24.05.1941
Sameinað þing: 20. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög

Skúli Guðmundsson:

Ég ætla ekki að gera frv. almennt að umtalsefni eða þær tillögur, sem fyrir liggja. En á það vil ég benda, að þrátt fyrir greiðsluhallann, sem ýmsum þykir nokkuð hár eftir 2. umr. og útlit er fyrir, að vaxi, ef margt verður enn samþ. af brtt., þá sýnist mér allmikið vanta á, að teknar hafi verið gjaldamegin í frv. allar greiðslur, sem fyrirsjáanlegt er, að ríkið verður að inna af höndum á næsta ári. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að nauðsynlegt er að hafa áætlun fjárl. eins gætilega og rétta og unnt er. Þó má ekki láta vanta liði eins og þá, sem ég skal nú drepa á.

Það er búið að afgreiða hér lög um fjarskipti, sem gera ráð fyrir, að þau gjöld, sem hvílt hafa á einstökum héruðum vegna rekstrar á símstöðvum II. og III. flokks, falli niður, og þær verði reknar eingöngu á kostnað landssímans. Af þessu hlýtur að leiða nokkra útgjaldahækkun hjá landssímanum, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í fjárlfrv. Það getur vel verið, að þetta komi ekki að sök, af því að tekjurnar muni reynast meiri en áætlað er. Þá vil ég benda á það, að Alþ. er nú búið að samþ., að lagðar verði fram frá ríkinu til lánadeildar smábýla 100 þús. kr. á ári í næstu 3 ár, og sú upphæð hefur ekki verið tekin inn í fjárlfrv. Sama máli gegnir um framlag til Samábyrgðarinnar, sem hefur þegar verið lögfest, það er 50 þús. kr. framlag á ári í næstu 10 ár. Þá má einnig benda á l., sem nýlega voru samþ. um gjaldeyrisvarasjóð. Í þeim er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði Landsbankanum vaxtahalla af þeirri upphæð, sem hann á eftir þeim l. að leggja í gjaldeyrisvarasjóð. Enn vil ég nefna breyt. á l. um iðnlánasjóð, sem hafa í för með sér 40 þús. kr. hækkun á framlagi ríkissjóðs til þess sjóðs, en ekki hefur enn verið gert ráð fyrir í brtt. við fjárlfrv. Sömuleiðis hafa verið sett l. um læknisvitjanasjóði, sem hafa einhver útgjöld í för með sér. Að síðustu vil ég minna á þá breyt., sem nýlega hefur verið gerð á l. um fiskveiðasjóð, en samkv. þeirri breyt. á fiskveiðasjóður að fá ¼ hluta af útflutningsgjaldi sjávarafurða, og verður það til þess, að , tekjur ríkissjóðs rýrna um verulega fjárhæð.

Þá eru enn, auk þess sem ég hef nefnt, nokkur lagafrv., sem nú hafa ekki fengið fullnaðarafgreiðslu, en liggja fyrir þessu þingi og vel má búast við, að nái samþykki áður en þingi lýkur, en hafa í för með sér allmikil útgjöld. Ég get nefnt frv. til l. um sjómannaskóla, sem liggur nú hér fyrir Nd., en hefur þegar fengið afgreiðslu í Ed. Mér sýnist útlit fyrir, að frv. nái samþykki, þar sem sú n., sem hefur málið til meðferðar, hefur skilað áliti og lagt til, að frv. verði samþ. Í þessu frv., er gert ráð fyrir 300 þús. kr. útgjöldum á næsta ári, ef ég man rétt. Hér horfir málið þannig, að búast mætti við því, að fram kæmu till. um enn meiri framlög í þessu skyni. Mér þykir ástæða til þess að vekja athygli á þessu, að það eru veruleg útgjöld, sem fyrirsjáanlegt er, að ríkissjóður mun þurfa að greiða á næsta ári, en vantar inn í fjárlfrv.

Ég vil þá þessu næst víkja að þeim 2–3 brtt., sem eru mér viðkomandi. Fyrst vil ég minnast á eina brtt. frá fjhn., það er 10. till. á þskj. 594, um framlag til lendingarbóta á Hvammstanga, 7 þús. kr. Þar hefur hv. fjvn. tekið ósk mína til greina um það framlag. En ég vil aðeins henda á það, að þetta fé, ef notað verður, verður notað til bryggjugerðar á þessum stað. Ríkið hefur þegar lagt fram, fyrir tveim árum, 12–13 þús. kr. til að byrja þessa bryggjugerð, en það er gert ráð fyrir því að auka þar við, þegar tækifæri gefst, og í því skyni fór ég fram á, að þetta fé yrði veitt. Ég hef ekki borið fram brtt. við orðalag till. Þar hefði átt að standa „til bryggjugerðar“, en ekki „til lendingarbóta“. En ég geri ráð fyrir, að þetta komi í sama stað niður, vegna þess að á þessum lið 13. gr. eru í einu lagi framlög til bryggjugerða og lendingarbóta á þeim stöðum, þar sem ríkið leggur fram 1/3 af kostnaði við þær framkvæmdir, og þetta kemur undir þann lið.

Ég vil þá minnast á till., sem ég hef flutt ásamt hv. þm. A.-Sk. og hv. 1. þm. Rang., og er hún á þskj. 619. Er hún um það, að fé það, sem eftir fjárlfrv. á að leggja til hafnargerðar við sunnanverðan Faxaflóa, skuli geymt þar til Alþ. hefur sett l. um þessa hafnargerð. Þetta er í samræmi við það, sem ég hélt fram við 2. umr. fjárl. Það mun hafa verið venja, að fjárveitingar væru ekki teknar upp í fjárl. fyrr en búið er að setja l. um hafnargerðir. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, af því að ég gerði grein fyrir skoðun minni um þetta atriði við 2. umr. málsins. Sama máli gegnir um aðra brtt. okkar, sem er um hafnargerð við Lónsfjörð, sem nú hefur verið samþ. við 2. umr. og veitt fé til. Það er eins um þessa fyrirhuguðu höfn eins og hina, að um hana hafa engin l. verið sett enn, og viljum við því láta gilda það sama um þá fjárveitingu, að féð verði geymt þar til l. hafa verið sett um hafnargerðina.

Að lokum vil ég minnast á eina litla brtt. á sama þskj. (619), það er 15. liðurinn á því þskj., og er till. sú frá mér og hv. 2. þm. Eyf. Brtt. er um það að veita frú Bergljótu Benediktsdóttur í Garði 600 kr. styrk til þess að greiða fyrir útbreiðslu og notkun á íslenzkum jurtalitunarefnum. Þessi kona er ekkja, sem býr í Garði í Aðaldal. Hún hefur unnið að því með góðum árangri að nota íslenzk jurtaefni til litunar á ullarbandi, og við flm. teljum það vel viðeigandi, að henni verði veitt þessi viðurkenning. Við flm. till. höfum hins vegar ekki athugað það í tíma að koma þessari till. á framfæri við hv. fjvn., en væntum þess, þar sem um svo litla fjárhæð er að ræða, að bæði fjvnm. og aðrir hv. þdm. geti á það fallizt að samþykkja þessa tillögu.