02.05.1941
Neðri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

103. mál, stríðsgróðaskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti! Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar og leggur til, að frv. verði samþ. með einni breyt., sem prentuð er á þskj. 293. Í 2. gr. frv. er ákvæði um það, að ríkisstj. skuli greiða til hvers bæjarfélags 40% af þeim stríðsgróðaskatti, sem lagður er þar á og innheimtur, en þó ekki meira en 25% af niðurjöfnuðum útsvörum á því ári. Fjhn. leggur til, að sá stríðsgróðaskattur, sem koma skal í hlut sveitar- og bæjarfélaganna, megi nema 40% af niðurjöfnuðum útsvörum, í staðinn fyrir 25%. — Einnig er hér brtt. á þskj. 298, frá meiri hl. fjhn. Að undanförnu hafa bæjar- og sýslufélög hér á landi fengið greidd 12% af álagðri viðbót við tekju- og eignarskattinn, eftir l. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Nú er ekki gert ráð fyrir, að sú löggjöf verði framlengd á þessu þingi, og fellur því þetta gjald niður. Meiri hl. n. leggur til í brtt., að ríkissjóður greiði 6% af þeim stríðsgróðaskatti, sem innheimtur verður eftir frv., til þeirra bæjar- og sýslufélaga, sem engan skatt fá eftir 2. gr. frv. En ætlazt er til, að fé þessu verði skipt milli bæjar- og sýslufélaganna í hlutfalli við þann tekjuskatt, sem til fellur á hverjum stað.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en óska eftir því, að brtt. verði bornar undir atkv. ásamt frv.