýsi, rannsókn byggingarefna, skipasmíðar, að ógleymdri ræktun, sérstaklega við kaupstaði og kauptún. Slík fyrirtæki væru okkur ómetanleg björg, ef siglingar tepptust. Þegar stríðinu lýkur og Bretar fara héðan, sem við vonum að verði sem fyrst, þá má búast við verðhruni og atvinnuvandræðum. Væru þá þessi fyrirtæki komin upp, eða svo vel undirbúin, að tafarlaust mætti byrja á því að reisa þau, þá mundi það bæta verulega úr atvinnuleysinu.

Mér er það vel ljóst, að þess er ekki að vænta, að hæstv. ríkisstjórn geti komið öllu þessu fram í skjótri svipan og að litlar líkur eru til, að samkomulag geti tekizt um það, að ríkissjóður stofni, eigi og reki öll þessi fyrirtæki. En ég hygg ólíklegt, að þessu verði komið fram, nema með atbeina ríkisstj. og nokkru framlagi hins opinbera. Og hvernig hyggst hæstv. ríkisstjórn að mæta því ástandi, sem blasir við jafnskjótt og Bretavinnan fellur niður? Eða ef siglingar til Englands teppast? Eða því verðhruni, sem víst er, að kemur að stríðinu loknu, og afleiðingum þess?

Mér er líka ljóst, að til þessa alls þarf mikið fé, ekki einasta mikla skatta í ríkissjóðinn, heldur þarf líka að beina fé einstaklinga til þeirra framkvæmda og fyrirtækja, sem þjóðinni fer mest nauðsyn á. En nú stendur einmitt svo á. að við erum ríkari af peningum en nokkru sinni áður. Það, hversu happadrjúgir þessir peningar verða okkur, fer eftir því, hversu vel okkur tekst að breyta þeim í varanleg verðmæti.

Samkvæmt yfirliti hagstofunnar höfum við síðastliðið ár flutt út vörur fyrir hér um bil 60 millj. kr. meira en andvirði allrar innfluttrar vöru. En við það bætist, að brezka setuliðið hefur greitt hér geysimiklar fjárhæðir á okkar mælikvarða, sennilega svo tugum millj. skiptir, síðastl. ár. Enda mun nú svo komið, að innistæður í Englandi nema um 80 millj. kr., eða meira en tvöfaldri þeirri upphæð, sem ríki og bankar skulda þar. Samkvæmt yfirliti um ísfiskssöluna í Englandi hafa togararnir, 35 að tölu, selt þar ísfisk fyrir hér um bil 63 millj. kr., eða sem svarar 1 millj. og 800 þús. kr. hver. Auk þess hafa línuveiðiskip og vélbátar, 41 að tölu, selt þar ísfisk fyrir 21 millj. kr., eða hálfa millj. hver. Mig brestur skilríki til að segja með nokkurri vissu, hve mikið af þessum geipifjárhæðum er hreinn gróði. Margir, sem þessum málum eru kunnugir, ætla, að allt að helmingur þessara upphæða sé hreinn hagnaður, eða 40 millj. kr. Jafnvel þótt þessi ályktun kynni að vera rífleg, er það víst, að gróðinn er gífurlegur. Og allt þetta fé hafa íslenzkir bankar keypt af útgerðarmönnum fyrir 26.22 kr. sterlingspundið. Hér er um að ræða hreinan happafeng, ef svo mætti segja um stríðsgróða. Enginn getur haldið því fram, að þessi gróði sé til orðinn fyrst og fremst fyrir sérstaka atorku eða fyrirhyggju skipaeigenda. Það er því sjálfsagt og réttmætt, að ríflegur hluti þessa gróða renni til þjóðfélagsins, eins og hitt er réttmætt, að nægilegt sé skilið eftir til þess að fjárhagur útgerðarfyrirtækjanna geti talizt á öruggum grundvelli.

Ég hef veitt því athygli, að hæstv. fjmrh. hefur ekkert látið uppi um það, að hann muni nota heimild laga um bráðabirgðatekjuöflun fyrir ríkissjóð og fleira til að innheimta á þessu ári tekjuskatt samkvæmt skattstiga þeirra laga, né hitt, hvort hann muni nota heimildina til að innheimta skattinn með 12% viðauka. Hins vegar hefur hæstv. ráðherra lagt fram sérstakt frv. um benzínskatt, sem að efni er samhljóða ákvæðum í þessum sömu lögum, og virðist mér það benda til þess, að hann hugsi sér ekki að fara fram á framlengingu laganna.

