10.05.1941
Efri deild: 57. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

91. mál, tannlæknakennsla við læknadeild háskólans

Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Með frv. þessu, sem hér liggur fyrir, er farið fram á, að sett verði við Háskóla Íslands deild, sem kenni tannlækningar. Er í 2. gr. frv. ákveðið að nokkru leyti framlag til deildarinnar og í 3. gr. er ákveðið um kennaralið þessarar deildar.

Í grg. frv. eru færð allýtarleg rök fyrir því, að mjög erfitt er að fullnægja þörf fyrir tannlækningar hér á landi, eins og nú er, sérstaklega af þeirri ástæðu, að hingað til höfum við þurft að sækja alla tannlæknamenntun út til annarra landa. En þörfin fyrir lækna í þessari sérgrein er orðin mikil hjá okkur. Og í grg. fyrir frv. eru færð rök fyrir því, að það sé ekki hyggileg ráðstöfun að hafa hér stofnun, sem vel getur innt af hendi kennslu í þessum fræðum, og nota sér það ekki. Landlæknir hefur tilkynnt mér, að kennaraefni sé til hjá okkur í þessum fræðum, sem hefur numið erlendis, og landlæknir hefur einnig látið í ljós við mig, í viðtali, að kostnaður við þessa deild muni ekki verða stórum meiri en þeir styrkir, sem veittir eru þeim mönnum, sem þetta nám hafa sótt til annarra landa.

Í grg. frv. er vikið allmjög að því, að tannsjúkdómar fari mjög hraðvaxandi hér á landi, og það eru allmiklar líkur til þess, að það muni kannske að einhverju leyti stafa af því, að tannlæknar séu hér of fáir og ónógri fræðslu til fólksins um það, hvernig eigi að girða fyrir tannskemmdir í tíma.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi kynnt sér grg. fyrir þessu frv. Hún er ýtarleg og fróðleg. Hún hnígur öll að því að færa fram rök fyrir því, að það sé okkur ekki aðeins metnaðarniál að hafa tannlækningakennslu í landinu sjálfu, heldur sé það galli á okkar læknakennslu að hafa ekki tannlækningakennslu í háskólanum.

Allshn. hefur athugað frv. Og þar sem frv. hefur gengið í gegnum hv. Nd. andstöðulaust, sér n. ekki ástæðu til annars en að mæla með því, að frv. gangi fram. Og n. gat ekki fundið neina ástæðu til þess að gera brtt. við frv. Má vel vera, að það geti komið í ljós með reynslunni, að einhver ákvæði frv. þyrftu að vera á annan veg heldur en þau eru sett í frv. En allshn. telur sig bresta þekkingu til þess að gera þar um nokkrar brtt.