02.05.1941
Neðri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

112. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Ísleifur Högnason:

Ég var ekki viðstaddur fyrri umr. þessa máls, og þess vegna hefur farið fram hjá mér það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði þá um málið. En það, sem hann sagði nú, hefur ekki sannfært mig um það, að þetta frv. beri að samþykkja.

Það er meira en lítið bogið við rekstur þessara fyrirtækja, ef þau hafa starfað í 30 ár og hafa ekki átt fyrir skuldum. Ástæðan hlýtur að hafa verið sú, að iðgjöldin hafa ekki verið nægilega há, og ég álít, að ef það kemur á daginn eins og nú, að félögin hafa orðið fyrir stórtjóni, þá verður það vitanlega eina leiðin að hækka iðgjöldin og nota þá ríkisábyrgðina til þess að standa straum af auknum útgjöldum.

Félögin verða að byggja sig upp á iðgjöldunum, en það kemur ekki til mála, að ríkissjóður fari að kasta út stórfé árlega, hvorki fyrir þetta né annað hliðstætt fyrirtæki.

Þess vegna mun ég, eins og málið horfir nú við, greiða atkv. gegn því. En eins og ég tók fram áðan, þykir mér málið ekki hafa fengið þinglega afgreiðslu, og hefur síðasti ræðumaður, hv. þm. N.-Þ., einmitt staðfest það með sínum skýringum, að hann hafi ekki verið kallaður á fund, þegar málið var til umr. í sjútvn.

Ég er sem sagt af þessum ástæðum á móti Þessu máli.