Skattfrelsislögin eru enn í gildi, og þótt liðnar séu þrjár vikur, síðan Alþingi kom saman, hefur hæstv. ráðherra enga tillögu lagt fram um afnám þeirra, enda er tekju- og eignarskattur í fjárlfrv. áætlaður aðeins þrjár millj. króna.

Aðalefni skattfrelsislaganna er þetta :

1. Útgerðarfyrirtæki (félög) fá skattfrjáls 90% af því fé, sem þau leggja í varasjóð.

2. Heimilt er að fella niður útsvar á togarafyrirtækjum, en sé lagt á þau útsvar, má það ekki vera hærra en það var 1938, en þá greiddu togarafyrirtækin samtals aðeins 40–50 þús. kr. í útsvar hér í Reykjavík.

3. Tap, sem útgerðarfyrirtæki hafa orðið fyrir síðan 1931, má draga frá við ákvörðun skattskyldra tekna.

Þegar þessi lög voru sett, átti útgerðin, togaraútgerðin sérstaklega og raunar yfirleitt, við mikla fjárhagserfiðleika að stríða, þó að nokkur fyrirtæki hefðu stöðugt komizt sæmilega af. En yfirleitt hafði orðið mikið tap á rekstrinum vegna aflabrests, verðlækkunar og markaðsörðugleika. Lögin voru því eðlileg, þegar þau voru sett, og tilgangur þeirra sá einn að gera þessum fyrirtækjum kleift að komast á réttan kjöl. En nú er ástandið gerbreytt orðið. Öll togarafyrirtækin, eða því sem næst, hafa greitt að fullu skuldir sínar og flest safnað gildum sjóðum að auki. Þær forsendur, sem lögin voru reist á, eru burtu fallnar. Það, sem telja mátti réttmætt og eðlilegt, þegar lögin voru sett, yrði hróplegt misrétti og ranglæti nú. Allur almenningur ber þungar byrðar tolla og skatta. Beinir skattar á láglaunafólki og fólki með miðlungstekjur hafa verið auknir einmitt vegna skattfrelsisins. Segjum, að þetta hafi verið óhjákvæmilegt á sínum tíma. En nú er ekki um það að ræða. Hvaða vit er í því að hafa einmitt stríðsgróðann skattfrjálsan, en hvern smápening almennings skattaðan og tollaðan? Svo búið má ekki lengur standa. „Hver maður sinn skammt“. Þjóðstjórnin lýsti yfir því, að allir ættu jafnt að taka á sig byrðar erfiðleikanna, hver eftir sinni getu. Skömmtun hefur verið upp tekin á ýmsum helztu nauðsynjum, að vísu svo rífleg, að fyrir flesta hina efnalitlu hefur verið erfiðast að borga skammtinn, en fyrir hina efnaðri að torga honum! En sleppum gamni. ,Ég vil ekki trúa því, að ætlun hæstv. ríkisstjórnar hafi verið sú, að þessi regla ætti aðeins að gilda, þegar hart er í ári, og. aðeins fyrir þá, sem erfiðast eiga. Ég ætla, að hún eigi að gilda jafnt, þó að vel ár í fyrir einstaka menn og stéttir. Þeir, sem mest græða, eiga að taka á sig mest af byrðunum.

Ég vil vona, að það sé ekki ætlun hæstv. fjmrh., að togaraútgerðin eigi að geta komizt hjá því að greiða skatt með því að leggja fram upphæð, sem svarar einni góðri sölu í Englandi, til sjómannaskóla. Hæstv. ríkisstjórn ætti ekki að verða nein skotaskuld úr því að reisa skólann, ef ríkissjóður fær réttmætan skatt.

Má vera, að hæstv. ráðh. segi, að því hafi hann ekki flutt mál þetta, að milliþn. hafi nú skattalöggjöfina til athugunar. Mér er kunnugt um, að bæði fulltrúar Alþfl. og Framsfl. hafa þegar fyrir nokkru lagt þar fram ákveðnar tillögur, en ég veit ekki til, að fulltrúi Sjálfstfl. hafi gert það enn þá, og er þó vissulega tími til kominn, þar sem liðnar eru nær þrjár vikur af þingtímanum.

Meginatriði í tillögum alþýðuflokksfulltrúans í nefndinni eru þessi :

1. að skattfrelsislögin verði afnumin,

2. að ákveðinn hluti þess, sem lagt er í varasjóð, verði skattfrjáls,

3. að það fé, sem lagt er í nýbyggingarsjóð til þess að endurnýja skipastólinn, fiskiflotann, njóti sérstakra ívilnana frá skatti, enda sé tryggt, að fénu verði eingöngu varið til þessa.

