15.04.1941
Neðri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

79. mál, landnám ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Umræður um þetta mál hafa verið meira á þann veg, eins og um 1. umr. væri að ræða, en það er kannske ekki óeðlilegt, Þar sem málið hefur farið svo fljótt áfram.

Það er eitt atriði í 3. gr., sem ég vil minnast á og skjóta til landbn. að athuga. Í þessari gr. er gert ráð fyrir, að ríkið styrki tvenns konar framleiðslu, fyrst landnám við sjó og í öðru lagi landnám í sveitum. Þetta er nokkuð ónákvæmt orðalag og nær ekki því, sem vakað hefur fyrir höfundum frv., að því er mér virðist. Ég hygg, að annars vegar sé um að ræða land.nám í sveitum og hins vegar aukna ræktun lands við sjávarþorp, en að ekki sé meiningin, að það heyri ekki undir landnám í sveitum, þó að svo hagi til, að nýbýli verði reist við sjó. Fjöldi af jörðum þessa lands liggur að sjó, og má ekki loka fyrir það, að nýbýli á slíkum stöðum geti notið hlunninda samkv. b-lið 3. gr. Þess vegna þarf að athuga, hvort eigi verður að breyta orðalaginu „við sjó“ og taka skýrar fram, að átt sé við landnám við sjávarþorp eða þess háttar. Þetta mætti athuga fyrir 3. umr.