08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

99. mál, sjómannalög

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Sjútvn. hefur á ný farið höndum um þetta frv., en það var borið hér fram á síðasta þingi í þessari hv. d., og hafði þá sjútvn. mælt með því, en það dagaði uppi í Nd. og var ekki afgr.

Frv. er í sama formi og á síðasta þingi. N. sá ekki ástæðu til að bæta þar um né breyta. En efnið er í stuttu máli á þá lund, sem rakið er í nál. á þskj. 382.

Höfuðmarkmið frv. er það, að loftskeytamenn á skipum skuli teljast yfirmenn og njóta þeirra réttinda, sem því nafni fylgja í l. nr. 41 frá 1930, sjómannalögunum. Ég fer ekki að telja upp hér, í hverju þau réttindi eru fólgin. En það eru í stuttu máli einkum lengri frestir, lengri tími, sem þeir njóta hlunninda en algengir skipverjar, bæði um ráðningarslit og í sjúkdómstilfellum. (BSt: Yfir hverjum eru loftskeytamenn?). Það er að vísu svo, að oft eru ekki fleiri en einn loftskeytamaður á skipi, en þar fyrir getur vel verið eðlilegt, að þeir njóti sömu réttinda og yfirmenn. Enda hefur þessi krafa fengið viðurkenningu í reyndinni, því að í öllum samningum, sem loftskeytamenn hafa gert upp á síðkastið, hefur verið samið á þeim grundvelli, sem hér er miðað við. Um kjör þeirra hefur samizt. Hér er því í raun og veru aðeins farið fram á að lögfesta venju, sem skapazt hefur. Þetta er í stuttu máli efni frv.

Ég tel, ekki ástæðu til að rekja hér nánar efni sjómannal. um kjör yfirmanna. Það var gert allrækilega hér í fyrra.

Þegar l. nr. 41 frá 1930 voru sett, var þetta ekki tekið með, en þá var farið eftir löggjöf Norðurlandanna, en þá voru loftskeytamenn í raun og veru taldir með yfirmönnum, þótt ákvæði um það væru ekki komin inn í lögin. Nú er þetta orðið breytt þar.

Vænti ég, að hv. d. fallist á frv.