4. að á skattskyldar tekjur, sem fara fram úr ákveðnu hámarki og ekki eru lagðar í nýbyggingarsjóðinn, sé lagður stighækkandi stríðsgróðaskattur, til viðbótar hinum almenna skattstiga, og skiptist skatturinn milli ríkissjóðs og hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfélags. Útsvör og skattar fari þó aldrei yfir 94% af tekjunum.

5. að skattar á láglaunafólki og fólki með miðlungstekjur verði lækkaðir nokkuð, persónufrádráttur hækkaður og tillit tekið til rýrnunar á verðgildi peninga til lífsþarfa við ákvörðun skattsins.

Ég mun að sjálfsögðu ekki ræða þessar tillögur nú, vildi aðeins láta það koma fram, að drátturinn á því, að málið komi til Alþingis, stafar ekki af því, að Alþfl. hafi ekki tillögur sínar tilbúnar . En í framhaldi af því, sem ég sagði áður um nauðsyn þess að nota gróðann til að tryggja undirstöðu atvinnulífsins, vil ég aðeins benda á, að hvergi er þessi nauðsyn meira aðkallandi en á sviði sjávarútvegsins. Það er alkunna, að flest hinna stærri skipa, togarar og línuveiðiskip, eru gömul, dýr í rekstri og viðhaldi, jafnvel hættuleg, og hljóta að verða algerlega ónothæf innan skamms tíma. Einmitt þess vegna er það blátt áfram lífsnauðsyn, að ráðstafanir séu gerðar nú þegar til þess að tryggja það, að unnt verði að afla nýrra veiðiskipa í þeirra stað sem allra fyrst. Auk þess er þegar höggvið stórt skarð í flotann. Einn togari fórst í haust. Annar er nú talinn af. Bátar og smærri skip týna og tölunni, og er skemmst að minnast tjónsins af ofviðrinu nú fyrir nokkrum dögum. Þessi skörð þarf að fylla og auka við.

Auk þess er hætt við, ef gróðaféð er ekki sett fast til slíkra framkvæmda, að það beinist í aðrar áttir. Vextir bankanna freista ekki. Nú þegar er farið að bera á því, að keypt séu upp hús, lóðir, jarðir o. s. frv. Verður þetta til að ýta undir alls kyns spákaupmennsku og auka á verðbólguna, sem einmitt ríður á að halda í skefjum.

Kem ég þá að annarri hlið á sama máli. Segja má, að gróðinn sé bjarta hliðin, og er sjálfsagt að meta hann að verðleikum. En ástandið hefur líka sínar dökku hliðar, þó að eingöngu sé á það litið frá sjónarmiði fjárhags- og efnalegrar afkomu. Dýrtíðin hefur aukizt hröðum skrefum, og ekki verður annað séð en hún haldi áfram að aukast, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir það. Af vaxandi dýrtíð leiðir hækkandi framleiðslukostnað og vöruverð innanlands, sem eykur aftur dýrtíðina, og svo koll af kolli. Er ljóst, að slíkt kapphlaup getur ekki endað nema á einn veg: að framleiðslukostnaðurinn verði meiri en svo, að söluverð afurðanna erlendis nægi til að greiða hann, því að engin skynsemi er í því að ætla, að það haldi stöðugt áfram að hækka. Einhvern tíma stöðvast sú hækkun, að stríðinu loknu, ef ekki fyrr.

Síðasta stríð færði okkur glögglega heim sanninn í þessu efni. Fyrsta stríðsárið, 1915, var þá sem nú mesta velti- og gróðaár. Útflutningurinn tvöfaldaðist að verðmæti og komst upp í 40 millj. kr. Verzlunarjöfnuðurinn var hagstæður um 15 millj. kr. Sparisjóðirnir fylltust af peningum eins og nú. — Dýrtíðin jókst, hægar í fyrstu en verðhækkun útflutningsvara, matvöruvísitalan hækkaði um 30 stig fyrstu 12 mánuði stríðsins. Annað stríðsárið, 1916, var sæmilegt ár. En svo snerist allt víð. Dýrtíðin magnaðist. Framleiðslukostnaðurinn hélt áfram að aukast, og meira en útflutningsvísitalan. Var þó hvorki um að kenna sköttum né kauphækkun, því að hún náði ekki dýrtíðinni fyrr en löngu eftir stríð. Samt var framfærsluvísitalan komin upp í 340 árið 1918, en útflutningsvísitalan nam þá aðeins 240, hvort tveggja miðað við 100 árið 1914. Enda var þá stríðsgróðinn fljótur að hverfa.

