12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

108. mál, bæjarstjórn á Akranesi

Frsm. (Magnús Gíslason) :

Herra forseti! Frv. þetta hefur borizt hingað frá hv. Nd., þar sem það var lagt fyrir Alþingi af hv. þm. Borgf. eftir ósk hreppsn. Ytri-Akraneshrepps.

Frv. þetta fer fram á það, að Akraneskauptún verði tekið í tölu kaupstaða og veitt kaupstaðarréttindi, að það verði lögsagnarumdæmi út af fyrir sig og umdæmið nái yfir núverandi YtriAkraneshrepp og heiti Akraneskaupstaður. Umdæmi þetta á hér eftir sem hingað til að vera í alþingiskjördæmi Borgarfjarðarsýslu. Að öðru leyti er þetta frv. sniðið eftir þeim lögum um kaupstaðarréttindi, sem sett hafa verið á síðari árum, og að formi til svo að segja samhljóða slíkum lögum, t. d. l. um bæjarstj. í Neskaupstað.

Í Nd. voru gerðar mjög litlar breyt. á frv., aðeins smávægilegar orðabreyt., og allshn., sem hefur haft þetta mál til athugunar, hefur ekki séð ástæðu til að gera neinar athugasemdir eða breyt. á því.

Mál þetta hefur verið undirbúið heima fyrir á Akranesi, þannig að bæði liggur fyrir fundarsamþykkt, þar sem samþ. hefur verið með yfirgnæfandi meiri hluta að óska þess, að kauptúninu verði veitt bæjarréttindi, og enn fremur hefur farið fram skrifl. atkvgr. um þetta, sem fór á sömu leið, að þeir, sem óskuðu eftir þessu, voru í miklum meiri hluta. Sömuleiðis var haldinn aukasýslufundur um málið í Borgarfjarðarsýslu og þar lagður grundvöllur að fjárskiptum• milli hins nýja kaupstaðar og Borgarfjarðarsýslu.

Þau rök, sem liggja til þess, að n. mælir með því, að þetta frv. verði samþ., eru hin sömu og gilt hafa í þeim tilfellum, sem Alþingi hefur áður veitt bæjarréttindi, sem sé, þegar kauptún eru orðin eins fjölmenn og Akranes nú, þá sé málefnum þeirra betur borgið með því. að hafa þá stjórn á bæjarmálum, sem gert er ráð fyrir, þegar um bæjarréttindi er að ræða, þ. e. a. s. kosin bæjarstjórn, sem hefur með málefni kaupstaðarins að gera, og bæjarstjóri, sem hefur á hendi framkvæmdir og ályktanir bæjarstjórnar. Þetta hefur að vísu aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð, þar sem gert er ráð fyrir, að skipaður verði nýr embættismaður, bæjarfógeti Akraness, en ekki eru þetta þó stórvægileg útgjöld frá því, sem nú er, því þar hefur um nokkurra ára skeið verið skipaður lögreglustjóri, sem hefur verið launaður af ríkissjóði. Þar sem gert er ráð fyrir, að hinn nýi bæjarfógeti hafi sömu laun og sýslumenn í lægri launaflokki, þá er hér ekki um mikil útgjöld að ræða og ekki horfandi í það, ef ganga má út frá því, að málefnum kaupstaðarins sé betur komið með þessari skipan en annars. Ég legg því til fyrir hönd n., að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir í þessar hv. deild.