Nú er svo að sjá sem við séum á sömu leið. Þróunin er aðeins miklu örari. Matvöruvísitalan hækkaði fyrstu 12 mánuði þessa stríðs um 53 stig, eða nærfellt helmingi meira en á sama tíma í síðasta stríði. Nú má telja fullvíst, að heildarhækkun verðlagsins sé orðin 50%, og hefur þó húsaleigan ekkert hækkað og nokkrir aðrir liðir lítið.

Samkvæmt útreikningi hagstofunnar var matvöruvísitalan í janúar komin upp í 168 stig. Innlendar matvörur höfðu hækkað úr 100 í 172, en erlendar úr 100 í 158.

Matvöruhækkun er því stórum meiri en verðlagshækkun yfirleitt, og sérstaklega er það athyglisvert, að verðhækkun innlendra matvara er orðin miklum mun meiri en erlendra. Þetta er þeim mun athyglisverðara, þegar þess er gætt, að um 3/4 af því fé, sem Reykvíkingar nota til matarkaupa, gengur til kaupa á innlendum vörum, en aðeins 1/4 fyrir útlendar.

Samkv. nóvembervísitölu nam þá verðhækkun á árskaupum af innl. matvörum 754 kr. og á erlendum 208 kr. fyrir meðalfjölskyldu í Reykjavík, miðað við verðlag í jan.-marz 1939. Og síðan hefur verið enn hækkað og heldur áfram að hækka.

Það er alveg ljóst, að í fullkomið óefni er stefnt, ef svo heldur áfram. Að því er erlendu vörurnar snertir tel ég líklegustu leiðina til að hafa hemil á verðhækkuninni, að ríkið tæki að sér innkaup á nauðsynlegustu vörunum og að tollar á þeim séu afnumdir með öllu. Að því frágengnu — sé ég ekki aðra leið en strangt verðlagseftirlit, er einnig taki til farmgjalda.

Í þessu sambandi vildi ég spyr ja hæstv. ráðherra, hvort hann hyggst enn að halda áfram að innheimta verðtoll af farmgjöldum.

Að því er innlendu vörurnar snertir, virðist mér þurfa að taka regluna um verðlagsákvörðun þeirra til gaumgæfilegrar endurskoðunar, og láta þær ná til fleiri vörutegunda en nú er. En það skal játað, að litlar líkur virðast til þess, að sú leið sé einhlít, því að það liggur í augum uppi, að framleiðendur þeirra þurfa auðvitað að fá fyrir þær hærra verð, þegar framleiðslukostnaðurinn eykst. Alþýðuflokkurinn hefur stungið upp á því, að tekið sé sérstakt gjald af þeim vörum, sem seldar eru til útlanda með mestum hagnaði, og það fé, sem þannig fæst, notað til að lækka og halda niðri útsöluverði á þeim íslenzkum vörum, sem þýðingarmestar eru í neyzlu almennings.

Að minni hyggju verða aðalviðfangsefni þessa þings í innanlandsmálum skattamálin og ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Undir því, hvernig þau verða leyst, er það að miklu leyti komið, að hverju gagni sá mikli gróði, sem stríðið hefur fært og enn færir þjóðinni, verður.

Ég gerði mér vonir um, að hæstv. ríkisstjórn mundi þegar í þingbyrjun leggja fram ákveðnar tillögur í þessum málum, en ekkert bólar á þeim enn þá. Og í fjárl.frv. og ræðu hæstv. fjármálaráðherra verður ekki séð, að hann geri ráð fyrir nokkrum sérstökum aðgerðum í þessum efnum. Þetta má ekki svo til ganga. Hver vikan, sem líður án þess að eitthvað sé aðhafzt, getur orðið dýr. Ég vil í lengstu lög vænta þess, að hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkar hennar geti orðið sammála um skjóta og heppilega lausn á þessum málum.

Það er engu minni vandi að gæta fengins fjár en að afla þess.

Það þótti lítill búhnykkur, þegar mögru kýrnar átu feitu kýrnar. Hitt væri þó enn þá slysalegra, ef svo skyldi til takast, að feitu kýrnar ætu sig sjálfar.

Á hverju eiga þá þær mögru að lifa?